Flokkar: Kynbætur og ræktun og bútækni
14. september 2004
Kyngreint nautasæði
Kyngreint sæði á leiðinni frá dönskum nautum

Það er munur á magni kyngreinds sæðis á milli mjólkurkúakynja – ávinningurinn er mun meiri hjá Jersey kúm en hjá svartskjöldóttum (SDM) eða rauðum dönskum (RDM).
Þetta verður kannski bráðum að veruleika. Það fer þó eftir lokaniðurstöðum rannsóknar sem nautgriparæktarfélagið Dansire er að framkvæma. Í augnablikinu er verið að rannsaka fanghlutfall eftir að notað hefur verið kyngreint sæði frá Englandi. Þær niðurstöður sem fram hafa komið sýna fram á að fanghlutfallið er 5-10% undir meðaltali þar sem best gerist, og 15-20% lægri hjá einstaka nautum.

Ein orsökin á lægra fanghlutfalli er að einungis eru notaðar 2 milljónir sáðfruma í skammt, á móti 15 milljónum sáðfruma í venjulegum skammti (innsk. þýðanda: á Íslandi notum við 30 milljónir sáðfruma í hverjum skammti). Búist er við að rannsókninni ljúki á næstu vikum og eftir þann tíma mun Dansire taka ákvörðun um hvort hefja skuli framleiðslu kyngreindu sæðis í Danmörku.

Skammturinn þrisvar sinnum dýrari en venjulegur skammtur.
Það tekur 14-15 mánuði frá því ákvörðunin er tekin og vélarnar verða keyptar þangað til bændur geta keypt þessa nýju tegund sæðis. Samkvæmt reynslu annarra landa mun verðið verða um það bil þrisvar sinnum meira en fyrir venjulegt sæði. Kyngreindir skammtar eru þetta mikið dýrari annars vegar vegna þess að þetta er dýrt í framkvæmd og hins vegar vegna þess hversu mikið fer til spillis.

Þegar sæði er kyngreint næst um það bil 10% af kvígusæði og 10% af nautasæði. Hin 80% sem verða afgangs fara til spillis. Aðferðin gefur jafnframt ekki 100% vissu um kynið, en áreiðanleikinn er um 90-95% af kvígusæði og er um 10% minni þegar notað er nautssæði. Til viðbótar halda kýrnar verr eins og áður segir.

Tekjurnar meiri
En gallarnir eru léttvægir miðað við kostina á að nota kyngreint sæði. Aðalkosturinn er að maður fær fyrst og fremst kvígukálfa! Einnig býður þetta upp á auknar kynbætur með því að nota kvígusæði á kynbótahæstu kýrnar og kvígurnar. Svo er hægt að nota sæði úr holdakynjum á afganginn af hjörðinni til að fá betra kjöt af þeim kálfum sem á hvort eð er að slátra. Einnig er möguleiki á léttari burði með því að nota kvígusæði í fyrsta kálfs kvígur.

Áhugi fyrir kyngreindu sæði er hinsvegar mismunandi á milli kúakynja. Kynbótasjónarmiðið er hið sama en munur er á framleiðsluaðstæðum. Í Danmörku eru mestu möguleikarnir hjá Jersey kyni, þar sem ávinningur af því að sæða Jersey með holdasæði er mun meiri en að sæða önnur dönsk kúakyn með holdasæði.

Miklar væntingar gerðar til Jersey
Kynbótafræðingur hjá Jersey-félaginu, Peter Larson, er mjög hrifinn af aðferðinni og hann er á því að framleiða skuli kyngreint nautssæði úr dönskum nautum hvað sem tautar og raular. Hann segir að auðvitað vilji þeir að sæðið sé framleitt í Danmörku, en ef það er ekki möguleiki muni þeir annaðhvort senda dönsk naut til Englands og láta flokka sæðið þar eða senda danskt nautasæði til Englands, láta kyngreina það og senda til baka til Danmerkur. “Þessar miklu væntingar orsakast af því að fyrir utan kosti vegna kynbóta, þá þarf ekki að slátra öllum þessum Jersey nautkálfum við fæðingu eins og er gert í dag. Með því að kyngreina sæðið getur maður kynbætt nautkálfa með því að nota holdanaut og þannig framleitt miklu meira kjöt á Jersey nautkálfum.

Það er mikil eftirspurn eftir kyngreindu sæði til kynbóta á Jersey kyninu. Það er einnig hagkvæmt þannig að Danir vilja reyna að vera þeir fyrstu í heiminum sem kyngreina Jersey-sæði. Það býður líka upp á mikla útflutningsmöguleika ef hægt verður að framleiða nógu mikið af sæði. Danir hafa reyndar áhyggjur af því að sett verði á markað erlent kyngreint sæði sem er ekki úr úrvalsgripum og selt einungis vegna þess að það er kyngreint. Og einmitt þess vegna eiga Danir að slást í hópinn svo að hægt sé að tryggja sér erfðaefni frá bestu nautunum.”, segir Peter að lokum.

Forsvarsmenn hinna kynjanna eru orðvarir
Kynbótafræðingar fyrir svartskjöldóttar kýr (SDM), Lisbet Holm, og rauðar danskar (RDM), Lars Nielsen, hafa ekki alveg jafn miklar væntingar til kyngreinds sæðis eins og starfsbróðir þeirra. Bæði hafa þau mikinn áhuga á aðferðinni, að því gefnu að fangprósentan sé nógu há, og að kyngreiningin verði framkvæmd í Danmörku. Ef ekki, hafa þau engar áætlanir um að fá danskt nautasæði flokkað í Englandi.

“Það er allt of dýr og erfið aðferð miðað við hvað fæst út úr því. Í staðinn bíðum við spennt eftir niðurstöðunum úr dönsku rannsókninni”, segir Lisbet. Lars bætir við: “Svartskjöldóttar kýr eru það útbreiddar kyn að við getum valið um mörg mjög góð dýr. Þetta kyn þarf ekki jafn mikið á því að halda að fá fyrsta flokks dýr eins og Jersey kynið. Meðal annars þess vegna er kyngreining mikilvægari fyrir Jersey en fyrir okkur”.

Englendingar fremstir í dag
England er eina landið senn sem komið er sem framleiðir kyngreint sæði á almennum sölumarkaði. Fyrirtækið Cogent byrjaði fyrir fjórum árum síðan. En stutt er í það að Bandaríkin og Mexíkó hefji flokkun.

Það er að sjálfsögðu mikilvægt fyrir Danmörku að vera með frá byrjun, en Danir hafa mikla reynslu í að gæðadæma sáðfrumur og það er stór kostur þegar framleiða á kyngreint sæði. Eldri niðurstöður frá dönskum rannsóknum á enskum nautum sýna mismunandi útkomu frá nauti til nauts. Hingað til hefur einungis eitt Jersey naut verið prófað, og það virkaði ekki.

Snorri Sigurðsson
Þýtt og endursagt úr Bovilogisk, 03.04