Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Flokkar: Réttindi

31. maí 2002

Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Framleiðnisjóður landbúnaðarins (af vef sjóðsins: www.fl.is)

 

Framleiðnisjóður landbúnaðarins hefur leitazt við að styðja við frumkvæði og vænleg viðfangsefni og svara eftirspurn án þess að halda fram einu umfram annað. Í seinni tíð hefur stuðningur sjóðsins í vaxandi mæli beinst að þróunar- og rannsóknarverkefnum og stærri verkefnum á sviði atvinnuuppbyggingar í dreifbýli.

 

I. Lánveitingar:
Framleiðnisjóður starfar ekki sem lánasjóður nema að litlu leyti. Helzt er um að ræða skammtímalán til fyrirtækja, stofnana eða félaga innan landbúnaðarins. Lánakjör eru háð ákvörðun stjórnar en taka mið af aðstæðum á markaði hverju sinni.

II. Styrkveitingar:
a) Bújarðir: Veittir eru styrkir til atvinnunýsköpunar (búháttabreytinga) sem bændur á bújörðum standa fyrir í stað eða til viðbótar framleiðslu í hefðbundnum búgreinum. Hver bújörð getur átt kost á óafturkræfu framlagi kr. 1750 þús. að hámarki, en þó aldrei meira en sem nemur 30 % af framkvæmdakostnaði. Framlögin eru bundin við framkvæmdir á viðkomandi bújörð. Hér undir falla hvers konar atvinnuskapandi viðfangsefni. Má þar nefna fiskeldi, (bleikjueldi), ferðaþjónustu, hlunnindanýtingu, þjónustu- eða framleiðsluiðnað og fleira. Möguleiki er á aukaframlagi, allt að helmings viðbót með sömu hlutfallstakmörkun, ef hægt er að sína fram á að framkvæmd sé líkleg til að skapa tvö eða fleiri ársverk. Útborgun styrkja fer fram eftirá skv. kostnaðarúttekt að fenginni verkumsögn.

b) Félög: Sjóðurinn veitir stuðning við atvinnuuppbyggingu í dreifbýli sem stofnað er til á breiðari grunni með þátttöku heimaaðila. Er það gjarnan með þeim hætti að veita t.d. búnaðarfélögum eða einhverjum öðrum samnefnara heimaaðila framlög til hlutafjárkaupa í nýjum atvinnufyrirtækjum. Fjárhæð framlaga í þessum flokki ráðast af umfangi og eðli þeirra verkefna sem um ræðir í hverju tilviki.

c) Stofnanir/fyrirtæki: Undir þennan flokk falla ýmis önnur mál sem snerta beina atvinnuuppbyggingu í dreifbýli en þó fyrst og fremst leiðbeininga-, rannsóknar- og þróunarverkefni af ýmsum toga. Tengjast þau bæði allri kjöt- og mjólkurframleiðslu sem fram fer í landinu og tilraunum til að þróa nýjar búgreinar s.s. ferðaþjónustu og bleikjueldi, styrkja markaðsstöðu búvara einkum með tilliti til útflutnings og bæta framleiðni íslenzks landbúnaðar.

d) Fræðslumál: Framleiðnisjóður hefur beitt sér fyrir aukinni fræðslu landbúnaðarfólks svo sem endurmenntun bænda í samstarfi við búnaðarskólana en einnig eru veittir styrkir til framhaldsnáms í búfræði eftir kandídatspróf og til endurmenntunar fagfólks á sviði landbúnaðar.

e) Smáverkefnasjóður landbúnaðarins er deild í Framleiðnisjóði og hefur veitt styrki til margháttaðara verkefna sem meðal annars snerta handverk o.fl. Samstarfsnefnd um atvinnumál í sveitum, sem skipuð er af landbúnaðarráðherra, er jafnframt stjórn Smáverkefnasjóðs en hún er skipuð fulltrúum Landbúnaðarráðuneytisins, Bændasamtakanna og Framleiðnisjóðs (Jóhanna Pálmadóttir, formaður, Jónas Helgason og Jón G. Guðbjörnsson). Á hans vegum starfar atvinnumálafulltrúi Bændasamtakanna, Árni Snæbjörnsson, með aðsetri í Bændahöllinni við Hagatorg.

f) Garðávaxtasjóður er sjálfstæður sjóður í vörzlu og umsjá Framleiðnisjóðs. Tilurð hans og starfræksla byggir á 52. gr. laga nr. 46/1985 og reglugerð nr. 180/1992. Helztu verkefni sem Garðávaxtasjóður hefur veitt framlög til lúta að heilbrigði og stofnræktun íslenzkra kartaflna og gulrófna. Árlegt ráðstöfunarfé sjóðsins er nú um tvær milljónir króna. Stjórn Framleiðnisjóðs er jafnframt stjórn Garðávaxtasjóðs.

Allir styrkir og lán úr Framleiðnisjóði eru háðir samþykki stjórnar sjóðsins.

Umsóknum skulu fylgja áætlanir um kostnað / stofnkostnað og eftir atvikum rekstur til allt að fimm ára. Einnig skulu fylgja ársreikningar og/eða afrit rekstrar- og skattframtala. Ennfremur greinargerðir ef umsækjendur telja þeirra þörf. Umsóknareyðublöð fást á skrifstofu sjóðsins og hjá búnaðarsamböndunum út um land, en einnig hér á heimasíðu sjóðsins.