Flokkar: Sjúkdómar og mjólkurgæði

14. janúar 2011

Há frumutala rýrir mjólkurgæðin

Frumutala mjólkurinnar segir afar vel til um gæði hennar og þegar frumutalan hækkar breytist bæði bragð og efnainnihald mjólkurinnar. Reyndar eru það ekki frumurnar sjálfar sem hafa þessi áhrif, heldur eru þar á ferðinni aðrir þættir sem gerast samhliða því að frumutalan hækkar vegna júgursýkinga. Þetta skýrir m.a. af hverju afurðastöðvar um mest allan heim greiða hærra verð fyrir frumulága mjólk.

Snorri Sigurðsson, Auðlindadeild LbhÍ

Bólguviðbrögð breyta mjólkinni
Frumur mjólkurinnar eru tvenns konar, annars vegar koma þær frá júgurvefnum sjálfum sem er alltaf að endurnýjast og kýr sem er laus við sýkingu mælist því með frumutölu í mjólkinni þrátt fyrir það. Hins vegar er um hvít blóðkorn að ræða vegna þess að varnarkerfi líkamans er að takast á við sýkingu. Þegar það gerist eykst blóðflæðið í og við hið sýkta svæði og hvítu blóðkornin ásamt próteinefnum dragast út úr blóðrásinni og yfir í mjólkina. Á sama tíma minnkar virkni júgurfrumanna sjálfra og sumar þeirra springa og eru brotnar niður og um leið fara ensím út í mjólkina. Öll þessi virkni breytir eðlilega efnainnihaldi mjólkurinnar.

Fituinnihaldið lækkar og nytin minnkar
Þegar júgur er bólgið framleiðir það minna magn mjólkur en venjulega og þegar frumutalan er komin yfir 100.000 frumur/ml hefur þegar orðið afurðatap. Hve mikið afurðirnar falla er þó háð fjölda þeirra mjaltaskeiða sem kýrin hefur skilað og einnig að sjálfsögðu krafti sýkingarinnar. Þó má reikna með því að ef frumutalan mælist 200.000 tveimur vikum eftir burð, þá hafi þegar tapast um 3% afurðir og afurðatapið eykst eftir því sem líður á mjaltaskeiðið. Samhliða minnkar þurrefni mjólkurinnar um 5-15%, sem að stærstum hluta skýrist af minni fituframleiðslu júgursins. Fitusamsetningin verður einnig óheppilegri, þar sem fitan er ekki eins stöðug, þ.e. gæði hennar ekki nógu mikil og fitunni því hættara við að sundrast og gera mjólkina beiskari á bragðið vegna lausra fitusýra.

Minni mjólkursykur = meira salt og minna af steinefnum
Þegar frumutala mjólkurinnar hækkar og fer yfir 100.000 eykst saltinnihald hennar. Þetta skýrist af því að þegar júgurbólgusýklar herja á júgrið lækkar mjólkursykurinn um allt að 10% og er samhengið línulegt, þ.e. því fleiri frumur/ml því minni mjólkursykur. Þessu valda nokkrir samverkandi þættir en bæði nýta sýkingarvaldarnir mjólkursykurinn sjálfir en einnig er talið að vegna skemmda í júgurvefnum þá geti mjólkursykurinn farið yfir í blóðrásina. Lægra innihald mjólkursykurs í mjólkinni veldur því að sk. osmósujafnvægi í mjólkurblöðrunum truflast, en til þess að ná jafnvægi á milli efnainnihalds í mjólkinni annarsvegar og í blóðinu hinsvegar dregst salt frá blóðinu yfir í mjólkina. Þannig er það samverkandi þáttur að þegar mjólkursykur fellur, eykst saltinnihaldið um leið. Vegna hækkandi saltinnihalds mjólkurinnar, breytist um leið annað efnajafnvægi mjólkurinnar og þá lækkar magnið af kalsíum, magnesíum og kalí.

Minna af vítamínum
Þegar júgurbólga herjar á kúna lækkar innihald mjólkurinnar af vatnsleysanlegum vítamínum, þ.e. B og C vítamínum. Við háa frumutölu má reikna með því að einhversstaðar á bilinu 10-50% minna magn af þessum vatnsleysanlegu vítamínum séu til staðar en skýringuna má rekja til skertrar hæfni júgurvefsins til efnatilfærslu og efnamyndana.

Mikil mjólkurgæði eru allra hagur
Hagsmunir mjólkurframleiðenda og afurðastöðva fara algerlega saman þegar rætt er um mikil gæði mjólkur, fyrir utan þá augljósu staðreynd að mest öll mjólkurvinnsla hér á landi er unnin af samvinnufélögum í eigu kúabændanna sjálfra. Um leið og það er afar jákvætt fyrir ímynd afurðastöðvanna, þ.e. að kaupa mjólk frá heilbrigðum kúm, þá er hún einnig bragðbetri og vinnslugæði hennar meiri en frumuhárrar mjólkur. Samhliða er frumulág mjólk hagkvæm í framleiðslu fyrir kúabóndann, sé rétt staðið að framleiðslunni.

Heimildir:
www.landbrugsinfo.dk/kvæg/mælkekvalitet
www.milkproduction.com/library