Hereford – holdanautakynið sem allir þekkja!

Flokkar: Nautgripakyn

7. ágúst 2010

Hereford – holdanautakynið sem allir þekkja!

Hereford kúakynið hefur notið fádæma vinsælda á liðnum áratugum og er í dag eitt allra útbreiddasta holdanautakyn heims. Það finnst í yfir 50 löndum og eru skráðir rúmlega 5 milljón gripir í skýrsluhaldskerfi víða um heim. Kynið er mjög hraðvaxta, harðgert og með góð kjötgæði.

 

Uppruni
Uppruni þess er eins og margra holdanautakynja frá Bretlandseyjum. Nafnið dregur kynið af Hereford sýslu, þekktri landbúnaðarsýslu, þar sem kynið var framræktað og eru til heimildir um þetta öfluga kyn allt aftur til fyrri hluta 16. aldar. Framræktun kynsins byggði á því að efla mikla vaxtargetu og góða fóðurnýtingu,  sem er í dag einmitt eitt aðaleinkenni kynsins. Á 17. og 18. öld voru Hereford gripir afar stórir og algeng þyngd fullvaxinna nauta var þá um 1,5 tonn. Síðan hefur verið lögð meiri áhersla á nettari gripi með betri kjötgæði.

Útlit
Hereford gripir eru allt frá því að vera dökkrauðir yfir í ljósrauðir og hvítir á haus, hupp og fætur. Flestir eru með stutt og þykk horn sem sveigjast niður með hausnum. Í dag eru þó einnig til stofnar af Hereford sem eru kollóttir, sér í lagi í Bandaríkjunum. Fullorðin naut vega um 900-1.000 kg en fullorðnar kýr um 6-700 kg. Gripirnir eru að jafnaði afar vel byggðir, að meðallagi langir og fótalengd í góðu hlutfalli við skrokkstærð. Afturhluti þeirra er mjög vel byggður og vöðvafylltur.

Eiginleikar
Einna þekktasti eiginleiki Hereford er hve harðgerðir þeir eru og þrífast hjarðir þeirra vel við öfgafull skilyrði. Þannig eru margar hjarðir úti allt árið í norðurhluta Finnlands þar sem mikil snjódýpt er, en einnig má finna hjarðir af sama stofni í mjög heitum löndum s.s. Úrúgvæ og Brasilíu þar sem þeir þrífast einnig mjög vel. Þá er ending Hereford eftirtektarverð, en algengt er að kýrnar verði eldri en 15 ára og gangi með kálfa á þeim aldri. Þá er einn aðal kostur kynsins gott lundarfar og hve meðfærilegir gripirnir eru.

 

Snorri Sigurðsson, Landbúnaðarháskóla Íslands