Samþykktir

SAMÞYKKTIR LANDSSAMBANDS KÚABÆNDA

1. gr.

Félög nautgripabænda á Íslandi mynda með sér samtök sem heita Landssamband kúabænda (skammst. LK). Heimili og varnarþing LK er á skrifstofu samtakanna.

 

2. gr.

Tilgangur LK er að sameina þá, sem stunda nautgriparækt í atvinnuskyni, um hagsmunamál sín og vinna að framgangi þeirra. Einnig að annast kynningar- og fræðslustarf um málefni búgreinarinnar og afla þeim stuðnings.

 

3. gr.

3.1. Rétt til aðildar að LK hafa öll svæðisbundin félög nautgripabænda á landinu, enda fari samþykktir þeirra ekki í bága við samþykktir LK. Aðildarfélög LK skulu vera sjálfstæð. Þau skulu setja sér samþykktir og halda félagatal.

Aðildarfélög LK eru eftirtalin:

Mjólkursamlag Kjalarnesþings

Kúabændafélagið Baula á Vesturlandi

Félag nautgripabænda við Breiðafjörð

Félag kúabænda í Ísafjarðarsýslum

Nautgriparæktarfélag Vestur Húnavatnssýslu

Félag kúabænda í Austur-Húnavatnssýslu

Félag kúabænda í Skagafirði

Félag eyfirskra kúabænda

Félag þingeyskra kúabænda

Félag nautgripabænda á Héraði og Fjörðum

Nautgriparæktarfélag Vopnafjarðar

Nautgriparæktarfélag Austur-Skaftafellssýslu

Félag kúabænda á Suðurlandi

3.2 a) Fulla aðild að LK geta átt þeir einstaklingar og lögaðilar sem þess óska og halda nautgripi í atvinnuskyni, enda séu þeir félagar í einu aðildarfélagi samtakanna og greiði félagsgjald til LK samkvæmt grein 5.4

b) Á búum þar sem a.m.k. einn einstaklingur eða lögaðili er félagsmaður í LK samkvæmt staflið a) skal aðild einnig heimil öðrum þeim einstaklingum sem standa að búrekstrinum. Með því er  átt við maka rekstraraðila, eigendur félagsbúa eða lögaðila sem standa fyrir búrekstri eða aðra þá einstaklinga sem standa sannanlega að búrekstrinum.

3.3. Sæki tvö félög um aðild, sem hafa að einhverju eða öllu leyti sama félagssvæði, skal stjórn LK leitast við að ná samkomulagi um málið. Takist það ekki skal stjórnin leggja fram tillögu fyrir aðalfund LK hversu með skuli fara og er afgreiðsla hans fullnaðarúrskurður í málinu.

3.4. LK ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með eignum sínum, en hvorki aðildarfélögin né einstakir félagsmenn.

3.5. Hollvinir LK geta verið þeir einstaklingar, 18 ára og eldri, sem stunda ekki nautgriparækt í atvinnuskyni en styðja markmið samtakanna. Aðild þessara félaga fylgir enginn atkvæðisréttur eða önnur félagsleg réttindi.

3.6. Einungis félagsmenn með fulla aðild, sbr. liði 3.2 a) og 3.2 b), geta gegnt trúnaðarstörfum fyrir LK.

 3.7. Full félagsaðild sbr. liði 3.2. a) og b) fellur niður hætti félagsmenn að halda nautgripi í atvinnuskyni. Segi félagsmenn sig úr félaginu tekur úrsögnin gildi 6 mánuðum frá frá mánaðarmótum eftir að tilkynning um úrsögn berst.

 

4. gr.

Aðild LK að öðrum félagasamtökum er háð samþykki aðalfundar.

 

5. gr.

5.1. Aðalfund skal halda árlega og hefur hann æðsta vald í öllum málefnum LK.

5.2. Aðalfund sitja með fullum réttindum fulltrúar aðildarfélaganna kosnir á aðalfundum þeirra í leynilegri kosningu. Sé starfrækt innan viðkomandi aðildarfélags trúnaðarmannaráð, sem kosið er á aðalfundi með framangreindum hætti og innifelur a.m.k. tvöfaldan þann fjölda fulltrúa sem félaginu ber, er aðalfundi þess heimilt að vísa fulltrúakjörinu þangað.

