Flokkar: Fóðrun og bútækni
30. júní 2012

Umhirða kálfafóstra

Snorri Sigurðsson, sns (hjá) vfl.dk
Þekkingarsetri landbúnaðarins í Danmörku

Notkun á sjálfvirkum kálfafóstrum við mjólkurgjöf hefur farið vaxandi á liðnum árum en tæknin er vel þekkt og kom frumgerð hennar fyrst fram á sjónarsviðið árið 1960 í Evrópu, en upp úr 1990 komu fram kálfafóstrur sem eru meira í líkingu við það sem þekkist í dag. Kálfafóstrur geta sparað vinnu við smákálfana en afar mikilvægt er þó að spara ekki vinnu við þrif og viðhald fóstranna.

Spara vinnu
Kálfafóstrur eru notaðar í dag á fjölmörgum kúabúum og eru til nokkrar gerðir fóstra hér á landi. Rannsóknir hafa sýnt fram á ýmsa kosti þeirra umfram hefðbundar aðferðir við mjólkurfóðrun s.s. öryggi við gjafir, tíðar gjafir, jafnt hitastig mjólkur, minni samkeppni á milli kálfa og söfnun upplýsinga um gjafalag sem geta t.d. tryggt sjúkdómaeftirlit og vinnusparnað. Þess má þó geta að sambærilegum árangri við mjólkurfóðrun má ná með annars konar hætti, en ætla má að það kalli á aukna vinnu.

Geta verið hagkvæmar
Hvort kaup á kálfafóstru borgi sig fyrir kúabú fer að sjálfsögðu eftir þeim forsendum sem lagðar eru til grundvallar. Niðurstöður hérlendrar rannsóknar frá því fyrr á þessu ári leiddu t.d. í ljós að hreinn sparnaður hlýst af notkun á kálfafóstru, miðað við gefnar forsendur rannsóknarinnar, á búum þar sem settir eru á fleiri en 60 kálfar árlega. Smærri bú geta þó einnig haft ávinning af notkun á kálfafóstru vegna framangreindra kosta við mjólkurfóðrunina sjálfa.

50 ára reynsla
Þrátt fyrir að hér á landi séu margir aðilar sem selja kálfafóstrur af ólíkum gerðum, þá má fullyrða að allar gerðirnar séu tiltölulega einfaldar að gerð, auðveldar í notkun og með all gott rekstraröryggi. Skýringin á þessu felst í þeirri staðreynd að tæknin á sér langa rannsóknarog þróunarsögu og auk þess virðast framleiðendur kálfafóstra fara mikið í smiðju hvers annars. Raunar er það svo að einn stór framleiðandi á kálfafóstrum framleiðir nokkrar fóstrur undir mismunandi merkjum þekktra söluaðila og er því sami vélbúnaður á bak við mismunandi lit og hugsanlegt útlit fóstranna.

Öruggar og tíðar gjafir
Tæknin er eins og áður segir tiltölulega einföld og samanstendur af blandara, sem blandar saman mjólkurdufti og heitu vatni, og dælu sem dælir að drykkjarstöð þar sem kálfarnir geta drukkið mjólkina úr túttum nokkrum sinnum á dag. Flestar kálfafóstrur geta gefið kálfunum ferska mjólk en einnig eru til kálfafóstrur sem eingöngu gefa ferska mjólk og eru því án blöndunarbúnaðar. Flestar kálfafóstrur sem framleiddar eru í heiminum eru einnig með all góðum þvottakerfum sem sjá oftar en ekki sjálfvirkt um kerfisþvott. Þó svo að hugbúnaður fóstranna sé nokkuð breytilegur má fullyrða að allar gerðir bjóði upp á einstaklingsmiðaða mjólkurfóðrun eftir aldri og hugsanlega þunga kálfanna, sem hver og einn bóndi getur breytt all nokkuð eftir þörfum. Þá er einnig hægt að stilla flestar fóstrur þannig að þær geta gefið kálfum mjólk eftir lyst hvers og eins, í litlum skömmtum þó.

Umhverfið þarf að vera í lagi
Þar sem kálfafóstrur eru, þarf að hugsa vel um nærumhverfi kálfanna og þar þarf að vera vel loftræst og undirlag kálfanna að vera mjúkt og þurrt. Það gerir kálfunum að sjálfsögðu gott og auðveldar allt eftirlit með þeim. Í hópstíum þarf að vera gott pláss fyrir kálfana og gott viðmið í því sambandi er 1,8 m2 pr. kálf (60-100 kg).

Kröfur kálfafóstranna sjálfra til umhverfis eru almennt séð ekki miklar en þær þurfa þó að vera í frostlausu rými með aðgengi að bæði rafmagni og vatni. Til viðbótar þarf að gera ráð fyrir geymslu á mjólkurdufti og hugsanlega kálfafóðurblöndu, sem oft gleymist við hönnun fjósa, auk þess sem mikill kostur er að hafa vask með heitu vatni nálægt fóstrunum vegna daglegra þrifa á þáttum sem kerfisþvottur ræður ekki við. Frá kálfafóstrunni þarf einnig að vera gott frárennsli vegna skolvatns frá þvottakerfinu en sömuleiðis þarf að vera gott frárennsli þaðan sem kálfunum er gefin mjólkin, þar sem þeir sulla alltaf eitthvað á því svæði, auk þess sem það þarf að þrífa reglulega.

