Flokkar: Fóðrun og bútækni
30. september 2003

Kálfafóstrur

Kálfafóstrur eru til í mismunandi útgáfum, en hægt er að skipta þeim gróflega upp í fóstrur með óheftum aðgangi og í tölvustýrðar fóstrur með takmörkuðu aðgengi að mjólk.

Hægt er að takmarka aðgang að mjólk með því að setja merki í eyru og/eða hálsband sem gerir það að verkum að fóstran getur þekkt hvern einstakling og gefið honum mjólk í fyrirfram ákveðnum skömmtum. Ef fóstran á að virka vel ætti ekki að hafa meira en fjögurra vikna aldursmun á elsta og yngsta kálfi í hverjum hóp, og venja ætti kálfana af ekki seinna en við 8 – 10 vikna aldur.

Tölvustýrðar fóstrur eru til í fleiri útgáfum:
Fyrir mjólkur- og súrmjólkurgjöf.
Fyrir þurrmjólkurgjöf.
Fóstrur sem geta gefið allar ofantaldar tegundir af mjólk.

Nokkrar tegundir fóstra á markaðinum geta skammtað út mjólk í nokkra spena. Þetta gerir það að verkum að einfaldara er að skipta kálfunum í fleiri og smærri hópa (mest 8 – 10 kálfar í hóp) á stærri búum.

Á einstaka búum eru vandamál vegna kálfa sem fá ekki næði til að drekka mjólkina úr fóstrunni. Þetta getur leitt til óeðlilegs sogs, s.s. á eyrum annarra kálfa. Til að koma í veg fyrir þetta er hægt að koma fyrir þar til gerðri stíu, með kálfafóstrunni innst inni í enda og grindum sitt hvoru megin þannig að kálfurinn fái frið til að drekka. Einnig er hægt að útfæra þetta þannig að tvö hólf geti notað sömu fóstruna. Hreyfanleg grind er sett upp þannig að ef að kálfur er að drekka öðru megin, þá lokar hann fyrir aðgang kálfa úr hinu hólfinu. Þannig er hægt að nota sömu fóstruna fyrir allt upp í 3-4 stíur, sem gerir það að verkum að hægt er að minnka aldursmun kálfanna í hverri stíu og nota bara eina fóstru.

Minnkun mjólkurgjafar er hægt að stjórna með tölvunni, og þannig fara kálfarnir að éta meira kjarnfóður (sem er væntanlega hjá þeim) sem hjálpar til við þroska líffæranna sem sjá um jórtrunina og gefur það jafnframt möguleika á því að venja kálfana fyrr af mjólkinni.

Hægt er að hafa tölvustýrðu fóstrurnar með vigt fyrir kálfana. Þannig er hægt að stilla fóstruna þannig að mjólkurmagnið minnki í takt við þunga kálfsins og taki þannig mið af vaxtarhraða kálfsins, byggt á inntöku mjólkur, kjarnfóðurs og heys.

Óheft aðgengi að súrmjólk getur virkað vel í hlýjum fjósum, og er mælt með þeim þar sem að þrif eru góð og rétt sýrð mjólk notuð. Þannig “fóstrur” er oft hægt að búa til heima með því að nota til dæmis tunnu og leiða slöngu ofan í tunnuna með spena á hinum endanum. Þetta hentar einungis þegar gefin er köld (um það bil 15°C) sýrð mjólk. Mikilvægt er að speninn og fóstran séu þrifin vel til að draga úr hættu á útbreiðslu smits.

Allt gjafakerfi kálfanna ætti að ræsta daglega, en þrífa svo mjög vel einu sinni í viku. Einnig þarf að stilla fóstrurnar reglulega til að fullvissa sig um gæði mjólkurinnar og að þær skammti örugglega rétt. Kerfi sem gefa mjólk í gegn um spena virka vel og er frekar mælt með þeim en að gefa kálfum mjólk úr hefðbundnum fötum.

Snorri Sigurðsson
Þýtt og endursagt úr BUSKAP 06/03