Túttufötufóðrun með súrmjólk

Flokkar: Fóðrun
21. nóvember 2002

Túttufötufóðrun með súrmjólk

Þegar kálfur gengur undir kú eftir fæðingu sýgur hann kúna 5-8 sinnum á dag, fyrstu dagana. Til að kálfarnir þrífist sem best þarf að líkja eftir þessu atferli kálfanna eftir því sem kostur er. Fóðrun kálfa með kálfafóstru (vél sem skammtar kálfum mjólk sjálfkrafa) er ágæt lausn í þessu tilfelli, en kostar þónokkra peninga. Önnur lausn getur verið að leyfa kálfunum að hafa frjálst aðgengi að súrmjólk, sem er vel þekkt aðferð í Noregi en er lítið þekkt hérlendis, þar sem þeir fáu sem gefið hafa súrmjólkina hafa flestir skammtað súrmjólkina líkt og um venjulega fóðruna kálfa væri að ræða.

Norski kúabóndinn Kjell Rindhölen í Vågå er með 65.000 lítra framleiðslu mjólkur en vinnur daglangt frá búinu sem vaktmaður. Til að geta sinnt kálfunum sem best hefur hann komið sér upp föstu vinnuferli við fóðrunina.

1: Venja kálfana nógu unga á tútturnar
Kálfarnir fá fyrstu þrjá dagana eftir fæðingu mjólk úr flösku fjórum sinnum á dag, en síðan fara þeir í hópstíur. Í stíunum eru túttufötur sem fyllt er á eftir þörfum. Kjell leggur áherslu á að kálfarnir fái fyrstu dagana mjólkina nógu oft þannig að þeir læri að drekka hægar og „hugsi“ ekki ávalt um að drekka þar til mjólkin er búin! Reynsla hans er að því yngri sem hægt er að venja þá á tútturnar – því betra.

2: Nota sömu túttur í stíunum og er á flöskunum
Fyrstu dagana þarf að fylgjast vel með því að kálfarnir læri að drekka úr túttunum og sérstaklega eftir að þeir koma í stíurnar. Reynslan sýnir að kálfarnir læra mikið hverjir af öðrum og því er vinnan við að kenna kálfunum minni ef fyrir í stíunum eru kálfar með „reynslu“. Þetta gengur auðvitað ekki með alla kálfa og þá notar Kjell þá aðferð að gefa þeim úr flösku í stíunum og svo þegar þeir eru byrjaðir að drekka, þá færir hann þá yfir á föstu tútturnar í stíunni. Kjell leggur áherslu á að nota sömu gerð af túttum á flöskunum og í stíunum, þar sem kálfarnir geta tekið því illa að fá allt í einu aðra gerð en þeir lærðu á fyrstu dagana. Stærð, mýkt og gegnumstreymi túttanna skiptir miklu máli og gatið sem er á túttunum sem keyptar eru á að vera rétt – það á að taka nokkurn tíma fyrir kálfana að drekka! Gott ráð er að eiga ávalt túttur til á lager, enda er mjög bagalegt að lenda í því að túttur rifni um helgar þegar verslanirnar eru lokaðar!

3: Súrmjólkin þarf ekki að vera volg
Þegar kálfar fá mjólk í ákveðnum skömmtum þarf hún að vera volg, en hinsvegar þegar kálfar fá mjólk eftir átlyst á hún ekki að vera upphituð. Ástæðan er tvíþætt; volg mjólk tryggir að hún hleypur, sem ekki er þörf á þar sem um súrmjólk er að ræða, en einnig drekka kálfar mun meira af volgri mjólk. Kjell hefur mjólkina í venjulegum fjóshita (10-14°C). Þegar kálfarnir drekka svona kalda mjólk er sjálfsagt að þeir hafi aðgengi að þurru og hlýju legusvæði og til þess notar Kjell bæði sag og hálm.

4: Vel sýrð mjólk og hrein áhöld
Það er vel þekkt að kálfar þola betur súrmjólk en ferskmjólk nokkrum dögum eftir fæðingu. Kjell notar annaðhvort sýrða ferskmjólk eða sýrða kálfamjólk, allt eftir því hvernig framleiðslustaðan er gagnvart mjólkurkvótanum. Til að sýra mjólkina notar hann ávalt súrmjólk (innskot þýðanda: til að sýra mjólk er gott að nota 1 lítra af AB-mjólk eða 1 lítra af venjulegri súrmjólk út í 50 lítra mjólkur og láta standa í stofuhita í einn sólarhring) og leggur áherslu á að þrífa vel bæði súrmjólkurgeymsluna og áhöldin. Magn súrmjólkur miðar hann við að endist í eina viku og sýrir svo næstu umferð. Þar sem súrmjólkin skilur sig við geymslu er mikilvægt að hræra í henni daglega og jafnframt þarf að þrífa túttuföturnar annan eða þriðja hvern dag.

5: Kálfarnir þurfa bæði gróf- og kjarnfóður
Fram til fjögurra vikna aldurs fá kálfarnir aðallega súrmjólkina og drekka þeir um 10 lítra daglega. Eftir þann tíma byrjar Kjell að blanda vatni í súrmjólkina og þegar kálfarnir eru átta vikna er blandan að mestu vatn. Í stíunum hafa kálfarnir aðgengi að kjarnfóðri. Kjarnfóðrið er skammtað með gjafakerfi frá Reime sem skammtar sjálfkrafa nokkrum sinnum á dag og tryggir þannig að kálfarnir fái ekki of mikið af kjarnfóðri og að kjarnfóðrið spillist síður. Þetta gefur Kjell allan mjólkurfóðrunartímann og smá eykur magnið fram í lok mjólkurfóðrunarinnar. Jafnframt hafa kálfarnir frjálst aðgengi að rúllubaggaheyi allan tímann.

6: Eftirlit og umhirða
Þrátt fyrir að vinnan við kálfauppeldið sé þónokkur þarf vinnan ekki að fara fram á föstum tímum og býður þetta uppeldiskerfi því upp á nokkurn sveigjanleika. Á morgnana byrjar Kjell á því að fylla á túttuföturnar. Eftir að hann tók upp nýja hætti við kálfafóðrunina notar hann mun minni tíma við fóðrun, en leggur þess í stað meiri áherslu á eftirlit með kálfunum. Umgengni er jafnframt mikilvægur þáttur, en Kjell hefur tekið eftir því að kálfarnir eru miklu rólegri og sultarbaul heyrist ekki lengur þegar einhver kemur í fjósið.
Eftir að nýjir hættir voru teknir upp við fóðrunina hefur ekki komið upp eitt einasta tilfelli af skitu eða sogvandamál. Ef hinsvegar skita kæmi upp hefur hann möguleika á að taka viðkomandi kálf frá hinum kálfunum til að tryggja að ekki komi upp smit á milli kálfa.

Þrátt fyrir að þessi aðferð við fóðrun kálfa hafi reynst Kjell vel, er hann ekki viss um að þetta henti í öllum tilfellum. Hjá honum eru kýrnar allar snemmbærar og kálfarnir því allir á svipuðum aldri. Þar sem burður dreifst á lengri tíma, getur verið erfitt að vera með sjálffóðrunarkerfi þar sem kálfar innan sömu stíu geta verið á mjög ólíkum aldri.

Snorri Sigurðsson
Þýtt og endursagt úr Buskap 7/2002