Holstein-Friesian – þekktustu mjólkurkýr í heimi

Flokkar: Nautgripakyn

22. janúar 2011

Holstein-Friesian – þekktustu mjólkurkýr í heimi

Kúakynið Holstein-Friesian kannast líklega flestir við en þetta kyn hefur verið í ræktun síðustu 2.000 árin eða svo. Kýrnar svartskjöldóttu eru þekktar um allan heim og eru auk þess afurðahæstu kýr heimsins. Kynið má finna í öllum heimsálfum og flestum löndum, þó síður í mjög heitum löndum.

 

 

Uppruni og saga

Holstein-Friesian kemur upprunalega frá landsvæði í norðurhluta þess landsvæðis sem nú tilheyrir Hollandi og varð til þegar þýsku ættbálkarnir Batavi og Friesian tóku sér búsetu við fljótið Rín. Þessi ættbálkar höfðu með sér kýr sem voru annars vegar svartar og hins vegar hvítar og voru þessar kýr fyrst og fremst ræktaðar sem beitardýr. Við samblöndun kynjanna varð svartskjöldótta kýrin til og hafa þær heldur betur sannað gildi sitt með bæði mikla afurðagetu og góða nýtni fóðurs.
Samhliða vexti á heimsmarkaðinum óx áhugi fleiri en bændanna við Rínarfljótið á þessum afurðagripum og í kringum árið 1830 hófst útflutningur Holstein-Friesian gripa til Bandaríkjanna að einhverju gagni en fyrstu gripir voru þó fluttir þangað mun fyrr. Í fyrstu voru þessar kýr í Bandaríkjunum kallaðar „Hollenskar“ eða „Dutch“ en nafn þeirra breyttist eftir að innflutningur lifandi gripa til Bandaríkjanna var stoppaður um tíma vegna sjúkdóma í Evrópsku kúakynjunum. Þá höfðu verið fluttir tæplega 9.000 gripir til Bandaríkjanna og hófst þar með sjálfstæð ræktun Holstein-Friesian kúa í Bandaríkjunum.

 

Útlit og einkenni

Eins og áður segir er helsta einkenni Holstein-Friesian svartskjöldótti liturinn og miklar afurðir. Þess ber þó að geta að til eru Holstein-Friesian kýr sem eru rauðskjöldóttar, en tíðni þeirra er mun lægri. Kynið flokkast sem sk. stórt kúakyn þar sem búast má við því að meðalþungi kúnna liggi í kringum 750 kg og hæð á herðarkamb í kringum 150 cm. Við 15 mánaða aldur eru kvígurnar í kringum 400 kg. Holstein-Friesian eru afar vel byggðar kýr, frekar háfættar og þykja henta einkar vel í stórbúskap þar sem t.d. kýr eru mjólkaðar aftanfrá í hraðmjaltabásum. Holstein-Friesian eru flestar hyrndar en þó eru til kollótt afbrigði kynsins.

 

Eiginleikar

Holstein-Friesian kýrnar eru lang afurðahæstu kýr heimsins og eru enn að bæta verulega við sig. Hæglega má gera ráð fyrir því að afurðaaukning Holstein-Friesian á ári nemi 1-2% að jafnaði vegna erfðaframfara og er þá miðað við hefðbundna ræktunaraðferð. Með hinni nýju erfðatækni við kynbætur, þ.e. erfðaprófun, má búast við enn frekari framförum í afurðum Holstein-Friesian.

 

Meðalnyt þessara kúa er nokkuð misjöfn eftir því hvar þær eru ræktaðar í heiminum en afurðirnar eru víða í kringum 10.000 kg og vel yfir 15.000 kg. Verðmætaefnaframleiðsla Holstein-Friesian er í góðu jafnvægi með fituprósentu oftast á bilinu 4,00-4,20 og próteinprósentu á bilinu 3,30-3,50. Ending Holstein-Friesian kúa er einnig afar misjöfn eftir ræktunarsvæðum en ending þeirra er mun meiri í Norður-Evrópu heldur en t.d. Bandaríkjunum. Þó má búast við 5-6 mjaltaskeiðum af Holstein-Friesian kúm og æviafurðum upp á 50-100.000 kg.

 

Afurðahæsta kýr heimsins var í árslok 2010 Holstein-Friesian kýrin Ever-Green-View My 1326-ET sem mjólkaði alls 32.805 kg. á 365 dögum á mjaltaskeiði sem lauk í febrúar það ár. Efnainnihaldið í svona afurðagrip lækkar eðlilega nokkuð frá meðaltalinu en fituprósentan var 3,86% og próteinprósentan 2,97%.

 

Þrátt fyrir framangreinda kosti þá virðast Holstein-Friesian kýrnar þola hita frekar illa og hefur því verið reynt að kynbæta kynið á ákveðnum svæðum með hinum þekktu eiginleikum Zebu.

 

Útbreiðsla

Holstein-Friesian kýr má finna í dag í öllum heimsálfunum og er ekki full ljóst með fjölda þessara kostagripa en hann skiptir hundruðum milljóna.

 

Helstu atriðin

Miklar afurðakýr

Ágætar beitarskepnur

Þola ekki vel hita

Skapgóðar

Háfættar

 

Snorri Sigurðsson, Landbúnaðarháskóla Íslands

 

Heimildir:

www.thedairysite.com

www.whff.info

 

Aðrar greinar eftir sama höfund í þessum greinaflokki:

Ayrshire kúakynið – skoskt harðgert afurðakyn

Brown Swiss – elsta mjólkurkúakyn heimsins

Dexter kúakynið – smávaxið en vinsælt!

Hereford – holdanautakynið sem allir þekkja!

Jersey – smáar en hagkvæmar kýr

Zebu – hinar heilögu kýr