Verður að fjarlægja skítinn?

Flokkar: Sjúkdómar og bútækni

12. september 2003

Verður að fjarlægja skítinn?

 

Hreinlæti er hlutur sem er mjög tengdur matvælaframleiðslu og gæðum. En er það staðreyndin að þeir sem eru með hreinustu fjósin séu hreinlátari og séu sjaldnar með veik dýr? Öll höfum við okkar náttúrulegu örveruflóru sem ekki er nauðsynlegt að þrífa. Samt sem áður er það mikilvægt bæði fyrir vellíðan og heilbrigði að fjarlægja gamlan skít reglulega.

 

Nútímasamfélag er þannig uppbyggt að mörgum finnst nauðsynlegra að fara í sturtu en að þvo sér um hendurnar eftir klósettferð. Í því samhengi geta smit borist jafn vel milli dýra sem eru í skínandi hreinu fjósi og milli þeirra sem eru í skítugu fjósi. Í þeim tilfellum er mikilvægt að muna eftir gömlum og góðum vinnureglum svo sem að halda hreinu og óhreinu aðskildu.

 

Ekki bara allsherjarþrif

Ef þú ætlar að forðast að óhreinindi/smit vegna legbólgu og júgurbólgu berist í næstu kú, þarf að fjarlægja óhreinindin, þrífa og jafnvel sótthreinsa. Það er miklu mikilvægara að gera þetta strax en að bíða þangað til allsherjarþrif verða gerð. Þetta grundvallaratriði gildir bæði fyrir menn og dýr. Allsherjarþrif hafa aðra mikilvæga þýðingu, nefnilega að fjarlægja gamlan skít til að gera dagleg þrif auðveldari.

 

Þumalputtareglan segir að fjós og tæki skuli þrífa að minnsta kosti einu sinni á ári. Þegar fjósið er fullt af kúm tekur ekki langan tíma fyrir örveruflóruna að ná sér á strik aftur, en maður er laus við gamlan lager af flóru sem maður hefur ekki stjórn á. Þar að auki er einfaldlega þægilegra bæði fyrir fólk og dýr að vera í hreinu fjósi.

 

Byrjið daginn fyrir daginn!

Einingar eins og kálfastíur ætti að taka í sundur og fjarlægja gúmmímottur. Ekki gleyma að þrífa flórsköfur og jötur. Nauðsynlegt getur verið að nota bursta eða sköfu til að fjarlægja mjög fastan skít. Bleytið alla fleti daginn áður, þá er þægilegra að fjarlægja skítinn og minni líkur á að málning flagni vegna háþrýstiþvottar. Bleytið alla fleti aftur um það bil hálftíma fyrir þvott. Háþrýstiþvottur ætti að vera með um það bil 50 kg þrýsting. Notið nægilegt vatn til að skíturinn fari út úr fjósinu, að minnsta kosti 12 lítra á mínútu.

Strangt til tekið er ekki nauðsynlegt að nota þvottaefni, en sápan getur gert vinnuna léttari á erfiðu yfirborði. Í þeim tilfellum ætti að skola burt leifar þvottaefnis eftir á. Notið einungis viðurkennd þvotta- og sótthreinsiefni og fylgið notkunarleiðbeiningum. Við smitvandamál er athugandi að nota sérstök sótthreinsiefni. Hægt er að leita til dýralækna um ráðleggingar.

 

Sótthreinsun

Kálfastíurnar ætti að þvo eftir hvern kálf, og sótthreinsa ef sjúkdómur hefur verið til staðar. Venjulega er ekki talið nauðsynlegt að sótthreinsa fjósin reglulega. Í þeim tilfellum sem þess gerist þörf, þarf að hreinsa viðkomandi stað vel fyrst og fjarlægja öll óhreinindi svo að sótthreinsiefnið nái að virka. Ekki skal sótthreinsa fyrr en allir fletir hafa þornað svo að  sótthreinsiefnið þynnist ekki. Á hverja 3 fermetra þarf um það bil 1 lítra af tilbúinni sótthreinsilausn.

 

Síðast en ekki síst ætti að velja tímasetningu fyrir þrif þannig að dýrin komi inn í þurrt fjós. Sérstakt tillit á að taka til smákálfa og kvíga í kring um burð og hlífa þeim við að vera í nýþvegnu og röku fjósi. Ef dýrin eru á beit er hægt að þvo fjósið smám saman þegar það getur staðið tómt og þurrt í þó nokkurn tíma. Ef ekki er möguleiki að það þorni eðlilega getur verið athugandi að nota aukahitara.

 

Nokkrir minnispunktar:

  1. Takið í sundur tæki og innréttingar og skafið gamlan skít í burtu.
  2. Bleytið í deginum áður og jafnvel hálftíma fyrir þvott.
  3. Skolið og þrífið. Skolið einnig eftir þvott ef þvottaefni er notað.
  4. Sótthreinsið ef um ítrekuð smit er að ræða.
  5. Látið rýmið og tæki þorna áður en dýrunum er hleypt inn.

Þýtt og endursagt úr BUSKAP 5/2003

Landssamband kúabænda