Erfðaefnisgreiningar á júgurbólgusýklum

Flokkar: Sjúkdómar, mjaltatækni, bútækni og mjólkurgæði
10. febrúar 2011

Erfðaefnisgreiningar á júgurbólgusýklum

Júgurbólga í mjólkurkúm er lang algengasti sjúkdómurinn í mjólkurframleiðslunni og veldur bændum miklum búsifjum bæði vegna kostnaðar við meðhöndlun og einnig afurðataps. Hefðbundin aðferð til þess að bregðast við júgurbólgu er að greina þá sýkla sem valda hverju tilfelli fyrir sig og meðhöndla sýkinguna í framhaldi af því með sérvirkum lyfjum. Sýklagreiningaraðferðin, sem byggir á ræktun, hefur til þessa tekið langan tíma eða allt að 48 klst. Undanfarin misseri hefur ný fljótvirk gerð júgurbólgugreiningar, sk. erfðaefnispróf, hins vegar notið vaxandi hylli, m.a. í Finnlandi, Danmörku og víðar.

Erfðaefni sýkla staðfest
Með þessari aðferð, sem í daglegu tali kallast PCR mæling á júgurbólgusýklum, er sérstakri tækni beitt til þess að draga erfðaefni sýklanna út úr mjólkursýninu og svo er erfðaefnið margfaldað með fyrrgreindri PCR aðferð. Að lokum er síðan leitað að fyrirfram ákveðnu erfðaefni í hinu útdregna sýni með þar til gerðum búnaði. Þessi aðferð hefur reyndar verið þekkt í nokkur ár, en til að byrja með var eingöngu hægt að finna 7 mismunandi tegundir af júgurbólgubakteríum og var PCR mælingin því engan vegin nógu góð aðferð til slíkra greininga. Í dag er hinsvegar hægt að leita samtímis að þeim 12 þekktu tegundum baktería sem algengastar eru þegar júgurbólga er á ferð.

Svarið fæst eftir fjóra tíma
Í dag er greiningarkerfi Rannsóknarstofu mjólkuriðnaðarins byggt upp af tvennskonar blóðagarprófum, þ.e. ræktun sýnis með og án penicillíns. Rannsóknarstofan er auk þess með fleiri prófunaraðferðir til þess að greina sýklana í innsendum sýnum en þessar ræktunaraðferðir eru allar tímafrekar og frá því að sýni berst til ræktunar og þar til bráðabirgðaniðurstaða liggur fyrir líða amk. 24 klst. og fullnaðarniðurstaða liggur svo fyrir eftir 48 klst. Með erfðaefnisgreiningunni fæst hinsvegar svar eftir fjórar klukkustundir frá því sýnið berst til rannsóknarstofunnar sem þýðir í raun að unnt er að hefja rétta lyfjagjöf miklu fyrr en áður hefur verið mögulegt.

Fjölhæf greiningaraðferð
Til viðbótar því að aðferðin er afar fljótvirk, þá er hún jafnframt þægileg í notkun fyrir bóndann sjálfann, þar sem hægt er að gera PCR mælingu á t.d. hefðbundnu tanksýni sem notað er til gæðamælinga og fá úr því yfirlit yfir sýklastöðu viðkomandi bús. Í kjölfar slíkrar greiningar er svo mögulegt að útbúa aðgerðaráætlun gegn júgurbólgu fyrir viðkomandi kúabú, sem getur verið afar ólík þeirri áætlun sem best hentar á næsta búi í nágrenninu. Þá gefur mælingin á tanksýninu auk þess all góðar upplýsingar um það hvaða bakteríur helst eru að valda mögulegri hárri líftölu fyrir viðkomandi bú, sem þá gefur aftur grunn til ráðlegginga til þess að takast á við slíkt vandamál ef um það er að ræða. PCR mæling hentar einnig afar vel til notkunar á kýrsýnum vegna skýrsluhaldsins, notkun á Brónópól töflum skiptir greiningaraðferðina engu máli, og að sjálfsögðu þegar tekin eru spenasýni. Einn af helstu kostum greiningaraðferðarinnar er að hún er í dag talin allt að 40% öruggari aðferð við sýklaleit en hefðbundin ræktun, þar sem stundum kemur upp sú staða að sýni spillist við ræktun vegna annars smits í viðkomandi sýni. Það skiptir eðlilega engu máli með PCR mælingu.

Gæti hentað á Íslandi
Þó svo að PCR mæling líti afar vel út, þá er þó ekki sjálfgefið að aðferðin henti við allar aðstæður þar sem mismunandi sýklar valda júgurbólgu í ólíkum löndum. Tryggja þarf, áður en hugað er að fjárfestingu í jafn flóknum og fullkomnum búnaði og um ræðir, að mælingin fullnægji þeim kröfum sem gera þarf til erfðaefnisgreiningar á mjólk. Í kjölfar slíkrar kortlagningar væri svo hægt að taka afstöðu til þess hvort hagstætt sé að taka upp þessa nýju tækni við greiningar á mjólkursýnum hér á landi.

Snorri Sigurðsson
Auðlindadeild Landbúnaðarháskóla Íslands