Flokkar: Réttindi

29. maí 2002

 

Fæðingarorlof kúabænda

 

Greiðslur í fæðingarorlofi

Lög um fæðingarorlof gengu í gildi í ársbyrjun 2001. Helstu nýmæli laganna eru sjálfstæður réttur mæðra og feðra til töku fæðingarorlofs, sameiginlegur réttur og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði sem taka mið af launatekjum fyrir umsókn.

Hér eru nánari upplýsingar um fæðingarorlof og fæðingarstyrk:
Tryggingastofnun ríkisins annast greiðslur til foreldra þegar um er að ræða:

*  fæðingu
*  frumættleiðingu barns yngra en átta ára
*  töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur
*  fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu
*  andvana fæðingu eftir  22ja vikna meðgöngu.

Greiðslur
Foreldrar sem hafa verið samfellt í sex mánuði á vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfi fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.
Foreldrar sem hafa verið utan vinnumarkaðar (eða í minna en 25% starfi) og námsmenn fá greiddan fæðingarstyrk.

Sjálfstæður/sameiginlegur réttur
Hvort foreldri um sig á sjálfstæðan rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða rétt á fæðingarstyrk í allt að þrjá mánuði vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Þessi réttur er ekki framseljanlegur á milli foreldra.
Sjálfstæður réttur föður kemur ekki að fullu til framkvæmda strax heldur lengist hann í áföngum þannig að ef barn fæðist á árinu 2001 er hann einn mánuður, ef barn fæðist á árinu 2002 er hann tveir mánuðir og ef barn fæðist 1. janúar 2003 eða síðar er hann þrír mánuðir.

Foreldrar eiga sameiginlega rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða til fæðingarstyrks í þrjá mánuði til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða þeir skipt á milli sín. Foreldrar geta fengið greiðslur á sama tíma eða sitt í hvoru lagi.

Forsjá barns
Réttur foreldris er almennt bundinn því að það fari sjálft með forsjá barns eða hafi sameiginlega forsjá barns við upphaf greiðslna.

Foreldrar á vinnumarkaði
Foreldri ávinnur sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa starfað samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Greiðslur
Mánaðarleg greiðsla til foreldris er 80% af meðaltali heildarlauna á samfelldu 12 mánaða tímabili sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Átt er við almanaksmánuði. Gildir þetta hvort sem viðkomandi er starfsmaður, sjálfstætt starfandi eða hvoru tveggja á umræddu tímabili.
Greiðsla til sjálfstætt starfandi foreldris miðast við reiknað endurgjald sem greitt hefur verið tryggingagjald af og þarf foreldri þá að sýna fram á töku fæðingarorlofs með tilkynningu til skattyfirvalda um tímabundna niðurfellingu eða lækkun á reiknuðu endurgjaldi.
Lágmarksgreiðsla á mánuði til foreldris sem hefur verið í 25-49% starfi er kr. 57.057og til foreldris sem hefur verið í 50-100% starfi kr. 79.077.
Greiðslur eru inntar af hendi eftir á fyrsta virkan dag hvers mánaðar og þær eru staðgreiðsluskyldar.

Samlagning starfstímabila
Starfstími foreldris í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins er tekinn til greina ef foreldri hefur unnið á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.
Við útreikning greiðslna til foreldris er eingöngu miðað við meðallaun þess á innlendum vinnumarkaði á 12 mánaða viðmiðunartímabilinu.

Starfshlutfall foreldris
Foreldri sem unnið hefur 86 – 172 stundir í hverjum mánuði telst vera í 50 -100% starfi.
Foreldri sem unnið hefur 43 – 85 stundir í hverjum mánuði telst vera í 25 – 49% starfi.

Sjálfstætt starfandi einstaklingur
Starfshlutfall foreldris sem hefur verið sjálfstætt starfandi er metið eftir viðmiðunarreglum Ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu á því ári sem um ræðir.

Atvinnuleysisbætur – sjúkra-/slysadagpeningar
Starfshlutfall foreldris sem hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur reiknast út frá því hlutfalli sem útreikningur bótanna byggist á. Sami háttur er hafður á hafi foreldri fengið greidda sjúkra-/slysadagpeninga. Með umsókn þarf þá að fylgja vottorð um greiðslurnar.

Dagmæður
Heilsdagsgæsla eins barns telst vera fjórðungur úr starfi.  Leggja skal fram staðfestingu á starfsleyfi og tekjum.

Maki bónda
Vinnuframlag maka bónda á búinu er metið sem a.m.k. 50% starfshlutfall þegar makinn er hvorki formlega skráður sem aðili að búrekstri né starfar utan búsins.

Forsjárlaust foreldri
Forsjárlaust foreldri getur tekið fæðingarorlof og fengið greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði ef forsjárforeldri samþykkir umgengni þess við barnið meðan á fæðingarorlofinu stendur.

Tilhögun fæðingarorlofs
Starfsmaður skal tilkynna vinnuveitanda sínum skriflega fyrirhugaða töku fæðingarorlofs og tilhögun þess í síðasta lagi átta vikum fyrir áætlaðan fæðingardag.
Móðir getur hafið töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns og faðir frá fæðingardegi.  Heimilt er að hefja greiðslur á áætluðum fæðingardegi.
Foreldri á alltaf rétt á að taka fæðingarorlof í einu lagi. Með samkomulagi við vinnuveitanda getur foreldri hins vegar ákveðið að skipta töku fæðingarorlofs og/eða taka fæðingarorlof samhliða launuðu starfi. Kona verður þó alltaf að vera í fæðingarorlofi fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns.
Réttur til fæðingarorlofs fellur niður við 18 mánaða aldur barns.

Uppsöfnun og vernd réttinda
Af greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði greiðir foreldri í lífeyrissjóð og er einnig heimilt að greiða í séreignarsjóð.
Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum.
Foreldri getur óskað eftir því að greidd séu stéttarfélagsgjöld af greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og aðrar greiðslur
Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði fara ekki saman með atvinnuleysisbótum, sjúkra-/slysadagpeningum, umönnunargreiðslum vegna sama barns eða sömu fæðingar og lífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Umsóknir
Foreldri sækir um greiðslur í fæðingarorlofi til Tryggingastofnunar ríkisins sex vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Sótt skal um á sérstöku eyðublaði sem hægt er að fá í þjónustumiðstöð Tryggingastofnunar, Laugavegi 114, R, hjá umboðum úti á landi og á heimasíðu stofnunarinnar, www.tr.is

Ef báðir tilvonandi foreldrar sækja um greiðslur er umsókn þeirra sameiginleg og undirrituð af þeim báðum. Vinnuveitendur þeirra þurfa einnig að árita umsóknina um samþykki sitt.

Að auki þurfa að fylgja umsókn eftir því sem við á:
*  Vottorð um áætlaða fæðingu
*  Tilkynning til vinnuveitanda um fæðingarorlof
*  Tilkynning sjálfstætt starfandi einstaklings um fæðingarorlof
*  Vottorð um atvinnuleysisbætur
*  Vottorð um sjúkra-/slysadagpeninga
*  Samþykki forsjárforeldris fyrir fæðingarorlofi forsjárlauss foreldris
*  Staðfesting um starf erlendis