5.3. Fjöldi fulltrúa frá hverju félagi skal miðast við fjölda félagsmanna á félagssvæðinu sem hafa greitt félagsgjald til LK samkvæmt grein 3.a. Skal einn fulltrúi kosinn á aðalfund fyrir hverja byrjaða 35 félagsmenn. Komi upp ágreiningur um fjölda félagsmanna sem telja til fulltrúakjörs hjá hverju aðildarfélagi skal stjórn LK úrskurða um málið.

5.4. Félagsmenn sem eiga aðild að LK samkvæmt ákvæðum a) liðar 3. gr. skulu greiða félagsgjald sem reiknast sem ákveðin upphæð pr. ltr. mjólkur sem lögð er inn til úrvinnslu í afurðastöð og sem ákveðin upphæð pr. grip í UN, K og K1U flokki sem slátrað er í afurðastöð, utan úrkasts.

5.5. Hollvinir LK samkvæmt grein 3.5 skulu greiða árgjald sem ákvarðað er á aðalfundi hvers árs.

5.6. Stjórnarmenn og skoðunarmenn ásamt varamönnum þeirra hafa málfrelsi og tillögurétt á aðalfundi ásamt búnaðarþingsfulltrúum LK. Aðalfundurinn er opinn til áheyrnar öllum félagsmönnum aðildarfélaganna. Óski fleiri aðilar en hér er getið um, eftir að sitja aðalfund með málfrelsi og tillögurétt skal það borið undir fundinn.

5.7. Á dagskrá skal vera:

a) Skýrslur stjórnar og nefnda um félagsstarfið og umræður um þær.

b) Afgreiðsla reikninga fyrir næst liðið almanaksár, fullnægjandi félagaskrá aðildarfélaga skal ávallt fylgja endurskoðuðum ársreikningi samþykktum á aðalfundi.

c) Tillögur og erindi til umræðu og afgreiðslu.

d) Kosningar

I. Kjör formanns til eins árs.

II. Kjör fjögurra meðstjórnenda og 1. og. 2. varamanns til eins árs.

III. Kjör tveggja skoðunarmanna fyrir reikninga LK og eins til vara til eins árs.

IV. Kjör aðal- og varafulltrúa á Búnaðarþing og ársfund BÍ til tveggja ára.

e) Ákvörðun um upphæð félagsgjalds og skiptingu þess milli LK og einstakra aðildarfélaga, ásamt gildistíma nýskráninga og úrsagna í LK. Ákvörðun um upphæð árgjalds hollvina.

f) Fjárhagsáætlun til næsta árs.

d) Önnur mál.

5.8. Aðalfund skal boða eigi síðar en 10. janúar ár hvert til stjórna aðildarfélaganna. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.

 

6. gr.

Aukafund skal halda þyki stjórn LK sérstök nauðsyn bera til og jafnan þegar aðildarfélög, eitt eða fleiri, með samtals a.m.k ¼ félagatölu LK, óska þess, enda sé þá fundarefni tilgreint. Aukafund skal boða með minnst 7 daga fyrirvara. Um rétt til fundarsetu á aukafundum gilda sömu reglur og á aðalfundi.

 

7. gr.

7.1. Stjórn LK skipa fimm menn kosnir á aðalfundi leynilegri kosningu og skulu allir

félagsmenn vera í kjöri.

7.2. Fyrst skal kosinn formaður í beinni kosningu. Fái enginn meira en helming greiddra atkvæða skal kosið aftur bundinni kosningu milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Ef jafnt verður að nýju skal hlutkesti varpað. Síðan skal kjósa fjóra meðstjórnendur. Náist ekki niðurstaða um hverjir séu rétt kjörnir stjórnarmenn í einni umferð kosninga, skal kosið aftur bundinni kosningu milli þeirra sem jafnir eru. Sé jafnt að nýju skal hlutkesti varpað. Stjórnin skiptir með sér verkum varaformanns, ritara og meðstjórnenda svo fljótt sem kostur er. Formaður skal sjálfkjörinn sem fulltrúi á búnaðarþing, en að öðru leyti skal kjör búnaðarþingsfulltrúa fara fram með sama hætti og stjórnarkjör.

