Flokkar: Samningar, réttindi og annað

1. desember 2004

Greinargerð um verðlagningu

Greinargerð um verðlagningu mjólkur á framleiðenda- og heildsölustigi m. gildistöku 1. janúar 2005:

 

Við framreikning á verðlagsgrundvelli fyrir kúabú kom í ljós að kostnaður hafði hækkað um 4,85% frá 1. september 2003 til 1. september 2004. Breyting einstakra kostnaðarliða kemur fram í meðfylgjandi töflu.

 

Einstakir liðir 1. sept. 2003 1. sept. 2004 Mismunur Breyting
Kjarnfóður 1.392.497 1.599.123 206.626 +14,84%
Áburður 693.179 754.177 60.998 +8,80%
Rekstrarvörur 450.070 495.207 45.137 +10,03%
Vélar 1.214.549 1.327.563 113.014 +9,31%
Flutningur 815.923 801.830 -14.093 -1,73%
Þjónusta 680.212 705.416 25.204 +3,71%
Viðhald 512.401 538.916 26.515 +5,17%
Ýmis gjöld 1.059.635 1.102.309 42.674 +4,03%
Afskriftir húsa 670.866 705.580 34.714 +5,17%
Afskriftir vél 1.383.655 1.448.111 64.456 +4,66%
Vextir v. húsa 811.999 770.939 -41.060 -5,06%
Vextir v. véla 1.057.554 993.923 -63.631 -6,02%
Launaliður 6.102.188 6.419.027 316.839 +5,19%
ALLS 16.844.728 17.662.121 817.393 +4,85%

 

Við athugun á vinnslu- og dreifingarkostnaði mjólkur og mjólkurafurða virtist sá kostnaður hafa hækkað um 3,9 % milli ára. Verðlagsnefnd lét vinna samræmt yfirlit um afkomu mjólkuriðnaðarins árið 2003 og fékk nokkrar upplýsingar um afkomuhorfur árið 2004. Eftir samningaviðræður innan nefndarinnar varð samkomulag um eftirfarandi:

 

A: Samkomulag varð í nefndinni um að leiðrétta verð til framleiðenda með hliðsjón af breytingum á vísitölu neysluverðs frá 1. september 2003 til 1. september 2004, eða um 3,4%. Verð á mjólk til bænda hækkar því frá 1. janúar 2005 um kr. 2,75 og fer úr kr. 80,74 í 83,49 á lítra mjólkur.

 

B: Samkomulag varð í nefndinni um að ekki komi til verðbreytinga á heildsöluverði mjólkur og mjólkurafurða frá og með 1. janúar 2005.

 

C: Þá lýstu fulltrúar mjólkuriðnaðarins því yfir að ekki komi til hækkunar á sérvörum þeirra að svo komnu máli.

 

Hafa ber í huga að 1. september næstkomandi tekur gildi nýr mjólkursamningur. Frá sama tíma verða beingreiðslur umsamin heildarupphæð sem tekur breytingum í samræmi við vísitölu neysluverðs, óháð ákvörðunum verðlagsnefndar um afurðastöðvaverð mjólkur.

 

Það hefur verið stefna stjórnar Landssambands kúabænda að mjólkurverð til kúabænda fylgi sem næst vísitölu neysluverðs. Það byggir m.a. á þeirri staðreynd að kúabændur eru almennt nokkuð skuldsettir og þær skuldir eru að mestu leyti bundnar vísitölu neysluverðs.

 

Í núgildandi mjólkursamningi var gert ráð fyrir að afnema heildsöluverðlagningu á mjólk og mjólkurvörum 1. júlí 2001. Frá því var síðan fallið og nú er gert ráð fyrir að halda henni áfram á gildistíma næsta samnings (til ágústloka 2012). Fram hjá því verður ekki litið að sú ákvörðun um að halda áfram heildsöluverðlagningu á mjólk, er ekki í samræmi við það sem ætlað var þegar opnað var á þann möguleika að samlögin greiddu „arð“ eða „yfirverð“ til framleiðenda.
Ferjubakka II, í nóvember 2004

Þórólfur Sveinsson