Flokkar: Mjaltatækni
29. maí 2002
Um mjaltir

Mjaltir
Eftir Torfa Jóhannesson, LBH

Samkvæmt vinnumælingum Bútæknideildar Rala í fjósum víða um land eru mjaltir 50-60% heildarvinnunar við gegningar. Það er því mikilvægt að temja sér rétt vinnubrögð við þennan verkþátt. En það eru ekki bara afköstin sem skipta máli, gæði þessarar vinnu ráða því hvernig til tekst með:
Gæði mjólkurinnar (gerlafjölda, bragð, lykt).
Júgurheilbrigði kúnna (júgurbólgu, frumutölu).
Nýtingu á mjaltaeiginleikum kúnna (arfgerð, fóðrun, hirðingu).

Við mjaltirnar reynir á verklag mjaltamannsins, hæfileika kýrinnar og gæði mjaltatækjanna. Ef einn þessara þátta bregst bitnar það á hinum tveimur.

Hin 10 boðorð mjaltamannsins eru þannig:
Mjaltirnar skulu sniðnar að þörfum kúnna þannig að nythæð, júgurheilbrigði og gæði mjólkurinnar uppfylli okkar óskir.
Mjaltir eiga að hefjast á sama tíma dag hvern. Bil milli mjalta ætti ekki að vera meira en 14 tímar.
Hreinlæti við mjaltir á að vera gott. Til þess er eftirfarandi nauðsynlegt:
Almennt hreinlæti mjaltamanns.
Hreinar og klipptar kýr.
Hreinir og þurrir básar.
Hrein mjaltatæki.
4. Meðan á mjöltum stendur ætti ekki að vinna önnur verk í fjósinu. Öll umgengni um kýrnar á að vera yfirveguð og afslöppuð. Hvers kyns sparkvarnir eru neyðarúrræði og skulu notast sem slík.
Fjöldi mjaltatækja á mann má aldrei verða svo mikill að það komi niður á gæðum mjaltanna.
Líta skal á undirbúning kúnna, vélmjaltirnar og eftirskoðun kúnna sem samfellda heild sem ekki má rjúfa.
Tómmjaltir mega ekki eiga sér stað.
Ef mjaltatækið situr rétt á júgrinu tæmast júgurhlutarnir jafnt og hætta á loftinnsogi er lítil. Notkun slönguhaldara er oftast til bóta.
Alltaf skal byrja á að mjólka þær kýr sem aldrei hafa fengið júgurbólgu eða hækkaða frumutölu. Þannig minnkar hættan á nýsmitun.
Mjaltamaðurinn á að fullvissa sig um að mjaltakerfið sé í lagi. (Mjaltanefnd Norrænu mjólkuriðnaðarsamtakanna – NMSM)
Notið vönduð mjaltaáhöld!
Mjaltatækin:
Mjaltatækin þurfa að vera vönduð og meðfærileg. Þróun síðustu ára hefur leitt af sér létt tæki með stóran tengikross sem tryggir jafnara sog en áður þekktist. Þá bjóða flestir mjólkureftirlitsmenn upp á mismunandi tegundir spenagúmmís. Hægt er að fá spenagúmmí með sérstaklega stórum haus til varnar því að hylkið sogist of langt upp á spenann. Þá eru margir bændur farnir að nota spenagúmmí með þröngu opi (20 mm í stað 24 mm í þvermál) á hluta mjaltatækjanna og mjólka kvígur og kýr með litla spena með þeim.

Þvottaklútarnir:
Best er að nota grófa bómullarklúta, lágmark einn á kú eða einnota pappír. Ef júgurbólguvandamál er fyrir hendi þarf að sjóða alla klútana milli mála. Bakteríur berast mjög auðveldlega með klútunum milli kúa og sótthreinsiefni veita oft takmarkaða vörn. Hreinir og óhreinir klútar mega aldrei blandast saman. Því þarf að hafa sérstaka fötu með volgu vatni undir óhreinu klútana.

Sýnikannan:
Notkun sýnikönnunar er ekki síður mikilvæg en þvotturinn. Nýrri gerðir sýnikanna eru lengri og mjórri en þær sem áður voru notaðar (líkjast flöskum), gjarnan með krók til að festa á belti. Þetta gerir notkun þeirra enn auðveldari en áður.

