Flokkar: Mjaltatækni og bútækni
6. desember 2004

Mjaltatækið, fyrri hluti

Gerð og hönnun mjaltatækja er að mati undirritaðs ekki það sem mestu máli skiptir þegar júgurheilbrigði er annars vegar, önnur atriði vega þar mun þyngra.
Fjölmargir mjólka með 20 ára gömlum tækjum með ágætum árangri með nytháar kýr og meðaltals frumutölu milli 100 og 200 þús.
Þeir hafa það þó trúlega sameiginlegt að vera góðir og athugulir mjaltamenn.
Nokkuð margar gerðir mjaltatækja eru í umferð hérlendis og og 3- 4 tegundaheiti fáanleg þ.e.a.s. De-Laval, S.A.C., Strangko og jafnvel Westfalía.
Þessir framleiðendur eru hver með sitt útlit og hönnun viðkomandi mjaltatækja en þó hafa nýjustu hannanir tvennt sameiginlegt þ.e. létta byggingu og mikið innra rými.
Það gefur auga leið að það er mikill léttir fyrir kúna í orðsins fyllstu merkingu að léttustu tækin í dag vega aðeins rúm 1,5 kg í stað nær 3. kg næstu kynslóðar á undan.
Léttingin hefur að mestu leyti orðið vegna þess að spenahylkin eru nú úr PVC blöndu og léttmálmi í stað 2-3 mm ryðfrís stáls sem er níðþungt efni.
Aukið innra rými tækjanna úr 50 , 75, eða 150 ml í 430 – 500 ml hefur augljósa kosti þar sem síður er hætta á að þau standi full af mjólk og hindri þannig streymi mjólkur úr spenum.
Það þarf hins vegar að breyta mjólkurkrönum á lögnum eldri rörmjaltakerfa svo stækkun mjaltatækisins nýtist til fulls því gömlu mjólkurkranarnir eru “flöskuháls” sem þyrfti að lagfæra þegar á annað borð er fjárfest í nýju mjaltatæki..
Við gætum svo endalaust haldið áfram, næst sverari flutningsleið, afkastameiri sogdæla o.s.f.v.
Engu að síður stendur eftir þó ekki sé skipt um tengikrana við kerfið að nýju tækin eru nær helmingi léttari eins og áður sagði og bara sá kostur réttlætir hiklaust kaup þeirra.
Um leið er hægt að lækka mjaltasoghæð um 1-1,5 kpa vegna léttara tækis og það er útaf fyrir sig góður kostur.
Þar til fyrir um 5 árum síðan fannst sérfræðingum í hönnun mjaltaækja að það væri mikilvægt að tækin væru nokkuð þung til að þau næðu að mjólka, trúlega sama hugsunin og þegar mjaltamaður leggur hendina eða jafnvel grjóthnullung ofan á tækið í lok mjalta til að ná betur úr seigum spenum.
Við þess háttar uppátæki vex álag á spenann gríðarlega, alið er á mismjöltun og stuðlað að útdreginni slímhimnu spenans, það er því réttara að láta slíkt ógert enda ekki hugsunin bak við mjaltavélina að toga mjólkina úr kúnni.
Sem sagt það er til bóta og fyllilega réttlætanlegt að mati undirritaðs að skipta út litlu gömlu en jafnframt þungu mjaltatækjunum.

ágúst 2000
Kristján Gunnarsson