Flokkar: Kjötframleiðsla, kynbætur og ræktun og nautgripakyn

8. júlí 2011

Simmental – leiðandi holdanautakyn

Simmental holdakynið hefur á liðnum árum náð miklum vinsældum meðal holdanautabænda vegna óvenju mikils vaxtarhraða, einstakri skapgerð og miklum kjötgæðum. Þá skipti máli á sínum tíma hve góð dráttardýr nautin voru, en þörf fyrir þá eiginleika hafa eðlilega minnkað á liðnum árum.

Útlit og eiginleikar
Oft er lit á Simmental lýst sem gyltum en nautgripir eru rauðir og hvítir og má sjá all nokkurn breytileika í litasamsetningu þeirra. Hausinn er hvítur og oft er hvítt belti yfir herðum og niður á framfætur. Simmental eru í grunninn hyrndir gripir en til eru kollóttir sem eru eðlilega afar eftirsóttir í ræktunarstarfinu. Gripirnir þykja harðgerðir og þola vel mikið frost og erfitt veðurfar sem vafalítið hefur gert það að verkum að útbreiðsla þess er jafn mikil og hún er í dag.

 

Meðalþungi fullorðinna nauta er 1.100 til 1.400 kg og stærð nautanna um 150-165 cm á herðakamb. Fullorðnar kýr eru töluvert léttari en nautin og eru á bilinu 600-900 kg og hæð á herðakamb í kringum 138-150 cm.

 

Einhverjir mestu kostir Simmental eru mikil mjólkurgæði samhliða beit á grasi sem gefur kálfum sem ganga undir mikla getu til vaxtar. Nautin hafa mikla kjötsöfnunareiginleika og upp að 650 kg. lífþunga er algengt að sjá daglega þyngingu á bilinu 1,6-1,8kg! Með þessa miklu vaxtargetu heldur Simmental efsta sæti á heimslistanum fyrir vöxt kálfa sem ganga undir kúm.

 

Kjötið af Simmental er talið vera af miklum gæðum og með því hagstæðasta sem hægt er að rækta af þekktum kynjum þar sem fóðurnýtingin er mikil.

 

Uppruni og útbreiðsla
Saga Simmental kynsins er afar löng og nær aftur til miðalda og er kynið með einna mesta útbreiðslu kúakynja í heimi. Uppruni kynsins er rakinn til Sviss þegar þarlendum landkynjum var blandað við þýsk kyn. Nafnið kemur frá upprunastað þess, Simme dalsins í Berner Oberland í vesturhluta Sviss. Simmental er reyndar oft nefnt ýmislegt annað eftir því hvar gripirnir eru. Þannig kallast þessir gripir „Fleckvieh“ í Þýskalandi, Austurríki og Sviss (og reyndar fleiri löndum Evrópu). Í Frakklandi kallast gripirnir „Pie Rouge“, „Montbeliard“ og „Abondance“ og „Pezzata Rossa“ í Ítalíu.

 

Í dag er Simmental að finna í öllum heimsálfum og er talið að stofnstærðin telji 40-60 milljón dýr, þar af er um helmingurinn í Evrópu.

 

Helstu kostir:
Auðvelt í meðförum
Góðir móðureiginleikar
Góð frjósemi og ending
Henta vel til beitar
Þroskast hratt og snemma
Einstök vaxtargeta
Léttur burður
Heimildir:
www.britishsimmental.co.uk
www.thecattlesite.com
www.wikipedia.org

 

Snorri Sigurðsson, Auðlindadeild Landbúnaðarháskóla Íslands

 

Aðrar greinar eftir sama höfund í þessum greinaflokki:

Ayrshire kúakynið – skoskt harðgert afurðakyn

Brown Swiss – elsta mjólkurkúakyn heimsins

Dexter kúakynið – smávaxið en vinsælt!

Hereford – holdanautakynið sem allir þekkja!

Holstein-Friesian – þekktustu mjólkurkýr í heimi

Jersey – smáar en hagkvæmar kýr

Zebu – hinar heilögu kýr