Flokkar: Lög og reglugerðir

3. júlí 2002

Um Aðbúnaðarreglugerð nr. 438 frá árinu 2002

Reglugerð um aðbúnað nautgripa

 

Landbúnaðarráðuneytið hefur gefið út reglugerð um að búnað nautgripa (438/2002) og tekur hún við af eldri reglugerð frá árinu 1997. Í nýju reglugerðinni eru nokkrar veigamiklar breytingar frá fyrri útgáfu sem rétt er að benda sérstaklega á.

 

Samræmt eftirlit um allt land

Í þriðju grein reglugerðarinnar er fjallað um yfirstjórn og eftirlit og hefur í þennan kafla verið bætt nýju ákvæði, en þar stendur orðrétt: “Héraðsdýralækna skulu reglulega sækja sérstakt námskeið á vegum yfirdýralæknis og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, til samræmingar á eftirliti samkvæmt reglugerð þessari”. Þetta kemur til vegna ábendinga frá kúabændum um ósamræmi í úttektum eftir landssvæðum.

 

Aukið vægi smitgátar

Vegna aukinnar tíðni á smitandi sjúkdómum hefur verið bætt inn ákvæði í fjórðu grein, þar sem fjallað er um umhverfi gripahúsa, þess efnis að við inngang skuli verða viðunandi aðstað til þrifa á fótbúnaði og höndum. Þá er ennfremur kveðið á um að aðkoma fyrir gripaflutningabíla sé greið og snyrtileg.

 

Frárennslismálum breytt

Í fjórðu grein er ennfremur sett fram breyting frá fyrri reglugerð, þar sem frárennsli frá mjólkurhúsi og mjaltabás þarf ekki lengur að leiða í rotþró heldur í haughús eða viðurkennda siturlögn. Þetta ákvæði skýrir sig nokkuð sjálft, enda hindra sápur og önnur efni sem notuð eru til þrifa í fjósum eðlilega virkni í rotþróm. Eftir sem áður skal frárennsli frá salerni fara í sér rotþró.

 

Allir gripir skulu fara út árlega

Þrátt fyrir að hérlendis tíðkist ekki að halda gripum inni yfir sumartímann, eins og gerist títt ytra, er nú kveðið á um að allir gripir (nema graðneyti) fái a.m.k. 8 vikna útivist árlega. Hér er fyrst og fremst um dýravelferðarmál að ræða, en mun væntanlega ekki breyta stórkostlega háttum hérlendis enda gripir hafðir utandyra yfir sumarið í yfirgnæfandi tilfella.

 

Kettir mega veiða í fjósum á ný!

Í elleftu grein er fjallað um mjaltir og meðferð mjólkur í fjósi og hafa þar verið gerðar nokkrar breytingar, sérstaklega þannig að heimilt sé að nota mjaltaþjóna en slík mjólkurframleiðsla hefur verið á undanþágu þar til nú. Af öðrum sérstökum atriðum má nefna að búið er að fella út bann við því að hafa ketti í fjósum og ættu fjósakettir landsins að geta tekið gleði sína þar með á ný, enda hefur starfssvæði fjósakatta verið bannað köttum síðustu fimm ár.

 

Nautakjötsframleiðendur þurfa leyfi

Í þrettándu grein, sem fjallar um leyfi til mjólkur- og kjötframleiðslu, hafa verið gerðar nokkrar veigamiklar breytingar. Helst ber þar að nefna að nú skulu allir bændur sem halda nautgripi þurfa framleiðsluleyfi, sem byggir á úttekt á aðbúnaði gripa. Þeir bændur sem ekki halda gripi við viðunandi aðbúnað fá ekki slíkt framleiðsluleyfi og geta því ekki sent sínar afurðir til afurðarstöðvar (mjólkur- eða sláturhúss). Einnig hefur verið breytt ákvæðum um gildistíma slíks leyfis, en það gildir þar til næsta skoðun hérðasdýralæknis fer fram. Í eldri reglugerðinni var gildistíminn eitt ár og því miður kom það stundum fyrir að framleiðsluleyfið var jafnvel útrunnið áður en næsta úttekt fór fram. Nú hefur því verið komið í veg fyrir þennan vanda. Þess ber að geta að eftir sem áður skal úttekt fara fram árlega. Að lokum má nefna að skoðunarskildu héraðsdýralæknis hefur verið breytt þannig að hann skoðar ekki mjaltabúnað og –kerfi, heldur notast við gildandi úttekt mjólkureftirlitsmanns. Þessu til viðbótar er nýtt ákvæði sem lýtur að gæðum vatns, en er ekki skilgreint nánar.

 

Í viðaukum reglugerðarinnar eru gefin upp bæði ráðlögð mál á ýmsum þáttum innan fjóss, sem og ýmis lágmarks- og hámarksmál.

 

Heimilt að hafa fleiri gripi við fóðurgang

Í viðauka I eru gefin upp ráðlögð mál á bása- og stíustærðum, og fjölda og stærð átplássa við fóðurgrind í lausagöngu. Þar kemur meðal annars fram að þegar gripir hafa stöðugt aðgengi að fóðri, þá má hafa fjögur geldneyti um hvert átpláss og þrjár kelfdar kvígur eða kýr. Nýbreytni er að gefnar eru upp viðmiðunartölur um aðgengi gripa að vatni og má þar nefna þætti eins og ráðlagða hæð á brynningarskál eftir aldri gripa ofl.

Loftrakastig er ekki fasti

Viðauki II fjallar um umhverfisþætti og eins og kunnugt er hafa fjölmargir bændur breytt fjósum sínum undanfarin ár og eru nú nautgripir haldnir við mun ólíkara hitastig en áður þekktist hérlendis. Margir hafa ekki áttað sig á því að hámarksgildi rakastigs fyrir gripi hækkar eftir því sem umhverfishitinn lækkar, og því hefur verið komið upp töflu þar sem þetta samhengi á milli umhverfishita og rakastigs er skilgreint. Þá er ennfremur heimilt í nýju reglugerðinni að hafa meiri lofthraða umhverfis gripina ef umhverfishitinn er lægri en gripirnir skulu þá jafnframt geta fært sig á trekkminni staði innan fjóssins.

 

Í viðauka IV, þar sem fjallað er um hættulegar lofttegundir, hefur verið breytt gildi fyrir ammoníak og það hækkað úr 10 ppm í 20 ppm, en þessi breyting er fyrst og fremst til samræmingar við viðmiðunartölur Evrópusambandsins og CIGR, sem er alþjóðleg samtök fræðimanna í bútækni.