Flokkar: Mjaltatækni og bútækni
6. desember 2004

Forkæling mjólkur

Forkæling mjólkur.

 

Forkæling á mjólk úr mjaltakerfum er ótvírætt afar miklis virði og bætir stórlega meðhöndlun mjólkur sér í lagi hvað varðar líftöluinnihald (heildagerlatölu).

 

Um er að ræða s.k.vatnsforkæla, oftast plötukæla, þ.e. sírennsli á köldu vatni er gegnum aðra hlið forkælisins á móti mjólkinni hins vegar á leið hennar frá mjólkurskila / mjólkurdælu að mjólkurtank.

 

Það fer svo eftir hitastigi kalda vatnsins og rennslismagni gegnum forkælinn og magni og dælingarhraða mjólkurinnar hve lágt niður tekst að kæla mjólkina áður en hún að lokum hafnar í mjólkurtanknum.

Enn fremur hefur lítilega áhrif gerð mjaltakerfisins þ.e. hve langt mjólkin rennur eftir mjaltakerfinu.

 

Algengt er að byrjunar-hitastig mjólkur í mjólkurtank sé á bilinu 28 – 30°C í óforkældri mjólk, kólnar eðlilega nokkuð í ferli sínu frá kú að mjólkurtank ( u.þ.b. 38°C úr kúnni) en við góða forkælingu er ekki fjarri lagi að hitastigið sé komið niður í 8-12°C áður en mjólkurtankurinn fer að kæla niður og sést því hve ótrúlegt gagn er að vatnskælingunni sem kostar nánast ekkert í daglegum rekstri.

 

Það eina sem kemur í veg fyrir góðan árangur af forkælingu er ef lítið magn af köldu vatni er nú þegar vandamál á viðkomandi bæjum, en við slíkar aðstæður er gangslaust að setja upp vatnsforkælir því ljóst er að á mjaltatíma þar sem tregt er um vatn er ekkert aflögu til forkælingar sér í lagi þegar kýrnar eru í óða önn að drekka.

Það þarf auðvitað að vera nægt vatn hvort sem forkæling er eða ei því mjólkurkýr sem ekki fá nægt rennsli vatns í drykkjardalla líða fyrir vatnsleysi og mjólka minna.

 

Helstu kostir forkælingar eru að við það sparast mikið rafmagn, vinnslutími kælivélbúnaðar mjólkurtanksins er að meðaltali þrisvar sinnum styttri með þ.a.l. mun lengri endingu búnaðarins og minni bilunartíðni.

 

Hvað varðar síðan meðhöndlun mjólkurinnar er margt unnið til góðs hvað varðar forkælingu, þ.e. líftala er að staðaldri lægri vegna þess að við lægra hitastig dregur úr tvöföldunar áhrifum líftölu, mjólkin er síður í hættu ef gleymist að kveikja á tank eða kælibúnaður bilar, mjólkin verður fyrir minna áreiti en þegar heitri mjólk er dælt saman við kalda í mjólkurtanknum.

Ferli mjólkur gegnum forkælinn er að lang mestu leiti skaðlaus ef forkælirinn er eðlilega hertur saman og plötur kælisins óskemmdar og í eðlilegri rýmd.

 

Segja má því með sanni að plötuforkælir sé algjör sparibaukur mjólkurframleiðenda og ótrúlega fljótur að borga sig upp og eins og áður sagði eykur einnig á gæði mjólkur og öryggi kælingar sem er afar mikils virði.

 

Það er því eindregin skoðun undirritaðs að allir sem hafa nægt kalt vatn ættu nú þegar að kaupa vatnsforkælir og einnig þeir sem eru með elstu kynslóð þessara plötuforkæla, (gömlu þunnu grænu Alfa kælana ) því þeir eru afar afkastalitlir og erfiðir í dælingu.

 

Þá má ekki gleyma því að við forkælingu verður dælingarhitastig mjólkur í tankbílinn örugglega innan eðlilegra marka þar sem tekin er mjólk fljótt eftir mjaltir.

 

Auðvelt er að setja þessa forkæla upp og viðhald þeirra ekkert fyrstu 8 – 10 árin og lítið eftir það, helst að pakkningar gefi sig eða losni í kælum eftir 15 – 20 ár ef þeir eru teknir of oft í sundur.

 

Þvottur þeirra með mjaltakerfinu er nánast allstaðar ágætur, þ.e. ekki hefur borið á þrifavandamálum þar sem á annað borð er nægilega gott þvottakerfi fyrir mjaltakerfið og sápuvatnshiti nægur.

Þörf er hins vegar á að þvo með síu í svo hár og strá stoppi ekki í forkælinum og safni utan á sig óhreinindum.

Muna þarf að skrúfa fyrir kalda vatnið inná forkælinn þegar mjöltum er lokið og þvottur mjaltakerfisins hefst því annars kælir forkælirinn þvottavatnið eins og skiljanlegt er.

 

Verð 30 plötu plötuforkæla þann 17.5 2004 var sem hér segir hjá tveimur söluaðilum: Remfló á Selfossi (M.B.F)  30 plötu kælir frá SAC  kr. 56.424 án vsk og 70.249 m.vsk.

Aftöppunarstútur er á mjólkurgangi.

Vélaver Reykjavík  30 plötu kælir frá De-laval  kr. 73.000 án vsk og 90.885 m.vsk.

 

17.05.2004

 

Kristján Gunnarsson

mjólkureftirlitsmaður

Norðurmjólk