Slönguhaldarar:
Þeir hafa þann tilgang að toga mjólkurslöngurnar aðeins upp og færa þannig þunga mjaltatækjanna af framspenunum yfir á afturspenana. Með þessu móti mjólkast jafnar úr júgrinu. Þetta er ódýrt ‘. hjálpartæki sem fæst hjá flestum mjólkureftirlitsmönnum.

Mjaltastólar/hnéhlífar:
Mjaltir eru lýjandi starf og það er mjög algengt að mjaltamenn finni fyrir eymslum í hnjám, mjóhrygg og öxlum. Sá sem mjólkar 20 kýr beygir sig 150-200 sinnum á dag. Notkun mjaltastóla, hnéhlífa , og rétt vinnutækni léttir störfin.
Mjaltirnar
Að þvo spena og júgur:

Af hverju?
Þvotturinn gegnir fyrst og fremst því hlutverki að hreinsa gerla og önnur óhreinindi af spenunum. Fjöldi gerla á spenanum (sérstaklega nálægt spenaopinu) ræður miklu um heildargerlamagn mjólkurinnar. Í kringum spenaopið sitja líka júgurbólguvaldandi gerlar sem sæta færis að smeygja sér inn í júgrið og valda sýkingu. Um og fyrst eftir mjaltir er hringvöðvinn í spenaopinu slakur og því mikil hætta á nýsmiti.

Auk þess að hreinsa spenana gengir þvotturinn því hlutverki að koma af stað framleiðslu hormóna sem valda niðurstreymi mjólkurinnar (um 60% mjólkurmagnsins í júgrinu er háð þessu hormónaviðbragði). Hrædd, spennt eða illa undirbúin kýr mjólkar því aðeins 40% af því sem hún myndi annars mjólka.

Hvernig?
Þvottavatnið á að vera 40-50°C. Mikilvægt er að vinda þvottaklútinn vel áður en byrjað er að þvo kúna. Þurrkið af öllum neðri hluta júgursins, með áherslu á spena og spenarætur. Snúið klútnum síðan við og hreinsið spenaendana sérstaklega vel. Notið hiklaust fleiri en einn klút. Spenarnir verða að vera orðnir þurrir áður en mjaltatækin eru sett á. Annars er hætta á að hylkin skríði upp spenann og skaði hringvöðvann á mótum spena og júgurs.

Að taka prufu:

Af hverju?
Það að mjólka 3-4 kröftugar bunur í sýnikönnuna er lykilatriði í undirbúningi kýrinnar (og reyndar líka í öllu því sem kalla má „gæðastjórnun við mjaltir“). Vinnumælingar í íslenskum fjósum sýna að vanir mjaltamenn eru 10-15 sekúndur að taka prufu úr hverri kú. Það er dýrt að spara sér þær sekúndur. Með því að taka prufu opnum við leið mjólkurinnar úr júgrinu. Um leið örvum við enn frekar sölu kýrinnar og stuðlum þannig að hraðari mjöltum og jafnari tæmingu júgurhlutanna. Önnur ástæða þess að nauðsynlegt er að taka prufu er að fyrstu bunurnar innihalda mikið af gerlum og eru ekki hæfar til manneldis. Í þriðja lagi má nefna að með því að mjólka í sýnikönnuna sjáum við hvort mjólkin sé í lagi. Þannig getum við greint júgurbólgu á byrjunarstigi og átt meiri möguleika á að ná árangri með lyfjagjöf.

Hvernig?
Tilvalið er að nota sýnikönnu sem hægt er að festa á belti og bera þannig með sér. Taka þarf 3-4 kröftugar bunur úr hverjum spena – fleiri ef speninn er þröngur. Ef sýnikannan er ekki notuð heldur mjólkað niður í básinn, skapast í básnum kjöraðstæður fyrir gerlagróður og júgurbólga í einum kirtli breiðist hratt og örugglega út til hinna. Ef mjólkin lendir á stígvélum mjaltamannsins ná gerlar úr einni kú að dreifast um allt fjósið og sýkja margar kýr. Þeir sem vilja ná árangri í baráttunni við júgurbólgu nota sýnikönnuna – alltaf.

