Um sogjafna og soghæð mjaltakerfa

Flokkar: Mjaltatækni og bútækni
6. desember 2004

Um sogjafna og soghæð mjaltakerfa,

Við mælingu á soghæð mjaltakerfa sýnir mælirinn mismuninn á andrúmsloftsþrýstingi og þeim þrýstingi (undirþrýstingi) sem inní hinu mælda kerfi er. Sogjafninn svokallaði hleypir andrúmslofti inní kerfið til að viðhalda réttum þrýstingi ef afköst sogdælunnar verða of mikil, svo sogkraftur kerfisins hækki ekki umfram ástillta soghæð.

Margir halda að hvissið í sogjafnanum stafi af því að hann sé að blása út, en því er þveröfugt farið, hann er að draga inn loft utan kerfis. Á hinn veginn leitast hann við að loka fyrir loft inná kerfið séu afköst sogdælunnar svo knöpp að soghæð kerfisins fari fallandi undir mjöltum t.d. vegna of margra mjaltatækja eða mikils leka inn á kerfið af einhverjum orsökum.

Það er góðs viti ef hvissar vel í sogjafnanum undir mjöltum. Það merkir einfaldlega að afköst sogdælunnar eru rífleg og einhver vara-afköst eru tiltæk ef með þarf t.d. ef kýr sparkar af sér eða ef illa tekst til við ásetu með tilheyrandi loftinnsogi við hylkin.

Enn og einu sinni er vert að minna á að henda ætti gömlu lóðsogjöfnunum þar sem þeir eru enn til staðar og setja í staðinn membrujafna sem er mun stöðugri en gamli lóðjafninn auk þess að vinna rétt við mun meiri afköst sogdælu en sá gamli.

Mæling
Ef sogmælir sýnir 48 kpa þýðir það í raun að undirþrýstingurinn inní kerfinu er 52 kpa þar sem þrýstingur andrúmsloftsins er nálægt 100 kpa við sjávarmál.(kpa = kíló-pascal). Athugið að hækkandi tala inní kerfinu þýðir minni sogkraft (vacum).

Nokkrar sveiflur og sumar allstórar verða á andrúmsloftsþrýstingi eftir veðurfari þannig að 100 kpa talan er svona nálægt meðaltali. Þýstingur andrúmsloftsins er síðan nokkru lægri þegar komið er nokkur hundruð metra yfir sjávarmál, lækkar um ca.1 kpa við hverja 80 metra hækkun frá sjávarmáli.

Dæmi um mismunandi aðstæður:
Þar sem loftþrýstingur er lægri (í aukinni hæð yfir sjávarmáli) þarf ástillt soghæð í raun að vera lægri til að ná fram sama undirþrýstingi og við sjávarmál. Á bæ einum nálægt sjávarmáli er þrýstingur andrúmslofts um 100 kpa. Soghæð hálínu rörmjaltakerfisins á bænum er stillt á 48 kpa sem merkir 52 kpa undirþrýsting inní kerfinu.

Kúabú í Mývatnssveit stendur í um það bil 270 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar er þrýstingur andrúmsloftsins nálægt því að vera 3 kpa lægri en við sjávarsíðuna eða u.þ.b.97 kpa.(nokkuð sveiflukennt þó líkt og við sjávarmál) sem merkir í raun að þar ætti að stilla soghæð hálínu mjaltakerfis á 45 kpa til að vera með sama undirþrýsting og í kerfinu á bænum við sjávarsíðuna þar sem stillt var á 48 kpa. Sami regla gildir að sjálfsögðu um láglínu og fötukerfi.

Því væri fræðilega rétt að lækka ástillta soghæð mjaltakerfa á bæjum sem standa ofar en ca. 200-250 metra yfir sjávarmáli.

des. 2001 Kristján Gunnarsson.