7.3. Heimilt er að skipa uppstillinganefnd vegna kosninga á aðalfundi, enda hafi fundarstjórum borist tillaga um slíkt í upphafi fundar. Uppstillinganefnd skal skipuð þremur aðalfundarfulltrúum og skal hún skila inn tillögum um jafn marga einstaklinga og kjósa skal, að öðrum kosti telst tillagan ekki gild.

 

8. gr.

8.1. Hlutverk stjórnar er að annast málefni félagsins milli félagsfunda og sjá um að þau séu jafnan í sem bestu horfi. Hún ræður starfsfólk og veitir prókúru fyrir félagið.

8.2. Undirskriftir þriggja stjórnarmanna þarf til að skuldbinda félagið.

 

9. gr.

9.1. Formaður boðar til stjórnarfunda þegar ástæða þykir til og stjórnar þeim. Þó er honum skylt að boða fund ef tveir stjórnarmenn óska þess, enda sé þá fundarefnið tilgreint. Stjórnarfundur er lögmætur sé meirihluti stjórnar á fundi.

9.2. Stjórn LK skal skrá fundargerðir á fundum sínum. Fundargerðir skulu birtar á vefsvæði LK svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en að loknum næsta stjórnarfundi. Stjórnarmenn skulu staðfesta afrit af fundargerðinni með undirskrift sinni og skal stjórn sjá til þess að þau afrit séu varðveitt með tryggilegum hætti.

 

10. gr.

Aðildarfélög LK skulu senda félagatal og aðrar nauðsynlegar upplýsingar um starfsemi viðkomandi félags til skrifstofu LK eftir því sem stjórn LK ákveður hverju sinni. Félagatal skulu aðildarfélög senda til skrifstofu LK eigi síðar en 31. desember ár hvert. LK sendir hverju félagi staðfesta tölu fulltrúa á aðalfund eigi síðar en 10. janúar ár hvert. Frá þeim tíma hafa félögin 7 daga til að gera athugasemdir við fulltrúatöluna. Komi upp álitamál skal stjórn LK úrskurða um málið samkvæmt gr. 5.3. svo fljótt sem kostur er. Eins fljótt og við verður komið eftir aðalfund hvers aðildarfélags skal stjórn þess senda LK skýrslu um störf félagsins á liðnu ári, upplýsingar um kosningar í stjórn og fulltrúa á fundi LK og annað sem máli kann að skipta. Þessar upplýsingar skulu hafa borist skrifstofu LK eigi síðar en 20 dögum fyrir aðalfund. Mál sem taka á til afgreiðslu á aðalfundi LK, skulu hafa borist skrifstofu LK eigi síðar en 20 dögum fyrir aðalfund. Öll gögn sem leggja á fram, til umfjöllunar eða afgreiðslu skulu birt aðalfundarfulltrúm eigi síðar en 10 dögum fyrir setningu aðalfundar. Aðalfundur getur þó ákveðið að taka til afgreiðslu mál sem koma síðar fram.

 

11. gr.

Samþykktum þessum má aðeins breyta á aðalfundi eða aukafundi, sem boðaður er til þess sérstaklega. Tillögur þar um skulu kynntar stjórnum aðildarfélaganna eigi síðar en 20dögum fyrir aðalfund. Ná þær því aðeins fram að ganga að meirihluti kjörinna fulltrúa greiði þeim atkvæði.

 

12. gr.

Leggist starfsemi LK niður og félaginu er slitið skulu eigur þess ganga til aðildarfélaganna í hlutfalli við félagatölu.

 

13.gr.

Ákvæði samþykkta þessara gilda frá og með aðalfundi 2016. Búnaðarþingsfulltrúar sem kosnir voru á aðalfundi 2015 halda þó kjörgengi sínu fram til aðalfundar 2017 í samræmi við samþykktir Bændasamtaka Íslands.

 

Ákvæði gr. 3.2 a) og 3.2 b), gr. 5.3 og gr. 5.4 taka gildi þegar innheimta búnaðargjalds fellur niður.

 

Samþykkt samhljóða á aðalfundi Landssambands kúabænda 2017