Kýr þurfa næði til þess að éta kjarnfóður

Flokkar: Fóðrun og bútækni
20. nóvember 2010

Kýr þurfa næði til þess að éta kjarnfóður

 

Eftir því sem kynbótum nautgripa fleygir fram eykst mikilvægi þess að fullnýta framleiðslugetu hinna góðu gripa. Þetta getur falist í ýmsum verkum en eitt af því mikilvægasta sem mjólkurkýr gera er að éta og er nythæð og mjólkumagn í beinu samhengi við bæði hve mikið kýrnar éta og að sjálfsögðu gæði fóðursins. Þrátt fyrir að kýr séu frekar félagslindar skepnur og sæki í nærveru hverrar annarrar, þá gildir það sjaldnast þegar þær éta og eru til margar rannsóknir á hegðun kúa við át. Þannig er það vel þekkt að þegar átplássið er takmarkað, þá verður meira um áflog á milli kúa og þegar fóðurgæði eru ójöfn á fóðrunarsvæðinu þá sætta kýrnar, sem eru lágt settar í virðingarröðinni innan fjóssins, sig við að éta frekar lélegra fóður en að lenda í áflogum um bestu bitana.

 

Í áhugaverðri skoskri rannsókn kom t.d. í ljós að þegar kúm, sem eru neðarlega í virðingarröðinni innan fjóssins, er boðið að velja á milli þess að éta lélegt fóður í ró og næði eða gott fóður við hliðina á hátt settum kúm, þá velja hinar óöruggu kýr frekar lélegt fóður, jafnvel þó svo að það sé nóg pláss í námd við hinar hátt settu kýr.

 

Í raun gildir hið sama um kjarnfóðrið og gróffóðrið, þ.e. kýrnar vilja gjarnan fá næði til átsins.

 

Þegar kjarnfóður er skammtað kúm, þá eru notaðar til þess all nokkrar aðferðir. Sú elsta auðvitað að gefa kúnum í básafjósunum beint á fóðurganginn. Eftir því sem árunum og tækninni hefur fleygt fram, hafa komið allskonar tæknilegar kjarnfóðurgjafalausnir fyrir kúabændur í básafjósum s.s. fóðurvagnar, sniglakerfi ofl. en segja má að öll kerfin miði að því sameiginlega verkefni að nýta sem best fóðurnýtingargetu kúnna. Í básafjósum þekkja allir kúabændur þá staðreynd að þær kýr sem lítið sem ekkert kjarnfóður fá reyna allt sem þær geta til þess að ná í kjarnfóðrið sem nágrannakýrin fær. Staðreyndin er hinsvegar sú að í básafjósum er tiltölulega auðvelt að koma í veg fyrir kjarnfóðurstuld kúa á milli bása, s.s. með því að gefa í fóðurdalla, setja lítil milliþil á milli kúnna osfrv. Það má því í raun líta svo á að auðframkvæmanlegt sé að gefa kúm í básafjósum gott næði til áts á kjarnfóðri.

 

Þegar komið er að lausagöngufjósunum vandast málið nokkuð. Þeir bændur sem gefa heilfóður, þurfa að sjálfsögðu ekki að velta þessu mikið fyrir sér enda er kjarnfóðrinu blandað saman við gróffóðrið og því fá engar kýr aðskilið kjarnfóður nema ef vera skildi lítið „verðlaunamagn“ í mjaltaþjónunum. Í öðrum fjósum, þar sem kjarnfóðrið er gefið í meira magni en pínulitlum skömmtum til þess að lokka kýr í mjaltir, þarf að huga að hlutunum.

 

Algengasta kerfið til kjarnfóðrunar eru sk. kjarnfóðurbásar en þar á eftir má nefna kjarnfóðurgjafakerfi mjaltaþjónanna. Í mjaltaþjónunum standa kýrnar einar og sér og geta étið sitt kjarnfóður í þó þeirri ró sem í mjaltaklefanum er. Því er hinsvegar ekki að skipta í kjarnfóðurbásunum. Algengast er að þeir séu mjög mikið opnir og jafnvel með tiltölulega stuttar langhiðar, þannig að nokkuð stór hluti aftasta partar viðkomandi kýr stendur aftur úr básnum. Það gerir öðrum kúm auðveldara en ella að angra kýrnar sem eru að éta, enda kjarnfóðurbásinn eftirsóknarverður staður að vera í vegna hins gómsæta kjarnfóðurs. Margar erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að 30-50% kúnna eru með einum eða öðrum hætti reknar út úr kjarnfóðurbásunum af öðrum kúm sem vilja reyna að stelast í fóðurrestar. Flestir stilla þó magnið sem rennur í básana svo mikið niður að lítið er að hafa í raun, en það breytir ekki árásarhneigð kúnna sem fyrir utan eru.

