Góður broddur tryggir góðan kálf

Flokkar: Fóðrun og bútækni
29. október 2002

Góður broddur tryggir góðan kálf!
Með því að hugsa almennilega um hinn nýfædda kálf, leggur maður góðan grunn að heilsu hans alla ævi. Ef kálfurinn veikist minnkar vaxtarhraði, hann nýtir fóðrið verr og verður lélegri framleiðsluvara. Þetta á við hvort sem kálfurinn er alinn upp til að verða úrvals sláturdýr eða kvíga sem er á réttum aldri og nógu þung við fyrsta burð. Fyrir utan að sjá til þess að kálfurinn fæðist í hreinu og hlýju umhverfi verður að sjá til þess að kálfurinn fái nógu snemma góðan brodd.

Mótefnin koma með broddinum
Andstætt við það sem gerist hjá mannskepnunni og mörgum öðrum dýrategundum eru mótefni ekki yfirfærð frá móður til afkvæmis á meðgöngu. Eftir nokkrar vikur fer kálfurinn að geta framleitt sitt eigið mótefni (virkt ónæmi), en nær ekki endanlegu ónæmisstigi fyrr en um 18 vikna aldur. Fyrir þann tíma er kálfurinn alveg háður mótefnum sem hann fær úr broddinum til að verja sig gegn sýkingum. Ef kálfurinn fær ekki þessa vörn úr mjólkinni er meiri hætta á því að hann verði veikur eða drepist, að það komi upp vandamál með flutning og/eða frávenjur og minni framleiðslugeta síðar á æviskeiðinu. Uppsafnað magn mótefna er yfirleitt lægst um 4-6 vikna aldurinn. Ef kálfurinn hefur fengið lítið af broddinum er hann viðkvæmur fyrir sýkingum alveg frá fæðingu.
Eins og áður var talað um er kálfur með lítið af mótefnum viðkvæmari fyrir sýkingum. Þetta hefur ekki bara neikvæðar afleiðingar fyrir þennan einstaka kálf, heldur stuðlar þetta að aukinni smithættu fyrir önnur dýr á búinu. Ef fleiri kálfar í hópnum eru með lélegt ónæmiskerfi verður fljótlega mikil smithætta. Hversu sterkt ónæmiskerfið þarf að vera fer eftir aðstæðum, svo sem aðstöðu, umhverfi, ástandi kálfanna og smithættum í umhverfinu. Rannsóknir hafa sýnt fram á að kálfur sem hefur minna en 10 grömm af mótefni í hverjum lítra blóðs er í fjórum sinnum meiri hættu á að veikjast og er í tvisvar sinnum meiri hættu á að drepast. Þetta kom fram við samanburð á kálfum sem eru yfir þessum mótefnamörkum.

Norsk rannsókn sýndi mikinn breytileika
Í Noregi var gerð áhugaverð rannsókn sl. sumar þar sem ónæmi 746 kálfa á aldrinum 1 – 15 daga, frá 88 mjólkurbúum og 17 holdabúum var mælt. Blóðprufur voru teknar á tímabilinu frá október 2001 til og með júní 2002. Í ljós kom að næstum 62% þeirra kálfa sem tóku þátt í rannsókninni höfðu mótefnamagn undir viðmiðunarmörkum. Af þeim voru 26% kálfanna undir 6 g/l. Þessir kálfar hafa fengið mjög lítið af broddi. Til samanburðar má nefna að í nýlegri sænskri rannsókn var sýnt fram á að einungis 14% kálfanna var undir 10 g/l. Venjulega má búast við að 10 – 30% kálfanna sé undir mörkum. Með öðrum orðum, þá eru miklir möguleikar á að gera betur.
Meðal mjólkurbúa var fundið meðaltal fyrir alla kálfana á bæjunum, sem voru frá um það bil 4 g/l, til yfir 16 g/l. Á meðal holdanautabýla var munurinn frá um það bil 7 g/l til 15 g/l. Þetta sýnir að mikill munur er á vinnubrögðum við broddmjólkurgjöf
Innan búa er mesti munurinn hjá kálfum á holdanautabýlum. Um það bil 50% af kálfum á spena hafa mörkin yfir 10 g/l. Að baki meðaltalsins á þessum bæjum finnast kálfar með mjög há og mjög lág mótefnagildi. Það segir sig sjálft að kálfar, sem finna fljótt spenann og fá að sjúga, fá mikinn brodd. Kálfar sem ekki fá að sjúga verða fyrr sljóir, þeir drekka minna magn af broddi og þegar broddurinn er loks kominn í þarmana er það á þeim tíma þegar upptaka efna í broddinum er minnkuð.

Annað sem kom í ljós í rannsókninni var að:
Kálfar sem fæddust á tímabilinu frá október til desember höfðu lægra mótefnasvar (7,1 g/l) samanborið við kálfa sem fæddust á tímabilinu janúar til mars (8,1 g/l) og apríl til júní (8,6 g/l). Ekki fannst nein ástæða fyrir þessu en talið er að aðrar rannsóknir hafi sýnt sömu niðurstöður. Það er hins vegar vitað að upptaka mótefna í þörmum minnkar ef kálfinum hefur orðið kalt við burð. Þetta gæti verið ein af ástæðunum.

Þá var greinilegt að kálfar, sem áttu mæður á fyrsta eða öðru mjaltaskeiði, voru með lægra mótefnagildi en kálfar eldri kúa. Sama gilti um kálfa undan ungum holdakúm. Margar aðrar vísindalegar rannsóknir sýna einnig fram á þetta, að kálfar fyrstakálfskúa hafa lægra mótefnagildi.

Lægri mótefnagildi
Rannsóknin sýnir að kálfarnir hafa mun lægra mótefnagildi en nægir til að fá nógu gott mótefnasvar. Mótefnasvar kálfa er í fullu samhengi við þær umönnunarvenjur sem viðhafðar eru fyrstu ævidaga kálfsins, og gæði broddsins sem kálfinum er gefinn. Reynslan eftir þessa rannsókn er sú að gefa ætti kálfum, sem eru slappir eftir fæðingu, brodd úr túttuflösku. Gott hreinlæti í umhverfinu er nauðsynlegt til að forðast sýkingu í naflastreng. Sótthreinsa ætti naflann hjá kálfum þar sem naflastrengurinn hefur slitnað stutt frá nafla.

Hinn mikli munur á milli búa sem kom fram í rannsókninni, sýnir að verulega þarf að bæta vinnureglur varðandi eldi smákálfa.

Snorri Sigurðsson
Þýtt og endursagt úr BUSKAP 6/2003