Helstu áhrifaþættir á lausar fitusýrur í tankmjólk

Flokkar: Mjaltatækni, fóðrun, bútækni, bústjórn og mjólkurgæði
27. febrúar 2011

Helstu áhrifaþættir á lausar fitusýrur í tankmjólk
Mikið magn af lausum fitusýrum, táknað FFS, í hrámjólk getur leitt til beiskjubragðs hennar og hafa bæði hérlendar og erlendar rannsóknir sýnt að ástæður þess að magn þessara fitusýra eykst í mjólk geta verið margvíslegar. Nýverið lauk rannsóknarverkefni við Landbúnaðarháskóla Íslands sem hafði það meginmarkmið að safna uplýsingum sem gætu nýst bændum til þess að minnka líkur á of miklu magni af FFS í tankmjólk, með því bæði að safna saman upplýsingum um þekkta áhrifaþætti en einnig með því að safna saman hérlendri reynslu með það að leiðarljósi að draga fram mögulega skýringarþætti á breytileika á FFS í tankmjólk hér á landi.
Helstu niðurstöður
Þegar skoðuð voru einstök hérlend dæmi um leiðir sem farnar voru til þess að lækka magn FFS í tankmjólk kom skýrt í ljós að meginástæður FFS í mjólkinni mátti rekja til annars vegar of tíðra mjalta á lágmjólka kúm og hins vegar til bilana í mjaltakerfum, aðallega vegna of mikillar íblöndunar á lofti í mjólkina við mjaltir og átti það við bæði um mjaltaþjónakerfi sem hefðbundin mjaltakerfi. Þá var ekki unnt að útiloka að mikið magn FFS í tankmjólk hafi í einhverjum tilfellum komið til vegna rangrar fjárfestingar á mjólkurtönkum viðkomandi kúabús, en stundum virðast vera notaðir allt of stórir mjólkurtankar með afkastagetu fyrir mun meiri daglega mjólkurframleiðslu en voru á viðkomandi kúabúi. Þetta getur leitt til frystingar á mjólk við kælingu, sem getur aftur leitt til aukins magns FFS í tankmjólkinni. Ennfremur var dæmi um bilun í mjólkurdælu, sem hefur að líkindum leitt til pískunar mjólkurinnar við dælingu og þar með framkallað aukið magn FFS. Þó ber að leggja á það áherslu að hrámjólk á alla jafna að þola dælingu og frystingu án þess að verða beisk, sem bendir til þess að huga þurfi einnig að öðrum þáttum á viðkomandi búi.
Samandregnar niðurstöður benda eindregið til þess að í öllum tilfellum á að vera mögulegt að hafa umtalsverð áhrif á magn FFS í tankmjólk, sé það hærra en 0,7 mmól/l, með eftirfarandi hætti:
Bústjórn
– senda kýrsýni til RM. Þrátt fyrir að sýnatökubúnaður kunni að spilla kýrsýninu að einhverju leyti (pískun mjólkur) þá er meðhöndlun búnaðarins alltaf eins, og því draga niðurstöðurnar fram mögulega einstaka kýr sem eru háar í FFS. Ef engar kýr bera af, eru meiri líkur en minni á að bilun í mjaltatækjum eða mjólkurkæli orsaki hækkun á FFS í tankmjólkinni.
– skoða sérstaklega þær kýr sem mælast háar í FFS m.t.t. stöðu á mjaltaskeiði, orkuástands eða nythæðar. Einnig hvort viðkomandi kýr sé einfaldlega að framleiða mjólk sem þolir ekki meðhöndlun mjaltakerfisins m.t.t. gæða fitudropanna.
– skoða vel hvort tankmeðaltal FFS þoli hátt hlutfall af mjólk úr kúm seint á mjaltaskeiði (>300 daga frá burði).
– skoða vel hvort tankmeðaltal FFS þoli hátt hlutfall af mjólk úr lágnytja kúm (< 7 kg/mál).
– skoða vel hvort meðaltíðni á milli mjalta í kúahópnum sé of mikil (>3,0 mjaltir/dag) og hvort tankmjólkurmeðaltal FFS þoli slíka tíðni.
– skoða vel hvort fóðrunin sé að gefa ástæðu til hækkaðs hlutfalls stórra fitudropa í mjólkinni og þar með að auka líkur á sundrun.
– skoða vel hvort margar kýr séu fastmjólka eða hægar að mjólkast. Mjólk úr slíkum kúm lendir í meiri hlutfallslegri meðhöndlun mjaltatækjanna sem er óheppilegt m.t.t. FFS, sérstaklega í mjaltaþjónum sem nota meira magn af lofti við mjaltir en hefðbundin mjaltatæki.

Tæknibúnaður
– láta yfirfara mjaltakerfið af þar til bærum aðilum, og að lágmarki árlega.
– tryggja að afkastageta mjólkurtanks og kælibúnaðar hans sé í samræmi við framleiðslu viðkomandi bús og að búnaðurinn sé hannaður fyrir það hlutverk sem honum er ætlað enda munur á búnaðinum eftir ætluðu framleiðslumagni og framleiðslufyrirkomulagi.
– forðast of mikla dælingu á volgri mjólk.

Snorri Sigurðsson
Auðlindadeild
Landbúnaðarháskóla Íslands