Flokkar: Mjaltatækni og bútækni
6. desember 2004

Þvottur mjaltakerfa

Algengt er að þvottur mjaltakerfa, mjaltabúnaðar og mjólkurtanka sé nokkuð handahófskenndur og vel ígrunduð hreinsiefnanotkun fremur fátíð. Þetta kemur fram í ítarlegri könnun og rannsókn Ólafs Adólfssonar lyfjafræðings fyrir fáum árum á notkun hreinsiefna við mjólkurframleiðslu. Slatti sirka og og eitt og hálft box ( hve stórt? ) svo dæmi séu tekin voru algengar mælieiningar mjólkurframleiðenda í þessari viðamiklu rannsókn. Meira virtist þó um ofnotkun þvottamiðla og vatnshiti víða of lágur. Vitað er að of mikið magn þvottaefnis bætir ekki fyrir of lágan vatnshita.

Kenna má um kæruleysi okkar mjólkureftirlitsmanna við leiðbeiningar á efnanotkun hjá hverjum og einum mjólkurframleiðanda og t.d. undirritaður viðurkennir að hafa of sjaldan spurt um efnanotkun á framleiðslubæjum meðan flokkun mjólkur gengur slysalaust.
Þá má líka gagnrýna þátt efnaverksmiðja í málinu með því að ómögulegt virðist að fá framleiðsluaðila til að láta kvarðaðar mæliskálar fylgja með í pakkningum sínum nú orðið jafnvel þó ekki væri nema ómerkilegt þunnt plastmál. En til að klóra í bakkann skal hér reynt að setja upp einfaldar leiðbeiningar eða grófa reiknireglu fyrir mjólkurframleiðendur

Þvottur rörmjaltakerfa:
Um 10 l vatns þarf fyrir endaeininguna og um 0,4 l á hvern lengdarmeter kerfisins.
Sem dæmi: Í 32 bása tvístæðu fjósi, kerfið er um 60 metrar að lengd sinnum 0.4 lítrar á meterinn plús 10 lítrar í endaeiningu eða u.þ.b 35 lítrar vatns til sápuþvottar. Við þurfum 0,4-0,6 % upplausn til að ná góðum þvotti. Þvottaefnismagn í sama kerfi yrði þá um 30 grömm af dufti á hverja 10 lítra vatns eða u.þ.b.100 grömm alls. Ef sápan er fljótandi (lögur) þá yrði magnið 0,5 dl á hverja 10 lítra eða 1,75 dl í þetta kerfi.

Í mjaltabás yrði vatnsmagnið 25 lítrar fast plús 3 lítrar á hvert mjaltatæki.
Ef mjólkurhús er hins vegar óeðlilega langt frá básnum þarf að auka við þessa reglu um 0,4 lítra á lengdarmeter 50 mm sverar lagnar. 2 x 5 tækja bás yrði nálægt 55 lítrar vatns, sama % sápu upplausn og áður var getið eða u.þ.b. 2,5 -2,7 dl fljótandi sápu eða 140 gr. ef notað er duft. Vatnshiti þarf að vera yfir 80°C í byrjun sápuþvottar og honum þarf að ljúka áður en hitastig þvottavatnsins fer niður fyrir 40°C venjulega 7-10 mínútna þvottur. Svipað vatnsmagn þarf í forskolun og eftirskolanir, forskolun og fyrsta eftirskolun eiga að vera volgar. Hringrásarskolanir eru slæmar og valda mengun mjólkurinnar af efnarestum.

Þvo þarf til öryggis með súrum miðli (sýruþvo) einu sinni í viku, sömu þumalputtareglur varðandi vatns og efnismagn er ágætt. Hætta ætti umsvifalaust notkun salt-péturssýru þar sem það hefur ekki þegar verið gert vegna nitrat (nitrit) mengunar. Notkun hennar í mj.framleiðslu hefur verið bönnuð í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu um árabil. Gott er að líta vikulega inní mjaltatæki og þreifa með löngutöng svo langt sem hún nær uppí spenagúmmíin til að kanna virkni þvottakerfisins því þar byrjar óþvottur oftast að gera vart við sig.

Varðandi mjólkurtanka gilda sömu lögmál með styrk sápupplausnar, mæla þarf vatnsmagnið sem notað er og athugið að láta ekki vatnsstrola yfir 50°C leika um sama blettinn í tanknum í byrjun þvottar. Yfirleitt ætti ekki að nota heitara vatn en 75°C til tankþvotta vegna álags á kælispírala tanksins út af efnisþennslu stálsins. Verið aldrei löt við sýruþvott mjólkurtanks því það er gríðarlega erfitt að steinhreinsa tank sem trassað hefur verið að sýruþvo.

Stærð hitavatnskúta: 5 -15 básar lágmark 200 l..
15 – 40 básar lágmark 300 l.
> 40 básar 400 l >

Hitastig þeirra sé stillt á > 85°C en þá þarf að vera tryggt að blöndunartæki séu á öllum heitavatnskrönum svo börn skaði sig ekki á vatninu eða kaupa nú fáanlega hitavatnskúta með tveimur úttökum þ.e. eitt fyrir kerfisþvott eingöngu og annað fyrir handlaugar og lausa krana sem hægt er að stilla á lægra hitastig að vild.

Ekki eingöngu þarf að hafa rétt þvottaefnismagn og hitastig til að ná góðum þvotti heldur þarf hraði vatnsins gegnum kerfin að vera nógur um 7-10 m. á sek. vegna núningsáhrifa og skiptir þá máli að vatnsmagn sé ekki of mikið, að lofttappar nái að myndast með reglulegu millibili.
Þetta er sérlega mikilvægt í rörmjaltakerfum og löngum rörum.
Ekki meira að sinni.

Sept 2000
Kristján Gunnarsson

Heimildir:
Ólafur Adólfsson 1996
NORÐURMJÓLK ehf Milking and Hygiene 1997