Flokkar: Fóðrun
11. nóvember 2005

Skita í smákálfum – erfitt en yfirstíganlegt vandamál
Allir bændur þekkja það þegar skita kemur upp hjá smákálfum. Fyrir því geta legið ýmsar orsakir, en þessar þó líklega helstar:
Ekki nógu mikil broddmjólkurneysla kálfsins.
Mikil smithætta í umhverfinu.
Röng fóðurgjöf.

Ýmislegt er hægt til að minnka líkur á skitu kálfanna, t.d. með því að:
Gefa 2-3 lítra af broddmjólk innan við 6 tíma frá burði.
Gefið þeim kálfum, sem ganga hjá kúnni, einnig brodd.
Gefið brodd í 4 sólarhringa.
Þrífið burðarstíuna vel á milli burða.
Þrífið hendurnar áður en þið fjarlægið slím úr munni kálfsins.
Þrífið kálfastíur einu sinni í viku og áður en nýr kálfur er settur inn í hana.
Bætið við undirlag daglega.
Þrífið mjólkurílátin daglega (illa eða óþrifin ílát því miður oft orsök skituvanda smákálfa).
Gefið 35-40°C heita mjólk.
Hitið ekki mjólkina með því að bæta heitu vatni út í – notið í staðinn mjólkurílát sett í heitt vatn.

Ef orsök skitunnar er vegna baktería er kostur að nota sýrðan brodd, þar sem súrt umhverfi hentar mjög illa fyrir bakteríur.

Meðhöndlun skitu í smákálfum.
Eins og flestum er kunnugt, eru ýmsar aðferðir færar til að berjast gegn skitu. Ein þeirra er að gefa kálfunum eftirfarandi heimatilbúna mixtúru (notist eingöngu í samráði við dýralækni):
1 tsk. af salti (5,0 g NaCl).
½ tsk. af matarsóda (2,5 g NaHCO3).
50 g af þrúgusykri (glúkósa).
leysist upp í 1 lítra af 40°C heitu vatni.

Gefið kálfinum strax blönduna ef hann er með skitu. Ekki hætta að gefa mjólk, en minnkið mjólkurgjafir niður í eitt skipti á sólarhring. Gefið vatnsblönduna (magn ræðst af stærð kálfsins) og mjólk í sitthvoru lagi, með að minnsta kosti hálftíma millibili.

Snorri Sigurðsson