Flokkar: Mjaltatækni
29. janúar 2000
Um mjaltabása

Nokkur áhersluatriði varðandi hönnun mjaltabása
Eftir Snorra Sigurðsson, framkvæmdastjóra LK

Við hönnun mjaltabása þarf að huga að fjölmörgum þáttum. Oft fá bændur tilboð frá mjaltatækjaframleiðendum um heildarlausnir, þ.e. bæði tæki, innréttingar, gólfefni o.fl. í mjaltabásinn og oft fylgja jafnvel teikningar með. Þrátt fyrir allítarleg tilboð koma stundum fyrir meinlegir hönnunargallar framleiðendanna. Það er því mjög mikilvægt að allir bændur, sem hugleiða byggingu mjaltabáss, hafi staðgóða þekkingu á þessum málum. Hér á eftir verður farið yfir helstu áhersluatriði varðandi hönnun mjaltabása.

Stærð mjaltabáss
Algengasta gerð mjaltabáss hérlendis er dálkabás og er stærð hans fundin þannig að taka skal fjölda árskúa og draga frá 15% frá þeim fjölda (vegna geldstöðu). Í þá tölu er síðan deilt í með 5 og fæst þá heppilegur fjöldi sem rúmast þarf í viðkomandi mjaltabás. Dæmi: 40 árskýr-15%=36. 36/5=7,2. Mjaltabás af stærðinni 2×4 myndi henta vel fyrir þennan fjölda).

Biðsvæðið
Gott og vel hannað biðsvæði framan við mjaltabásinn stóreykur vinnuhagræðingu, auðveldar mjaltir og minnkar líkur á júgurbólgu. Plássþörf á biðsvæði er fundin með því að draga 15% frá fjölda árskúa (vegna geldstöðu) og síðan að draga frá þeirri tölu þann fjölda kúa sem fer beint í mjaltabásinn. Biðsvæðið þarf þá að rúma afganginn af kúnum og reikna þarf með um 1,35 m2 fyrir hverja kú. Til að flýta fyrir mjöltum er best er að biðsvæðið halli (2-3%) frá mjaltabásnum, en þá snúa kýrnar á biðsvæðinu rétt við honum (standa upp í). Einnig þarf biðsvæðið að vera laust við kröpp horn upp við mjaltabásinn, en slíkt tefur fyrir flæði kúa í gegnum mjaltabásinn. Almennt er ekki mælt með því að brynna kúm á biðsvæði, en ef slíkt er nauðsynlegt, er ráðlegt að staðsetja brynningarskálar sem næst mjaltabásnum þannig að kýrnar sæki að honum.

Mjaltabásinn
Eins og áður hefur komið fram bjóða nú flest fyrirtæki upp á heildarlausnir. Hins vegar vilja margir sjá sjálfir um smíði innréttinganna og er ekkert sem mælir gegn því. Ráðlegt er þó að huga vel að slíkri hönnun og er e.t.v. einna mikilvægast að innréttingastoðir þurfi ekki að vera í gryfjukantinum í mjaltaaðstöðunni sjálfri, heldur hvor við sinn enda. Varðandi frekari hönnun innréttinga er best að leita reynslu bænda sem hafa mjaltabás fyrir eða hafa nýlega sett upp mjaltabás.

Eitt af mikilvægari atriðum varðandi endingu mjaltabása er frágangur gólfsins. Gæði steinsteypunnar skipta þar mestu máli og ef steypan er gerð úr góðum hráefnum og vel slípuð upp, endist hún mjög lengi og ver sig vel. Í dag finnast fjölmörg ný efni sem sett eru á gryfjugólf. Við val á yfirborðsefni, þ.e. ef steynsteypan á ekki að vera ber, er brýnt að huga vel að því að gólfið má ekki verða of hált. Þá hafa undanfarin ár rutt sér til rúms víðá í Evrópu sk. asfaltgólf (einskonar malbik) og er látið mjög vel að slíkum gólfum. Þykkt ílagnar er um 6-7 cm og þarf því strax í upphafi hönnunar bássins að ákveða hverskonar efni á að nota á gólfið.

