Flokkar: Mjaltatækni og bútækni

6. desember 2004

Mjaltatækið, seinni hluti

Mjaltatækið, seinni hluti

 

Í fyrri hluta var fjallað stuttlega um tækin almennt en við skulum nú skoða betur tækin sem eru í sölu hérlendis.

 

Tekið skal skýrt fram að hér eru settar fram skoðanir og mat undirritaðs og ekki ætlast til að allir séu honum sammála, en hlutleysis hefur verið gætt. Með mjaltatækinu er átt við tækið sjálft og viðtengd hylkin fyrir spenagúmmíin með þeim ísettum.

 

Harmony

frá De-Laval er nútímalegt og vel hannað, vegur um 1,6 kg og hefur 440 ml innra rými. Mjólkurslangan tengist tækinu að ofanverðu ( þegar það hangir á kúnni ) sem er óvenjulegt, en flæðirör liggur niður í gegnum mitt tækið. Jafnframt því að flytja mjólkina upp frá neðri hluta tækisins á það að lágmarka bakskot frá kerfinu vegna hugsanlegrar sogsveiflu. Segja má að þetta sé sérstaða tækisins og býsna vel til fundið.

Tækið er sjálflokandi við ásetu. Með öðrum orðum þá þarf ekki að brjóta upp á spenagúmmíin með því að hafa þau í greip sinni enda illmögulegt vegna umfangs tækisins. Spenagúmmíin eru tengd við tækið án stúta sem eykur flutningsgetu og verður síður óþrifagildra sem stundum sést á stútatengdum tækjum. Ef spenafata er notuð (mjólkað fram hjá) „piparsveinafata“ krefst hún sérstaks millistykkis, en nota má t.d. enda af eldra gúmmíi sem grönnu röri er stungið upp í svo hún sé tengjanleg Harmony tækinu.

Flæðigeta tækisins er góð. Innanmál stuttu mj.slöngunnar er 13,5 m/m og stúts fyrir löngu mj.slönguna 16 m/m.

Lögun tækisins og sverleiki stuttu mj.slöngunnar gerir það að verkum að erfitt er að mjólka kýr sem eru mikið gleiðspenntar vegna júgurbyggingagalla eða tímabundins stálma. Ástæðan er sú að stutta mj.slangan hreinlega legst saman en hún er 15 cm löng. Þetta er ókostur. Nota verður gamla tækið í þeim tilvikum eða mjólka kúna í tvennu lagi þe fyrst aðra hliðina og nota tappa í hin tvö hylkin.

Tækið er 39 cm sítt og getur því stundum legið ofan í básnum við mjöltun kúa sem eru mjög júgursíðar vegna t.d. niðurslits eða aldurs.

 

Harmony “plus
Nýtt mjaltatæki frá De-Laval er nú komið á markað hérlendis.. Það er að grunni til byggt á Harmony tækinu eins og nafnið ber með sér en er þó að miklu leyti nýsmíði og óvenjulegt að mörgu leyti.
Breytingar frá venjulegu Harmony tæki: ( sem verður til sölu áfram enda gott tæki).
1. Tækið er ekki hringlaga eins og önnur mjaltatæki heldur nær kantað og hliðar tækisins mislangar þannig að það er skringilegt ásýndum. Það er þverskorið að aftan þannig að kýrnar eiga mun minni möguleika á að stíga eða sparka af sér því þær ná illa til tækisins vegna lögunarinnar.
2. Tækið er hærra að framanverðu (dýpra) þannig að fram-spenagúmmíin eru um 2-3 cm hærra sett. Þetta er gert því algengast eru að framspenar sitji ofar en afturspenar svo tækið situr betur og hallar ekki aftur þannig að flæði fram úr stút er betra.
3. Mun gleiðara er milli fram hylkjana en þeirra að aftan. Þetta er gert vegna þess að algengast er að framspenar sitji gleiðar en afturspenar og tækið er því betur sniðið að júgurbyggingu kýrinnar.
4. Stútur fyrir mjólkurslöngu hallar niður til að auka flæði frá tækinu.
5. Lokun tækisins (gúmmítappinn) er nú ekki lengur inná milli upphengibogans heldur er hann utan við bogann og hallar niður eins og mj.sl.stúturinn. Þar með er mun þægilegra að komast að honum.
6. Það hefur meira innrarými en það gamla eða 485 ml í stað 440 á venjulegu Harmony.
7. Minni hætta er á mjólkurrestum í pakkningu á loki þar sem nýja tækið er skrúfað saman með bolta niður í gegn um tækið innanvert. Loftinntakstappinn er af nýrri gerð og þvæst með tækinu þannig að loftstreymi verður jafnara.
8. Tækið er 100 gr þyngra en venjulegt Harmony, spenagúmmí eru þau sömu en það er um 3.000 kr dýrara.m.vsk.

 

Samantekt:Tækið er byltingakennt og þeim sem þetta ritar leist mjög vel á þetta tæki, breytingarnar eru flestar til bóta, hef þó efasemdir um lokunartappann inní tækinu og skrúfuna gegnum tækið með tilliti til þrifa og mun ég fylgjast grant með reynslu manna af tækinu og athuga þrif þeirra reglulega svo þau mál verði allveg á hreinu. Þá er það vissulega galli að tækið er þyngra þó ekki sé það nein ósköp og aðrir kostir vega það e.t.v. upp. Þá vantar á það krókinn til að halda við í þvotti ef menn eru með eldri gerðir þvottahylkja og verður þá að sjóða hann á sem er tiltölulega auðvelt.

