Flokkar: Bútækni

6. desember 2004

Útleiðni rafmagns í fjósum.

 

Að gefnu tilefni og vegna nokkurra fyrirspurna um áhrif rafstraums á búpening þó aðallega kýr, þótti undirrituðum ástæða til að hugleiða nokkuð þetta mál og setja á blað álit og hugmyndir til fyrirbyggjandi aðgerða. Um þessi mál eru ýmsar kenningar og menn eru ekki á einu máli um hvað skiptir máli og hvað ekki og sumt minnir beinlínis á þjóðsögur.Hér kemur því eitt innlegg til viðbótar.

 

Grundvallaratriði sem hafa ber í huga er að rafmagn fer ætíð greiðustu og stystu leið til jarðar þ.e. um bestu leiðnileiðina. Fyrir skömmu kom upp mál í nýju fjósi þar sem í ljós kom að há frumutala og óskýranleg tilvik júgurbólgu virtist m.a. vera um að kenna lélegu jarðsambandi (handvöm rafverktaka ?) og sleipu gólfefni í inn og útgangi kúnna til og frá mjaltabás. Á bæ einum drápust margar kýr af raflosti vegna útleiðslu í þvottavél fyrir mjaltakerfi, þær fundust á básum sínum hangandi í keðjunum. Þar leiddi útí vantslögn sem notuð var sem jarðbinding en samband til jarðar var ekkert vegna þess að plaströr hafði verið sett inn úr vegg í stað járnrörs við lagfæringu á vatnsleiðslunni, og ekki var gengið frá nýju jarðskauti. Svo illa vildi til að lekastraumsrofinn var einnig í ólagi. Kýrnar sem drápust höfðu stigið aftur á flórristar sem ekki voru sambundnar öðru járnavirki.

 

Vert er að upplýsa að svona hlutir gerast sára sjaldan og ekki alltaf á versta veg og því ekki ástæða til að örvænta en þessa hluti þarf engu að síður að skoða svo skepnum líði örugglega vel. Kýrin stendur á fjórum fótum og langt er milli fram og aftur lappa og er hún þar af leiðandi kjörin til að tengja saman leiðandi hluti, svo sem vatnsbrynningartæki og flórrist.

Kýr sem stendur á bás í hefðbundnu básafjósi með ristarflór fyrir aftan er líklegri til að verða fyrir rafmagnsáhrifum en kýr á legubás framan við steyptan flór. Þetta er vegna þess að ef jarðbindingu fjóssins er áfátt og járnavirkin ekki sambundin þá getur myndast spennumunur milli leiðandi virkja, í þessu tilfelli milli milligjarða og flórrista.

 

Kýrin er með blautar granir og þegar hún snertir milligjörð eða vatnsdall og stendur með blautar afturlappir á flórristum getur hún auðveldlega orðið fyrir rafstaumsáhrifum ef spennumunur er á milli þessara járnvirkja. Hún skynjar og hefur vanlíðan af jafnvel örfáum voltum, einungis 3-5 volt til að verða óróleg og vansæl. Þetta getur síðan leitt til streytu þannig að kýrin verður veikari fyrir allskyns áreiti þ.m.t. júgurbólgu, auk þess að vera vansæl, hrædd við allt og hún mjólkar minna.

 

Það sem kúabóndinn ætti að gera er eftirfarandi:

rafvirkja sem hefur til þess tæki og kunnáttu að mæla hvort jarðbinding fjóss og mannvirkja er nægileg. Kanna hvort eingöngu er um að ræða svokallaða sökkulbindingu eða vatnsinntaksbindingu og ef svo er að reka þá einnig niður stafskaut úti ekki undir 1,2 – 1,5 m.að lengd og leiða frá því 16-25 qvaðrat fjölþátta jarðleiðslu að safnskinnu fyrir jörð í rafmagnstöflu. Frá töflu þarf síðan sérstaka jarðleiðslu að vatnsinntaki og að fyrsta leiðandi virki í fjósinu.

 

Síðan þarf og þetta er áríðandi að binda saman allt leiðandi járnavirki með 10-16q leiðslu, þ.e.vatnslagnir, milligjarðir á básum sem og í mjaltabás, soglögn, flórristar, ristar í mjaltabás ef þær eru þar sem kýr standa í mjöltum, og einnig á minnst einum stað í loftklæðningu ef hún er úr járni eða stáli. Þar sem lagnir og milligjarðir eru samansoðnar eða festar saman á annan tryggilegan hátt nægir að jarðbinda þau virki á einum stað. Ef flórristar eru saman soðnar eða ná góðri leiðni hvor við aðra er nægilegt að binda þær saman við milligjarðirnar í báða enda hverrar raðar. Þakklæðningu, strompa ef í er vifta og utanhússklæðningu úr járni ætti einnig að jarð- og sambinda. Láta huga að gömlum fluorsent lömpum og binda þá til jarðar ef þarf ásamt því að þéttatengja spóluna (ballestina) í ljósinu svo þeir trufli síður og angri skepnur.

 

Þegar þetta hefur verið gert er orðið eins tryggt og mögulegt er að ekki myndist spennumunur milli leiðandi járnavirkja. Þá þarf í öllum fjósum reglulega að prófa virkni útsláttarrofans (lekastraumsliðans) í rafmagnstöflunni en næmni hans á að vera minnst 30 mA.

Prófunarhnappur er á liðanum. Mikill raki og bleyta í fjósi og mjaltaaðstöðu eykur líkur á útleiðslu þannig að góð loftræsting er nauðsynleg.

 

Varðandi áhrif rafsegulsviðs í fjósum af einhverjum orsökum vill greinarhöfundur segja þetta.

Vitað er að allsterkt rafsegulsvið getur verið í afmörkuðum radíus umhverfis háspennuvirki og undir háspennulínum og er því ástæða til að byggja ekki fjós undir hápennulínum eða í nálægð háspennuvirkja þar sem líklegt er að það geti aukið á vanlíðan skepna og manna.

Hvaða áhrif menn eru að mæla þegar engin háspennuvirki eru nálæg er alls ekki vitað né heldur hvort þar er um að ræða skaðlegt eða meinlaust segulsvið. Með góðri sambundinni jarðtengingu í fjósi er vísast að menn geta hætt að kaupa dýrar “spólur” eða hvað menn kjósa að kalla járnhólka þá sem sumstaðar hanga í fjósum.

 

Jan. 2002

Kristján Gunnarsson