 

Vegna þess hve kjarnfóðurbásinn er vinsæll verða þar oft árekstrar á milli kúa og samkeppnin um kjarnfóðrið getur leitt til aukinnar árásarhneigðar hjá kúnum, sérstaklega gagnvart þeim sem eru lágt settar í hinni umtöluðu virðingarröð. Í sænskri rannsókn var skoðaður samanburður á tveimur kjarnfóðurbásum, hvar annar þeirra var með sjálfvirkum loftstýrðum lokubúnaði en hinn opinn. Í rannsókninni voru notaðir tveir 20 kúa hópar þar sem hver hópur hafði hvora gerðina af kjarnfóðurbás í níu vikur í senn. Hóparnir voru að sjálfsögðu eins samsettir, með 6 kúm á fyrsta kálfi (líklegri til að vera lægra settar) og 14 eldri kúm. Kýrnar voru allar á bilinu 7-21 vikur frá burði og meðalnyt hvors hóps var 32 kg af orkuleiðréttri mjólk (+/- 6,2 kg) við upphaf rannsóknarinnar.

 

Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að þrátt fyrir að ekki væri marktækur munur á nyt hópanna við lok rannsóknarinnar, þá fóru kýrnar sjaldnar í kjarnfóðurbásinn sem var óvarinn (12,7 heimsóknir á móti 15,9 heimsóknum kú/dag) og kýrnar fóru einnig mun sjaldnar inn í básinn án þess að vera komnar með fóðrunarheimild (3,7 heimsóknir á móti 5,3 heimsóknum kú/dag). Skráð aukin árásarhneigð kúa var mun minni í fjósinu með lokubúnaðinum auk þess sem 65% færri tilfelli komu upp í því fjósi þar sem kýr varnaði öðrum kúm inngöngu í kjarnfóðurbásinn. Þá var miklu minna (-67%) um að sterkari kýr næðu að reka hinar veikari úr básnum. Niðurstaðan var því sú að lokubúnaður á kjarnfóðurbása dregur úr samkeppni á milli kúa og eykur virkni kjarnfóðurgjafarinnar. Í dag eru til nokkrar gerðir af svona lokunarbúnaði, en hann er oftast loftdrifinn.

 

Í dönskum leiðbeiningum um hönnun fjósa er bændum ráðlagt að hafa kjarnfóðurbása aldrei þannig staðsetta að inngangur í þá sé frá sömu hlið og kýr ganga til legubáss. Kjarnfóðurbás sem opnast inn í hvíldarsvæði kúa veldur þar óþarfa ónæði og mögulegum áflogum kúa sem er nokkuð sem á alls ekki að eiga sér stað þar sem kýr eiga fyrst og fremst að hvíla sig og framleiða mjólk.

 

Best er að vera með rúmgott svæði í kringum kjarnfóðurbásinn og gefa kúnum næði til átsins, s.s. með lokubúnaði eða annarskonar búnaði sem t.d. hleypir kúnum út úr básnum að framan líkt og mjaltaþjónar gera.

 

Snorri Sigurðsson
Landbúnaðarháskóla Íslands

Heimildir:
Fiona C Rioja-Lang, 2009. The effects of feed area design on the social behaviour of dairy cattle. PhD thesis. The University of Edinburgh, 135 s.

Herlin, A.H., Frank, B., 2007. Effects of protective gates and concentrate feed stations on behaviour and production in dairy cows: a brief note. Appl. Anim. Behav. Sci. 103, 167–173.

Lene Munksgaard og Eva Søndergaard, 2006. Velfærd hos malkekøer og kalve. DJF rapport. Husdyrbrug (74), 193 s.