 

Uniflow3 tækið frá S.A.C er nútímalegt og vel hannað enda nýkomið á markað. Það er einfalt í byggingu – vegur tæp 1.6 kg en hefur um 485 ml. innra rými. Það fer vel í hendi og er ekki eins sítt og De-Laval tækið eða 38 sm  – þegar langa mj.slangan er komin á sinn stað. Þetta er kostur þegar síðjúgra kýr eru annars vegar.

Spenagúmmíin eru tengd tækinu á hefðbundinn hátt (stútar) sem telst frekar „mínus“ með tilliti til þrifa, en innanmál stúts fyrir stuttu mj.slöngu er 13.5 mm og löngu mj.slöngu 16 mm þannig að flæðigetan er góð.

Mjólkurslangan tengist því að neðanverðu og er tengistúturinn grópaður ofan í lokið svo slangan liggi síður í básnum. Þegar kemur að gleiðspenntu kúnum er vandinn meiri ef menn nota þetta tæki en það sem kemur frá De-Laval, því stutta mj.slangan er aðeins 13.5 cm og hefur því takmarkaðan sveigjanleika.

Tækið er sjálflokandi við ásetu. Þetta þýðir að stutta mj.slangan lokar sjálfkrafa þegar tækinu er hvolft eins og raunar bæði De-laval og Strangko.

 

Uniflow 3M

Þetta tæki er fáanlegt með svokölluðum. júgurbólguskynjara og heitir þá Uniflow 3M og mælir leiðni og saltmagn mjólkurinnar innbyrðis milli spena og varar bóndann við með mismunandi ljósblikki eftir því hve mikið viðkomandi speni sker sig frá lægstu meðaltals gildum hinna spenanna.

Einnig gerir tækið viðvart ef hitastig mjólkurinnar fer yfir eðlileg mörk sem er þá vísbending um að kýrin sé með hita og þarfnist skoðunar.

Þessi búnaður er býsna sniðugur en er hins vegar nokkuð dýr enn sem komið er og spillir að tvennu leyti annars ágætu mjaltatæki því hann rýrir innra rými tækisins í 420 ml og þyngir það upp í 1.8 kg.

Menn geta svo endalaust deilt um það hvort þessi aukabúnaður sé þarfur eður ei og gagnist sem skyldi, eða hvort hann verður til þess að menn tapi vöku sinni og verði lakari mjaltamenn á eftir.

 

Soffi tækið frá Strangko er nokkru þyngra en þau tvö tæki sem áður eru nefnd eða um 1.9 kg en hefur mest innra rými allra tækjana eða 515 ml. Hönnunin er hins vegar nokkuð gamaldags enda mun nýtt tæki í smíðum hjá Strangko. Því má segja að mjaltatækið sé eins og úr eldri pakka miðað við nútímalega hönnun og nýjungar Strangko mjaltakerfana að öðru leyti. Það sést mun verr inn í tækið á mjöltum heldur en De-Laval og SAC sökum þess að það er ógagnsætt að ofan og neðan sem er mikill galli. Spenagúmmíin eru tengd tækinu við langa stúta sem einnig er „mínus“. Stútur löngu mj.slöngu er 15 m/m en stuttu mj.slöngu 12.5 m/m og flæðigeta því örlítið lakari en hinna fyrrnefndu en þar bjargar mikið innra rými.

Strangko hefur hins vegar gert raf-sogskiptinn og tengingu hans við Soffi tækið þannig úr garði að framspenar mjólkast saman og afturspenar saman, í stað vinstri – hægri mjöltun samkeppnisaðilana (tenging loftslangnanna í hylkin.)

Hugmyndin er ekki galin því skiptihlutfall milli fram og aftur júgurhluta eru einnig stillanleg t.d. 50/50 á móti 60/40 sem getur komið vel út þar sem tæmingartími afturjúgurs er oftast lengri en framjúgurs.

Vegna síddar og hönnunar Soffi tækisins þ.e. grönn stutta mj.slanga verða ekki vandamál með gleiðspenntu kýrnar en mikil sídd þess 40.5 cm veldur því að tækið liggur frekar ofan í básnum og tengistútur mjólkurslöngunnar skagar allt of langt niður úr tækinu.

 

Classic 300 tækið frá Westfalía hefur undirritaður einungis séð á sýningu. Mál var hvergi að finna enda tæki þessi sjaldséð hérlendis. Westfalia framleiðir framúrstefnuleg og vönduð kerfi í heildina en sjálft mjaltatækið vakti hins vegar litla hrifningu undirritaðs. Það virkaði afar gamaldags og þungt miðað við De-Laval og SAC. Engar upplýsingar var að hafa um þyngd tækisins en það var þungt í hendi og innra rými uppgefið 300 ml sem telst lítið og sídd er yfir 40 cm.

Spenagúmmí tækisins og stutta mjólkurslangan eru samansett þ.e. í tvennu lagi og spenagúmmíin eru framúrstefnuleg vegna ljósgulrar silicon blöndu og virkuðu þau mjúk og stílhrein sem er í andstöðu við gamaldags mjaltatækið. Enda segir framleiðandinn að þau hafi besta örvun (stimuleringu) allra spenagúmmía. Þau eru tengd tækinu í stúta og mjólkurslangan tengd í tækið að neðanverðu.

 

Að lokum.

Það hafa engin viðurkennd samanburðarpróf verið gerð á þessum framantöldu mjaltatækjum í sömu hjörð þannig að með engu móti er hægt að benda á eitt tæki og segja „þetta er besta tækið.“ Hins vegar geta menn skoðað og sagt „þetta tæki líst mér best á.“

 

ágúst 2000

Kristján Gunnarsson