Samhengi á milli hás úrefnisgildis mjólkur og lélegrar frjósemi

Flokkar: Kynbætur og ræktun

31. maí 2002

Samhengi á milli hás úrefnisgildis mjólkur og lélegrar frjósemi

Samhengi á milli hás úrefnisgildis mjólkur og lélegrar frjósemi

Það hefur lengi verið rætt um hvort og þá hve mikil neikvæð áhrif hátt úrefnisgildi í mjólk hefur á frjósemi kúa. Nýleg bandarísk rannsókn leiðir í ljós að samhengið er sterkt.

Rannsóknin var framkvæmt á 24 búum í Ohio, Bandaríkjunum og voru alls 1.728 kýr í rannsókninni sem stóð frá júní 1998 til maí 1999. Meðalnyt búanna var 8.883 kg mjólkur. Mánaðarlega var mælt úrefnisgildi í mjólk hjá hverri kú og síðan var unnið með meðaltal hverrar kýr við uppgjör rannsóknarinnar.

Við uppgjör rannsóknarinnar var leiðrétt fyrir áhrifum annarra þátta (s.s. nyt, aldur, mjaltaskeið, bústofn ofl.), þannig að niðurstaðan sýnir samhengi breytileika í frjósemi og úrefnisgildis mjólkur.

Kúnum var skipt í fjóra jafnstóra hópa eftir meðaltölum fyrir úrefni:

a)      kýr með minna en 7,1 mMól

b)      7,2-9,1 mMól

c)      9,2-11,0 mMól

d)      meira en 11,0 mMól

 

Niðurstaðan leiddi það í ljós að líkurnar á að kýr festi fang var 2,4 sinnum meiri hjá kúm með lægra hlutfall en 7,1 mMól, en hjá kúm með meðaltal upp á 11,0 mMól eða hærra (sjá töflu).

 

Úrefnisgildi (mMól) < 7,1 7,2 – 9,1 9,2 – 11,0 > 11,0
Líkur á fangi 2,4 1,4 1,2 1

 

Skýringin á þessu samhengi er talin stafa af breytingum á efnajafnvægi í legi. Hækkun á ammoníaki og lækkun á sýrustigi leiði þannig til þess að líkur á að frjóvgað egg nái síður að festast í leginu.

Til viðbótar voru framkvæmdir útreikningar á búunum skipt eftir meðalnyt. Meðalnyt hærri hóps búanna var með 10.916 kg mjólkur en meðalnyt lægri hópsins 6.850 kg mjólkur. Í ljós kom að meðalnyt búanna skipti ekki máli í þessu sambandi.

Rannsóknarmennirnir benda á í grein sinni að aðrar rannsóknir hafi ekki sýnt þetta samhengi jafn sterkt og hér kemur fram, en benda jafnframt á að í öðrum rannsóknum hafi ekki verið skoðaður jafn stór hópur kúa og hér var gert.

 

Athugasemdir:

Rannsóknin leiðir í ljós að líkur á lélegri frjósemi kúa aukast með mjög háu úrefnisgildi. Hér á Íslandi eru flestar kýr með langtum lægra gildi fyrir úrefni en 7,1 mMól og er landsmeðaltal tankmjólkur (2001) 5,0 Mmól (Ársskýrsla RM, 2001). Rannsóknin tók ekki á lægra úrefnisgildi en 7,1 Mmól svo að ekki er hægt að segja til um hvort munur sé á frjósemi t.d. á milli kúa með 3,0 Mmól annars vegar og 6,0 Mmól hinsvegar.

 

Snorri Sigurðsson

Heimild:

Rajala-Schultz, P.J. ofl.: Association Between Milk Urea Nitrogen and Fertility in Ohio Dairy Cows, Journal of Dairy Science, 2001, 84: 482 – 489 (þýtt og endursagt úr KvægInfo nr. 975)/SS.