Viltu fá betri frjósemi í hjörðina þína? Komdu þá í veg fyrir júgurbólgu!

Flokkar: Sjúkdómar

23. nóvember 2007

Viltu fá betri frjósemi í hjörðina þína? Komdu þá í veg fyrir júgurbólgu!

Nýlegar rannsóknir hafa staðfest að samhengi er á milli júgurbólgu og lélegrar frjósemi, hvort sem frjósemin er mæld sem dagar frá burði að fyrsta beiðsli eftir burð, fanghlutfall við fyrstu sæðingu eða lífslíkur fósturs.

 

Þegar kýrin fær júgurbólgu fylgir því oft hiti og það hefur bein neikvæð áhrif á eggin í kúnni. Einnig myndast boðefni í ónæmiskerfi vegna sýkingarinnar, boðefnin hafa óbein neikvæð áhrif á frjósemina með því að trufla gangferil kýrinnar. Þetta sýnir fram á ákveðin tengsl á milli ónæmiskerfis og æxlunarfæra sem hefur áhrif á frjósemi hjarðarinnar.

 

Júgurbólga er sá sjúkdómur sem veldur mjólkurframleiðendum langmestu fjárhagslegu tjóni. Bæði vegna afurðataps, dýralækna- og lyfjakostnaðar, vinnu við meðhöndlun og ótímabærrar förgunar. En það er ekki öllum mjólkurframleiðendum ljóst hversu neikvæð áhrif júgurbólga getur haft á frjósemi.

 

Erlendar heimildir eru ekki á einu máli um áhrif júgurbólgu á frjósemi. Helst eru það eldri rannsóknir sem ekki benda til lélegra frjósemi þrátt fyrir júgurbólgu, en nýrri heimildir leiða í ljós að júgurbólga og aðrir sjúkdómar, sem ekki tengjast æxlunarfærum beint, geta haft alvarleg áhrif á frjósemina með því að valda því að beiðsli falla niður, fósturdauða eða að kýrin festir ekki fang. Einnig er tilhneiging til að tímabil frá burði að fyrsta beiðsli lengist.

 

Hiti á þeim tíma sem eggið í kúnni þroskast eða snemma á meðgöngu eykur líkurnar á fósturdauða. Önnur ástæða fyrir lélegri frjósemi getur verið að júgurbólgubakteríur í júgrinu seyta frá sér boðefni í sem veldur því að ónæmiskerfið geta beinlínis hindrað eðlilega virkni æxlunarfæranna.

 

Júgurbólga getur rýrt æxlunarhæfnina vegna hormónabreytinga og hindrunar á eggbúaþroska. Í rannsókn sem gerð var á 19 kúm sem voru sýktar viljandi með júgurbólgusýklum nokkrum dögum fyrir egglos, fengu 12 af þeim ekki egglos og aðeins fjórar kýr höfðu eðlilegt egglos og fóru í beiðsli. Júgurbólgukýrnar voru með truflað starfssemi á LH hormóni og estrógeni.

 

Sænsk rannsókn, þar sem skoðaðar voru mælingar frá 1000 mjaltaskeiðum, staðfestir þetta. Sænskir fræðimenn rannsökuðu umhverfisáhrif á frjósemisþætti snemma á mjaltaskeiðinu. Kýr sem höfðu verið júgurbólgumeðhöndlaðar á tímabilinu 0-60 daga frá burði voru bornar saman við heilbrigðar kýr. Júgurbólga sýndi sig hafa marktæk neikvæð áhrif á þrjá frjósemiþætti.

 

Margt bendir því til, að með því að lækka tíðni júgurbólgu batni að sjálfsögðu júgurheilbrigðið í hjörðinni, en einnig hefur það jákvæð áhrif á frjósemisárangurinn.

 

Heimild: KvægInfo nr. 1711, höfundar eru Søs Ancker og Karen Helle Sloth.
ENG