Að setja á:

Hvenær?
Frá því þvottur hefst og þar til mjaltatækin eru sett á kúna skulu líða 2 mínútur. Tímamörkin eru þó aðeins til hliðsjónar því að mikill breytileiki er milli kúa. Kýr sem er byrjuð að selja sýnir einhver eftirfarandi einkenna: Spenarnir stinnir og fullir af mjólk, júgrið þrýstið, æðar koma í ljós, mjólk vætlar úr spenum. Best er að setja á kýrnar áður en þær byrja að leka mjólk. Ef tækin eru sett á áður en kýrin er tilbúin skaðast slímhimnurnar í spenanum og hættan á júgurbólgu eykst. Ef biðtíminn er of langur endist virkni mjaltahormónanna ekki út allan mjaltatímann sem veldur því að júgrið tæmist illa og hættan á júgurbólgu eykst.

Hvernig?
Þegar sett er á kúna er best að halda á tækjunum með þeirri hönd sem er nær höfði kýrinnar. Með hinni eru hylkin sett á spenana. Haldið á hylkjunum þannig að vísifingur og þumalfingur séu lausir til að stýra spenanum á réttan stað. Byrjið á framspenanum fjær, setjið síðan á afturspenann fjær, þá afturspenann nær og loks framspenann nær. Hjá góðum mjaltamönnum sogast ekkert loft inn meðan sett er á. Loftinnsog hækkar gerlatölu og raskar heildarþrýstingi kerfisins.

Að taka af:

Hvenær?
Ef kýrin er rétt undirbúin og tækin sitja rétt á spenunum eiga flestar kýr að hreinmjólkast án hjálpar. Það verður að fylgjast mjög vel með því að tómmjaltir eigi sér ekki stað á einum eða fleiri júgurhlutum. Ef einn júgurhlutinn tæmist langt á undan hinum getur verið nauðsynlegt að taka hylkið af þeim spena og setja tappa í það. Ef einn júgurhlutinn tæmist langt á eftir hinum getur hjálpað að strjúka hann nokkrum sinnum niður með jöfnum ákveðnum handtökum. Það getur skaðar slímhimnurnar í spenanum að toga mjaltakrossinn niður. Ef hylkin sitja of ofarlega á spenanum getur eitt af þrennu verið að: Of hátt sog, of víð spenagúmmí eða blautir spenar. Undirbúningur kýrinnar fyrir vélmjaltirnar hefur mikið að segja um hve jafnt júgurhlutarnir tæmast.

Hvernig?
Þegar júgrið hefur tæmst eru mjaltavélarnar teknar varlega af. Byrja skal á því að taka sogið af. Síðan er beðið meðan sogið undir spenaendunum jafnast út og mjaltatækin losna af spenunum fyrir eigin þunga. Það getur verið til skaða að hleypa lofti inn meðfram spenunum, eða soga inn loft ettir að tekið er af kúnum. Heildarþrýstingur kerfisins raskast og óhreinindi sogast inn í mjaltalögnina.

Hvað svo?
Ef spenar eru þurrir eða sárir er rétt að bera mýkjandi krem á þá. Margar tegundir sótthreinsiefna eru á markaðinum og rétt er að prófa sig áfram í samráði við viðkomandi mjaltaeftirlitsmann. Gerladrepandi efni (eins og joðspenadýfu) ætti þó aðeins að nota tímabundið, því að langvarandi notkun getur gefið falskt öryggi og veikt ónæmiskerfi kýrinnar.

Að lokum:
Ofangreindar leiðbeiningar eru ekki fundnar út frá reiknilíkönum heldur er um að ræða samansafnaða reynslu bænda og rannsóknamanna innanlands og utan. Þetta eru þær aðferðir sem reynst hafa árangursríkastar til að tryggja bændum mikið af hágæðamjólk úr heilbrigðum gripum.

Heimildir:
Ólafur Oddgeirsson, (árt. vantar). Júgurbólga – orsakir og afleiðingar. Rannsóknarstofa mjólkuriðnaðarins, Rvk.
Olaf Österás, 1991 . Nordiske rád om mjölking. Buskap og avdrátt, 3, 1991: Bls. 28-31.
Sigtryggur Björnsson, 1982. Mjaltavélar og mjaltatækni, I. Hefti. Bændaskólinn á Hvanneyri.
Sunde köer-God mælk 1990. Danske Mejeriers Fællesorganisation, Kvægsundhedstjenesten. Aarhus 1990.