Flokkar: Kynbætur og ræktun
8. maí 2006
Hagstæðasta lengd geldstöðu mjólkurkúa
Í maíhefti tímaritsins Journal of Dairy Science er að finna niðurstöður bandarískrar rannsóknar á því hvaða lengd geldstöðunnar hámarkar æviafurðir kúnna og afurðir á einstökum mjaltaskeiðum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að afurðir á einstökum mjaltaskeiðum eru háðar lengd geldstöðunnar á undan þeim, sem kemur lítið á óvart. Mestu afurðir á 2. mjaltaskeiði náðust eftir 40-45 daga geldstöðu þar á undan. Til að ná hámarks afurðum á 3. og síðari mjaltaskeiðum þurfti mun lengri geldstöðu í undanfara þeirra, eða 55-65 daga.

Mestar æviafurðir náðust hins vegar með 40-50 daga geldstöðu eftir 1. mjaltaskeið og 30-40 daga geldstöðu eftir 2. og síðari mjaltaskeið. Mun færri geldstöðudaga þurfti því til að ná hámarks æviafurðum, heldur en miklum afurðum á einstökum mjaltaskeiðum, þar sem kýrnar entust betur eftir því sem þær stóðu geldar í styttri tíma. Þó má geldstaðan ekki vera of stutt, höfundar benda á að forðast skuli styttri geldstöðu en mánuð og lengri en 70 daga. Það er því óhætt að mæla með að geldstaða kúnna skuli vera sem næst 6 vikur eftir hvert mjaltaskeið sem þær ljúka. /BHB