Lífræn mjólkurframleiðsla

Í dag eru tvö bú á landinu sem stunda lífræna mjólkurframleiðslu sem fer til vinnsluaðila. Það eru búin Búland í Austur landeyjum og Neðri Háls í Kjós. Auk þess eru nokkrir aðrir sem framleiða lífræna mjólk til eigin nota.

Auðhumla selur lífræna mjólk til vinnsluaðila, sem framleiða og selja lífrænar afurðir.

Árið 2017 var framleiðsla lífrænnar mjólkur 449.630 lítrar og salan 441.880. Lífræn mjólk sem ekki selst til vinnsluaðila lífrænna afurða er seld öðrum vinnsluaðilum, sem nýta mjólkina til famleiðslu eðlilegra afurða.

Öll lífræn mjólk sem framleidd er í sveitum landsins er keypt af Auðhumlu svf. Auðhumla kaupir lífrænu mjólkina á lágmarksverði mjólkur til framleiðenda með 44,5% álagi. Árið 2017 eru greiddar 126,29 krónur á hvern lítra.

 

Í búvörusamningum sem tóku gildi 1. janúar 2017 er stuðningur við lífræna framleiðslu stóraukinn frá því sem áður var og er nú 32-35 milljónir króna á ári út samningstímann.

  • Matvælastofnun ráðstafar þeim fjármunum sem ætlaðir eru til að styðja við aðlögun að lífrænum framleiðsluháttum. Þeir sem hafa rétt á þeim stuðningi eru framleiðendur sem hafa byrjað lífræna aðlögun í landbúnaði undir eftirliti faggildrar vottunarstofu og í samræmi við gildandi reglugerð um lífræna framleiðslu og merkingu lífrænna vara, með síðari breytingum, geta sótt um aðlögunarstuðning. Skilyrði fyrir stuðningi eru fullnægjandi skil á skýrsluhaldi í þeim búgreinum sem við á hverju sinni.
  • Stuðningur við hvern framleiðanda getur að hámarki numið 50% af árlegum aðlögunarkostnaði með tilliti til umfangs aðlögunar. Hver framleiðandi getur þó ekki fengið hærra framlag árlega en 20% af heildarframlögum stuðningsins samkvæmt fjárlögum.
  • Heimilt er að veita framleiðanda árlegan aðlögunarstuðning á meðan aðlögun undir eftirliti faggildrar vottunarstofu stendur yfir. Umsækjandi skal þá sækja um að nýju skv. 24. gr. Ný umsókn skal vera með uppfærðum upplýsingum og fylgiskjölum auk þess skal fylgja með umsókn stað- festing faggildrar vottunarstofu á að aðlögun standi yfir samkvæmt áætlun.
  • Hætti framleiðandi lífrænni aðlögun innan tveggja ára frá því aðlögunarstuðningur var síðast veittur er Matvælastofnun heimilt að krefjast endurgreiðslu á greiddum stuðningi, að hluta til eða í heild sinni, ásamt kostnaði við innheimtu.