Í dag eru ristar í gólfi mjaltabásanna farnar að sjást aftur. Ristar þessar auðvelda mjög þrif á básunum og er heppileg breidd þeirra um 35 cm. Til að auðvelda þrif er betra að hafa teinana (t.d. 15 mm galvaníserað prófíljárn) í ristunum langs með mjaltabásnum, með 35 mm bili á milli teinanna. Gott er að gera strax ráð fyrir skolun á rennunni undir ristinni, t.d. með því að leggja vatnslögn í enda rennunnar og staðsetja krana í gryfjunni.

Mjaltagryfjan
Mikilvægt er að huga vel að breidd gryfjunnar. Algengt er að raunbreidd (milli efstu brúna gryfjunnar) gryfjunnar sé um 180-200 cm, en full ástæða er til að hvetja til breiðari gryfja og óhætt er að fullyrða að gryfjubreiddin þurfi minnst að vera 220 cm (milli efstu brúna gryfjunnar) þannig að vinnusvæði fyrir tvo sé sem best. Þessi breidd kostar vissulega meira við byggingu fjóssins/bássins, en skilar sér fljótt í vinnusparnaði og léttari vinnustað. Heppilegt er að hafa veggi gryfjunnar beina, en setja svo hallandi stálkant efst og láta hann ná ca. 10-15 cm inn í gryfjuna. Stálkant þennan má fá tilbúinn hjá ýmsum framleiðendum mjaltatækja, en einnig er einfalt og ódýrt að fá hann smíðaðan hérlendis.

Hönnun gólfsins er ekki síður mikilvæg en breidd gryfjunnar og þarf það að vera stamt en þó auðþrífanlegt. Eitt það mikilvægasta við hönnun mjaltagryfju er dýpt gólfsins. Erlendis tíðkast núorðið að hafa gólfið hreyfanlegt, en þá eru lagðar riflaðar plastplötur í stálramma sem getur hreyfst upp og niður. Hver mjaltamaður getur þá stillt hæð gólfsins eins og honum hentar. Þessi útbúnaður er þegar komin í nokkur fjós hérlendis og hefur reynst vel. Þegar slíkur útbúnaður er ekki fyrir hendi, er óhætt að mæla með því að miða dýpt gólfsins við minnsta mjaltamanninn. Mæla skal hæð frá gólfi að olnboga viðkomandi og draga síðan frá 25 cm. Útkoman ætti að svara til heppilegrar dýptar gryfjunnar, (algengast á bilinu 90-95 cm).

Niðurföllin eiga að vera langs með hliðum gryfjunnar, en komið hefur í ljós erlendis að þar sem niðurföll eru í miðju er mun algengara að mjaltafólkið þjáist að bakveiki. Ástæðan er talin felast í því að mjaltafólkið í slíkum gryfjum stendur ávallt upp í hallann og hallar sér því fram. Líkamsbeitingin verður því röng, sem getur aftur leitt af sér slitsjúkdóma. Hiklaust má mæla með mýkjandi undirlagi í gryfjuna, s.s. gúmmí- eða plastmottum. Hafa þarf þó hugfast hvernig haga eigi þrifum undir þessum mottum.

Útgangar mjaltagryfjunnar þurfa að vera góðir og eiga tröppur að vera minnst 50 cm. breiðar og á þreplengd að vera sem næst 23 cm. Hæð milli þrepa getur verið dálítið misjöfn, en miða skal við sem næst 18 cm. þrephæð. Ef biðsvæði er við enda gryfjunnar er ráð að hafa hallandi rampa upp úr gryfjunni í þeim enda.

Loftræsting og lýsing
Loftræstingu þarf að hanna sérstaklega fyrir hvern mjaltabás, allt eftir aðstæðum á hverjum stað. Erfitt er því að gefa út almennar leiðbeiningar og öllum ráðlagt að hafa samband við fagmenn á þessu sviði varðandi þennan hönnunarþátt. Loftræsting í mjaltabás er mjög mikilvæg, ekki síst þar sem mikið vatn er notað við þrif og allur sá raki sem af því hlýst þarf að komast burtu. Loftræstikerfi mjaltabáss þarf einnig að hanna í samræmi við það loftræstikerfi sem fyrir er, þannig að loftflæðið í fjósinu verði eðlilegt.

Lýsing þarf að vera næg og forðast þarf þannig staðsetningu ljósgjafa að skuggi varpist á júgur kúnna. Ef erfitt er að komast hjá því að skuggi af innréttingum lendi á júgrum kúnna, er ráð að auka lýsinguna til muna. Við það eykst endurvarp af gólfi sem bætir úr þessum vanda.
Janúar 2000