Flokkar: Fóðrun
11. nóvember 2005

Broddur skiptir öllu máli !
Broddur fyrir smákálfa
Mótstöðuafl nýfæddra kálfa er algjörlega undir því komið að þeir fái brodd, því þeir fæðast án mótefna gegn smitandi sjúkdómum. Tíu sinnum meiri hætta er á því að kálfurinn drepist ef hann hefur ekki fengið brodd.

Broddur úr fyrstu mjöltum inniheldur mikið af mótefnum, en eftir því sem oftar er mjólkað dregur hratt úr mótefnainnihaldi mjólkurinnar.

Upptaka mótefna úr broddinum er einungis möguleg í um það bil 24 tíma eftir burð. Þess vegna ætti:
· Að gefa kálfum 2-3 lítra af broddi innan 6 tíma frá fæðingu.
· Að gefa kálfum einnig brodd þó þeir séu hjá kúnni. Talið er að um þriðjungur þessara kálfa fá ekki nógu mikinn brodd.
· Að gefa 5-6 lítra af broddi á fyrsta sólarhring og halda áfram að gefa brodd í 4 sólarhringa eins og kálfurinn tekur á móti (deila gjöfunum yfir daginn).

Ekki er mælt með broddi úr kúm með júgurbólgu eða kúm sem leka broddi/mjólk fyrir burð. Í staðinn ætti að gefa brodd úr annarri kú eða nota brodd sem hefur verið geymdur í frysti.

Broddlager
Hægt er að geyma brodd í kæli í eina viku, eða frosinn í allt að eitt ár. Frystingin dregur ekki úr gæðum mótefnanna. Frystið broddinn í eins líters skömmtum, þá bæði frýs hann og þiðnar fyrr. Best er að þíða broddinn hægt í vatnsbaði, ekki heitara en 40°C. Ef hitastigið er meira en 40°C geta mótefnin farið að eyðileggjast, einnig ef broddurinn er þíddur í örbylgjuofni. Gefa skal broddinn um það bil 35-40°C heitan. Einungis ætti að geyma brodd eldri, heilbrigðra kúa á lager og bara frá fyrstu mjöltum eftir burð.

Gefið kálfum brodd úr frystigeymslu þegar:
· kýrin framleiðir of lítið magn brodds (ef hún hefur borið of snemma).
· kýrin hefur lekið mjólk eða hefur verið mjólkuð fyrir burð.
· geldstaða kýrinnar hefur verið of stutt (minna en 5 vikur).
· kýrin er með júgurbólgu.
· mikið er af blóði í broddinum.
· kýrin hefur verið keypt til búsins minna en 6 vikum fyrir burð.

Snorri Sigurðsson