Uppsetning og frágangur brynningaraðstöðu

Flokkar: Bútækni

16. september 2003

Uppsetning og frágangur brynningaraðstöðu

Í góðri grein Óðins Gíslasonar og Torfa Jóhannessonar í Bændablaðinu fjalla þeir um brynningarmál og þýðingu vatns fyrir nautgripi. Ég tek undir orð þeirra og vil að gefnu tilefni minnast sérstaklega á örfá atriði sem lúta að uppsetningu og frágangi á drykkjarkörum, sem því miður er allt of oft ekki í lagi.

 

Gott aðgengi að vatni tryggir betri nyt

Eitt af því sem maður sér of oft er bæði of fáir/takmarkaðir drykkjarstaðir fyrir kýr í legubásafjósum hérlendis (og erlendis). Reglan varðandi uppsetningu á drykkjarkerjum er einföld, 12 kýr á hvern lengdarmeter drykkjarkers. Mörgum finnst þetta mjög vel í lagt og má vel vera, en rétt er þá að minna á niðurstöður erlendra rannsókna sem sýnt hafa að því betra sem aðgengið er að vatninu – því meiri mjólk skilar sér í tankinn.

 

Annað atriði sem kemur stundum fyrir er röng hæð á drykkjarkerjunum. Kúm er eiginlegt að drekka vatn með höfuðið í ákveðinni stöðu. Eftir því sem kerin eru hærri, því erfiðara er fyrir kýrnar að “þamba” vatnið – sem er einmitt það sem við viljum að þær geri. Hafið hæðina því ekki hærri en 80 cm frá efstu brún pallsins fyrir neðan. Ekki hafa áhyggjur af vatnssulli þar sem eru opnir flórar, niðurfallið (sjá hér að neðan) leysir það mál!

 

Fótpallur

Reynslan hérlendis hefur kennt okkur að mun betra er að láta steyptan pall undir drykkjarkörin en að hafa járnrör utan með þeim, til varnar því að kýrnar skíti/mígi í vatnið. Í flestum legubásafjósum er hægt að koma því við að kýr hafi aðgengi að vatni við gangenda og/eða við enda á básaröðum og þar ætti að vera auðvelt að koma við fótpalli. Pallurinn þarf að ná ca. 50 cm. út fyrir drykkjarkarið á hvern kant og hæðin má ekki vera minni en 10 cm. en ráðlegt að hafa hann 15-20 cm. Pallinn ætti að steypa og hafa á honum smá vatnshalla. Það kemur í veg fyrir að vatn sitji uppi á pallinum og minnkar líkur á sóðaskap.

 

Niðurfall

Þar sem opnir flórar eru, þarf að huga sérstaklega að því hvar vatn sem sullast út fyrir kerin á að fara niður. Algerlega ótækt er að láta vatnið renna eftir flórnum að öðrum enda fjóssins. Í slíkum tilfellum eru gangarnir alltaf leiðinlega blautir og sóðalegri en ella. Nauðsynlegt er því að setja niðurfall eða sambærilega lausn nálægt vatnskerjunum.

 

Snorri Sigurðsson