Haldið flugunum frá
Á sumrin og þegar heitt er skapast kjöraðstæður fyrir flugur og bakteríur við kálfafóstrur og í kálfastíum með hálmi. Fyrir þessu þurfa bændur að vera sérstaklega vakandi og halda mögulegum vexti baktería niðri með hreinlæti og öðrum þekktum aðferðum. Þá sækja flugur eðlilega mikið í mjólkina og ef kálfafóstran er ekki útbúin með fluguvörn er voðinn vís. Einfaldasta ráðið gegn flugum er að kaupa flugnanet og verja þá staði sem eru hugsanlega aðgengilegir flugum. Slíkt flugnanet ver einnig opna staði gegn óhreinindum, svo vörnin er í raun tvíþætt.

Dagleg þrif nauðsynleg
Það er mjög mikilvægt að hafa þrif á kálfafóstrunni inni í daglegri vinnureglu á búinu en þrífa þarf fóstruna utanverða og gjafabásinn einu sinni til tvisvar á dag. Allir þekkja að gjafafötur kálfa á að þrífa daglega og það sama gildir um kálfafóstruna, utanverða einnig. Kerfisþvottur kálfafóstrunnar er oftar en ekki sjálfvirkur en mælt er með því að hann sé stilltur á þvott tvisvar á dag á sumrin. Á veturna, ef kálfafóstran er eingöngu að gefa mjólk úr mjólkurdufti, er nóg að láta kerfisþvottinn í ganga einu sinni á dag. Það er nokkuð breytilegt eftir tegundum kálfafóstranna hve langana tíma kerfisþvotturinn tekur en venjulega tekur hann 15-25 mínútur í hvert skipti og notar í kringum 5 lítra af vatni. Hitastig þvottavatnsins er hinsvegar oft lágt eða í um 50 gráðum, sem gerir ríkari kröfu til þess þvottaefnis sem er notað, enda þarf það að geta unnið við lágt hitastig. Þvottakerfi geta að sjálfsögðu brugðist og því þarf að fylgjast með því að kerfisþvotturinn fari fram.

Túttan þarf að vera í lagi
Túttan sjálf er sá hlutur sem oftast þarf að skipta um á kálfafóstrum og er afar einfalt að skipta um tútturnar. Því ættu kálfar alltaf að hafa aðgengi að óslitnum og heilum túttum. Til þess að tryggja þetta er ráðlegt að meta ástand þeirra daglega. Þrif á túttum verða í raun oft á dag, þar sem flestar kálfafóstrur dæla vatni í gegnum slönguna sem fæðir túttuna í lok hvers mjólkurskammts og sýgur kálfurinn því hreint vatn í gegnum kerfið. Þegar kerfisþvotturinn fer fraam sjá sumar kálfafóstrur, ekki allar, um slönguþvott með sk. hringþvottakerfi. Sumar eru einnig þannig útbúnar að þvottakerfið getur blásið lofti út í gegnum túttuna eftir þvott til þess að tryggja enn betur þvottinn. Hvaða kerfi er best getur verið erfitt að segja til um en mestu skiptir að vera með daglegt eftirlit með fóstrunni og fylgjast með því að allir hlutar hennar virki rétt og séu hreinir að bæði utan sem innan.

Rétt skammtastærð
Það hefur sýnt sig að það er einnig mikilvægt að fylgjast með skammtastærðum frá kálfafóstrunum en ekki er sjálfgefið að þær skammti alltaf rétt magn frá sér, né noti rétt magn mjólkurdufts. Munur getur verið á mjólkurdufti að uppbygginguog rúmþyngd sem getur haft áhrif á þetta, auk þess sem magnmæling mjólkurblöndunnar getur breyst. Þá hefur reynslan sýnt að rennan, sem mjólkurduftið rennur um niður í blöndunarkarið, á það til að teppast þar sem raki þéttist stundum við op hennar og þar klessist mjólkurduft fyrir. Þegar þetta gerist byrjar fóstran að sammta ranglega. Einnig getur stúturinn sem blandaða mjólkin rennur um til túttunnar átt það til að teppast af svipuðum orsökum. Vegna þessa þarf að fylgjast vel með skömmtuninni og er ráðlegt að gera það að lágmarki mánaðarlega.

Með natni og góðri umhirðu, s.s. við þrif, eftirlit og viðhald fóstranna, er hægt að ná afar góðum árangri við eldi kálfa. Skilar það sér í góðu heilbrigði þeirra og örum vexti, enda hefur þetta fóðrunarkerfi verið lagað að líffræðilegum þörfum kálfa á síðustu fimm áratugum með því að sjá til þess að kálfarnir fái alltaf rétt magn mjólkur, með réttu hitastigi og sama efnainnihaldi eftir því sem kostur er.

Greinin birtist í Bændablaðinu, 27. október 2011

Heimildir:
Snorri Sigurðsson, 2011. „Athugun á tækni við mjólkurfóðrun kálfa“. Fræðaþing 2011: 324-329.
Snorri Sigurdsson, 2011. „Pas på renholdelsen af mælkefodringsautomaterne“. Bovilogisk 25 (6): 14-16.