Flokkar: Mjaltatækni
29. maí 2002
Um mjaltatækni
Fróðleiksmolar
frá Kristjáni Gunnarssyni, mjólkureftirlitsmanni.

Sogskiptar

Það er skoðun margra m.a. þess er þetta ritar að atferli mjaltamannsins og aðbúnaður kýrinnar vegi þyngra þegar um er að ræða júgurheilbrigði og líðan hennar heldur en gerð og ástand mjaltabúnaðarins. En með vanstilltum búnaði sem er í ólagi og vinnur ekki rétt tökum við mikla áhættu og stefnum júgurheilsu kýrinnar vísvitandi í hættu.

Ef setja ætti upp röð eftir mikilvægi er lagt til að byrja á sogskiptinum því hann er heili mjaltanna og ræður nudd, mjalta og hvíldarfasa.

Ef þessir hlutir gerast ekki nokkurn veginn rétt veldur það til lengri tíma litið of miklu álagi á spenann þ.e. hringvöðvinn og slímhúð spenaopsins verður smá saman fyrir varanlegum skemmdum og þá erum illt í efni þar sem hið náttúrulega varnarkerfi kýrinnar er hrunið og við tekur júgurbólga í tíma og ótíma með lyfjaaustri sem sjaldnar og sjaldnar skilar árangri. Slíkur speni verður aldrei heill þó takist með lyfjum að slá á eina sýkingu í byrjun.

Sogskiptar sem koma inn til viðgerðar eru að mestum hluta fullir af skít og loftrásir þeirra stíflaðar. Bóndinn getur því sjálfur ráðið nokkru um ástand þeirra með því að þrífa þá reglulega úr volgu vatni og blása síðan úr loftrásum, ekki of hastarlega svo fóðringar öxulsins hreyfist ekki og þurrka síðan og setja saman á ný. Nauðsynlegt er að muna eftir því að losa ekki skrúfur á hliðum vökvafylltra sogskipta því þá tæmast þeir og þarf þá að vökvafylla undir þrýstingi og það er ekki á allra færi.
Síðan þaf reglulega að láta mæla þá og línurita minnst einu sinni á ári svo hinn áríðandi hvíldarfasi sé örugglega réttur.
Þvottur sogskiptana sem á undan er lýst á að sjálfsögðu ekki við um elektróníska (rafknúna) sogskipta.
Með því að hlusta reglulega á sogskiptinn getur sæmilega glöggur maður heyrt hvort ástand hans er að breytast og hvort hann slær jafnt í báðar áttir og með því að telja slög hans í tíu sek. hvort hraði hans er réttur. Þeir eiga að slá u.þ.b. 10 tvöföld slög á þeim tíma eða 60 tvöföld slög á mínútu. Einnig má telja hvert slag og verður talan þá 20 og 120.