Draumurinn um hið fullkomna meðhöndlunarrými

Flokkar: Mjaltatækni, bútækni og bústjórn

29. apríl 2006

Draumurinn um hið fullkomna meðhöndlunarrými

Fyrir nokkrum árum var stía fyrir veikar kýr nýjung og fylgdi henni ákveðinn vinnuléttir. En kúbændur með stór bú (fleiri en 200 árskýr) dreymir nú um hið fullkomna meðhöndlunarrými. Eftirfarandi pistill er skrifaður af dönskum ráðunaut, Susanne Pejstrup og hefur verið staðfærður að hluta fyrir íslenska nautgriparækt.

 

Meðhöndlun kúa s.s. við sæðingar, klaufsnyrtingu og dýralækningar ásamt fleiri atriðum er mikill tímaþjófur á stórum búum. Danskur kúabóndi lét hafa eftir sér að þar sem þarlendir dýralæknar væru farnir að taka 15,- dkr á mínútuna í vitjunum væri alveg eins gott að fara með kýrnar til þeirra. Þetta var reyndar sagt í gríni, en kannski er hugsunin ekki svo galin. Auðvitað þarf dýralæknirinn að koma inn í fjósið og skoða gripina, en ef þetta er einföld meðhöndlun ættu gripirnir að vera tilbúnir og allar heimsóknir ættu að ganga hratt og örugglega fyrir sig.

 

Klaufskeri bað greinarhöfund um nokkrar tillögur um hvernig hægt væri að innrétta fjós þannig að þeir geti komið inn með sína klaufskurðarbása og unnið auðveldlega við sín verk inn í fjósinu og rekið kýr að og frá klaufskurðarbásnum án vandkvæða. Fram kom í máli hans að af og til þurfi jafnvel að færa klaufskurðarbása til með ámoksturstækjum og hafa jafnvel 30-40 metra langa framlengingarsnúru í rafmagnið áður en hægt er að hefjast handa. Allt umstang tefur fyrir raunverulegri vinnu, en biðtíminn kostar jafn mikið og virk vinnustund. Það eru sem sagt góðar og gildar ástæður fyrir því að beina athyglinni að því hvernig sé hægt að innrétta fjósið þannig að gott meðhöndlunarrými fáist með tilheyrandi vinnuhagræðingu.

 

Mjaltaaðstaðan verður að geta þróast
Alltaf eru að koma fram nýjar aðferðir og tækninýjungar sem þýða það að mjaltaaðstaðan verður vera jafn sveigjanleg eins og hinir hlutar fjóssins. Því leggur greinarhöfundur til að mjaltaaðstaðan sé staðsett í sér byggingu með rekstursgöngum yfir í sjálft fjósið. Þannig er auðveldara að byggja og breyta ef og þegar það er nauðsynlegt.

Meðhöndlunarrýmið á að vera fjölnýtanlegt.
Í framhaldi af mjaltabásnum væri hægt að koma því þannig fyrir að gangurinn frá mjaltaaðstöðunni geti skipst upp og boðið upp á valmöguleika á því hvort kýrin fer í legubásasvæðið eða í meðhöndlunarrýmið.

 

Kosturinn við að hafa alla þessa starfsemi í einni byggingu er að hægt er að stækka það rými sem hver starfsemi þarf og hægt er að stytta þá vegalengd sem þarf að flytja skepnurnar. Allar tilfærslur í sambandi við það þegar kýr eru geltar upp, sem og í kringum burð ættu að eiga sér stað á stömu rimlagólfi.

 

Þegar meðhöndlunarrýmið er hannað ætti að hafa eftirfarandi í huga:

 

Geta stíað kýr/kvígur af:
Til sæðinga á um það bil 1-2 kúm á dag og meðhöndlun dýralækna af 1-2 kúm á viku.

Til meðhöndlunar eiganda í formi athuguna og þvotta á klaufum, vökvagjöf í gegn um munn, sárameðhöndlun og fleira.

Til geldinga á 3-7 kúm einu sinni í viku miðað við stærð upp á 225 árskýr.

Flokkun á fyrsta kálfs kvígum fyrir burð, ef þær eiga að ganga með kúnum í 1-2 vikur fyrir burð.

 

Geta meðhöndlað sérstaklega:
Aðstöðu fyrir sæðingamann þannig að dýrið geti ekki snúið sér og innréttingin á að tryggja rétta hæð fyrir sæðingamanninn. Bíl sæðingamannsins á að vera hægt að keyra sem næst svæðinu.

Aðstöðu til að geta sett kúna til hliðar fyrir meðhöndlun dýralæknis og/eða eiganda. Mikilvægt er að geta séð hluta kýrinnar frá hlið, lyfta fæti og svo framvegis. Gólfið á að vera hægt að hreinsa hratt og vel. Lýsing skal vera góð, aðgangur að rafmagni og heitu vatni og stutt í aðgang að tölvuskráningu. Bíl dýralæknisins á að vera hægt að keyra alveg að og jafnvel inn undir þak við meðhöndlunarsvæðið.

Beiðslisgreining fer yfirleitt fram í dag inni á legubásasvæði og eru margar kýr skoðaðar í einu. Ef aðstæður eru til, er möguleiki að framkvæma skoðunina á færri kúm í einu. Þá á skoðunin að eiga sér stað í meðhöndlunarsvæðinu.

Klaufsnyrting er framkvæmd á marga mismunandi vegu í dag. Algengast er að færri dýr séu snyrt í einu og oftar. Á stærri búum væri betra að hafa sérstakan klaufskurðarbás og hægt er svo að vega og meta hvort básinn eigi sinn fasta stað í fjósinu. Undir öllum kringumstæðum ætti að vera hægt að flytja básinn beint inn á meðhöndlunarsvæðið. Þar á að vera góð lýsing og aðgangur að vatni og rafmagni.

 

Sjúkrastíur:
Tvær sjúkrastíur ættu helst að vera til staðar með aðgengi utanfrá til hreinsunar, dreifingu undirburðar og möguleika á að flytja kúna úr fjósi beint á flutningabíl. Athugið sérstaklega að bíllinn, sem er notaður í þá flutninga, á ekki að fara yfir leið fóðurbílsins.

 

Aðstaða til að gelda kýr upp:
Stíur fyrir kýr sem verið er að gelda og kýr í geldstöðu eiga að vera með aðgengi sín á milli, þar sem kýr sem verið er að gelda eru þar til skamms tíma. Tvær stíur ættu að vera fyrir kýr í geldstöðu, önnur fyrir kýr frá upphafi geldstöðu og þar til 2-3 vikum fyrir burð, og hin fyrir kýr sem eiga 2-3 vikur eða minna eftir að burði.

 

Burðarstíur:
Mælt er með hreinni burðarstíu fyrir hvern burð. Til að þurfa ekki að vera alltaf að þrífa sömu stíuna er ráðlagt að hafa fleiri burðarstíur. Stíurnar eiga að vera nógu margar til þess að kýr geti fengið hreina burðarstíu. Þá er hægt að þrífa og setja hreint undirlag í burðarstíurnar einu sinni í viku. Hreinar burðarstíur og ein stía á hverja kú minnka líkurnar á föstum hildum og legbólgu og eykur líkur á heilbrigðari kálfum.

Snorri Sigurðsson

Þýtt og endursagt úr Bovilogisk 04.04