Flokkar: Fóðrun og bútækni
29. október 2003

Kálfafóstrur og smit
Þegar notaðar eru kálfafóstrur getur stærð kálfahópsins og aldurssamsetning haft mikil áhrif á heilsufar kálfanna. Með því að taka tillit til þessara þátta og gera einfaldar breytingar á umhverfinu er mögulegt að hafa betri stjórn á vægum öndunarfærasýkingum og sogvandamálum.

Kálfafóstrur gera kálfinum kleift að viðhalda náttúrulegum drykkjuvenjum og hafa marga góða kosti bæði fyrir kálfinn og ræktandann. Samt sem áður ber nokkuð á því að nokkur bú geta átt við vandamál að stríða varðandi skitu og sogerfiðleika. Það getur jafnframt verið mjög erfitt að hafa marga kálfa á mismunandi aldri í hóp sem drekkur úr sömu fóstru.

Krefst eftirlits
Það er auðvelt að kenna tækninni um, en það sem er jafn mikilvægt í þessu samhengi er hvernig búnaðurinn er notaður. Kálfar þurfa jafn mikið, ef ekki meira eftirlit, þegar kálfafóstrur eru notaðar miðað við þegar maður gefur þeim handvirkt. Það getur verið erfitt að uppgötva væga skitu nógu snemma til að fjarlægja sýkta kálfinn. Gera má ráð fyrir að kálfar með viðvarandi skitu hafi 30-40 kg minni sláturþyngd. Kálfafóstrur sem gefa kálfum mjólk hvenær sem er, gæti verið ágætis lausn, en gerir það að verkum að það eru engin takmörk fyrir því hversu oft kálfarnir drekka (t.d. súrmjólkurgjafir). Kálfarnir vaxa yfirleitt hratt og með góðu hreinlæti er hægt að koma í veg fyrir skitu. Hins vegar gæti óheftur aðgangur að mjólk haft neikvæð áhrif á neyslu á fóðurbæti og heyi og þar með hægt á þroska vambarinnar. Bæði norskar og erlendar rannsóknir sýna fram á að kálfar sem fá litla mjólk en nógu mikið magn af kjarnfóðri og heyi vaxa jafn hratt.

Mismunandi styrkur ónæmiskerfis
Tölvustýrt kerfi er hagkvæmara fyrir stærri bú og þar sem er stýrður burður. Einmitt í þessum tilfellum gætu smitvandamál komið upp. Þegar kálfar með tveggja mánaða aldursmun eru settir saman í stærri hópa er það í raun viss áskorun að hafa stjórn á smithættunni á milli aldurshópanna. Ónæmiskerfi þeirra og mótstöðukraftur er mismunandi, sumir geta verið heilbrigðir smitberar á meðan aðrir eru sérstaklega viðkvæmir fyrir smiti.
Í hópum þar sem aldursmunurinn er mikill og margir einstaklingar, verður meira álag á þeim sem er í sjálfsalanum. Eldri og stærri kálfar sem eru nær því að venjast af drykkjunni munu eiga auðveldara með að ýta frá yngri kálfum og þeim sem eru neðar í goggunarröðinni. Þeir hafa ennþá mikla sogþörf eftir að þeim hefur verið ýtt frá og gætu byrjað að sjúga aðra kálfa í staðinn. Þurrt og gott legusvæði verður til þess að kálfarnir liggja meir og það verður minni óróleiki og pústrar í hópnum.

Fyrirbyggjandi aðgerðir við notkun kálfafóstra
1. Ekki hafa fleiri en 8-10 kálfa í hóp.
2. Ekki hafa kálfa með meir en 1 mánaðar aldursmun í hverjum hóp.
3. Hafa kerfi með fleiri spenum eða nota grind þannig að hægt sé að nota kálfafóstruna í fleiri en einni stíu.
4. Hafa legusvæðið þurrt og laust við gegnumtrekk.
5. Hafa góða loftræstingu og gott loft í fjósinu.
6. Halda tækjunum hreinum (sérstaklega túttu, slöngum, pakkningum og mjólkurgeymi).
7. Þrífa vel á milli hópa (þegar að stíur eru tæmdar) og sótthreinsa ef um smitvandamál hefur verið að ræða.

Snorri Sigurðsson
Þýtt og endursagt úr BUSKAP 06/2003