Flokkar: Bútækni

19. desember 2002

Sumar allt árið !

Sumar allt árið !

 

Átta til tíu prósent hærri nyt ef birtan er næg allt árið

 

Í röð nokkurra bandarískra rannsókna hefur komið í ljós að 16-18 tíma ljós á dag eykur nyt kúa frá 0,5 kg til 3,3 kg. á dag miðað við nyt kúa sem eru haldnar í hefðbundnum fjósum með venjulega daglengd. Jákvæð áhrif af lengingu dagsins var mest í hjörðum bænda þar sem nytin var mjög há fyrir. Í ljós kom jafnframt að best er að hafa ljós hjá geldkúm í hámark átta tíma á dag. Þessi niðurstaða setur hönnuðum fjósa krefjandi verkefni við skipulagningu fjósanna, þar sem þessi munur er á mjólkandi kúm og geldum.

 

Breytt vakastarfsemi

Ástæða þess að kýrnar bregðast svona jákvætt við því að lýsingin er aukin, er sú að birtan hefur áhrif á augun sem m.a. stjórna vakavirkninni (hormóna). Í niðurstöðunum kemur í ljós að lýsing minnkar flæði vakans Melatonins, en magn Melatonins í blóði nýtir líkaminn til að stilla innri “klukkuna”, sem hefur svo aftur áhrif á losun hins sk. vaxtavaka IGF-1 sem og mjaltavakans Prólaktin.

Langir dagar leiða til þess að hlutfall af Melatonins í blóði lækkar og að sama skapi eykst magn IGF-1 og Prólaktín. IGF-1 myndast fyrst og fremst í lifur og það hefur áhrif á myndun annars vaka, Bovin Somatotropin, sem eykur mjólkurmyndun með því að m.a. blóðflæðið um júgrað eykst. Þegar meira blóð streymir til júgursins, eykst að sjálfsögðu næringarflæðið til þess sem er hornsteinn mjólkurmyndunarinnar.

Í rannsóknunum var ekki staðfest að aukið magn Prólaktín skipti höfuðmáli í viðhaldi júgurvefsins, en þó er ljóst að Prólaktín skiptir miklu máli í mjólkurmyndunarferlin, þar sem hann m.a. kemur við sögu myndunar á próteinsameindinni Kasein. Jafnframt kemur Prólaktín við sögu mjólkurflæðis, sem og hefur áhrif á fjölda mjólkurfruma.

 

Rauð lýsing

Þrátt fyrir kosti þess að lengja dagana með aukinni lýsingu yfir dimmustu mánuðina, er ekki síður mikilvægt að myrkva fjósin í sex til átta tíma á dag. Lýsing í fjósum allan sólarhringinn hafði í rannsóknunum engin áhrif á nytina og er enganvegin hægt að mæla með slíkri lýsingu þar sem hættan er sú að magn IGF-1 falli í blóði við of mikla lýsingu.

Ef einhverra hluta vegna er nauðsynlegt að hafa lýsingu í fjósinu allan tímann, t.d. til að geta fylgst með skepnunum, er hægt að setja upp rauð ljós. Rauðar perur, sem ekki eru sterkari en 7,5 vött hafa engin áhrif á kýrnar og hormónavirkni þeirra. Jafnframt er hægt að mæla með því að í fjósunum séu settar upp stýriklukkur á ljósakerfið, þannig að daglengdirnar verði fasti og séu því óháðar áhrifum þeirra sem vinna í fjósunum. Rétt er að benda á að flest stýrikerfi fyrir lýsingar geta tekið mið af birtustigi og slökkva því á ljósunum er bjart er orðið úti.

 

Birtan hefur einnig áhrif á beiðsli

Í ljós kom jafnframt að það getur verið kostur að hafa stýrða lýsingu hjá ungum gripum. Kvígur, sem haldnar eru í stýrðu ljósaumhverfi, byrja fyrr að beiða, vaxa hraðar og voru jafnframt vísbendingar um að þær nýttu fóður betur en aðrar kvígur. Jafnframt hafði lýsingin áhrif á grunnmyndun júgurvefsins og virtist hemja myndun á fituvef að sama skapi. Erlendis er vel þekkt að ræða um það vandamál sem tengist fóðrun á kvígum á ákveðnu aldursbili, þegar frummyndun júgurvefsins fer fram. Þetta er kallaður “viðkvæmi tíminn” í eldi kvígna, en röng fóðrun á þessum tíma getur leitt til of mikillar fitusöfnunar þar sem frummyndun júgursins fer fram sem svo aftur leiði til þess að júgurvefurinn verður takmarkaðari.

 

Stuttir dagar hjá geldkúm

Á geldstöðu kom í ljós að mikilvægt er að minnka lýsingu. Stuttir dagar á geldstöðu juku mótefnavirkni kúnna, sem og nyt þeirra eftir burð um allt að 3,5 kg á dag. Ástæðan er talin sú að stuttir dagar auka magn efna sem bindast vakanum Prólaktín. Á geldstöðu er magn vakans Prólaktín lágt, en við burð stígur magn vakans mjög mikið og hratt. Ef kýrin hefur á geldstöðunni náð að byggja upp “lager” af bindiefnum Prólaktíns er hún betur búin undir það að mjólka en aðrar kýr. Af þessum sökum er ráðlagt að minnst í 30 daga séu geldkýrnar haldnar við stutta daga og helst alla geldstöðuna.

 

Aukið át

Breytingar á lýsingu virtust ekki hafa nein áhrif á efnamagn mjólkur, en í einni rannsókninni kom þó í ljós að fituinnihald mjólkur lækkaði um 0,16%

Áhrif af aukinni nyt komu fram í auknu áti (allt að 4%) á um helmingi þeirra kúabúa sem voru í rannsóknunum. Á hinum búunum komu hinsvegar ekki fram nein áhrif á át. Á þeim búum, þar sem fram kom aukið át, námu auknar tekjur af mjólkurframleiðslunni mun meiru en aukinn fóðurkostnaður.

 

Styrkur ljóssins

Ráðlögð lýsing hérlendis samkvæmt gildandi aðbúnaðarreglugerð er eftirfarandi:

Mjólkurhús                                                      400 lúx

Mjaltabás                                                        400 lúx

Básar (í júgurhæð, ef mjólkað er á bás)            200 lúx

Legusvæði                                                      100 lúx

Fóðurgangur                                                   100 lúx

Geldneyta- og kálfastíur                                   100 lúx

Sjúkra- og burðarstíur                                     200 lúx

Næturljós                                                 u.þ.b. 3 lúx

 

Þar sem notaður er mjaltaþjónn og/eða stuttur fóðurgangur er ráðlegt að hafa ratljós, en erlendis er mælt með að ratljós hafi 25 lúxa styrk. Jafnframt er rétt að benda á að hrein gólf, loft og veggir hámarka nýtingu á ljósi. Ennfremur er mikilvægt að þrýfa ljósin reglulega, þar sem ryk dregur mjög hratt úr virkni ljósanna.

 

Lokaorð

Eins og fram kemur hér að ofan eru niðurstöðurnar um margt mjög spennandi, sérstaklega fyrir okkur Íslendinga sem höfum meiri breytileika í daglengd en flestir aðrir kúabændur á norðurhveli jarðar. Þegar nýju stýrikerfin voru sett upp í þeim fjósum sem voru í þessum bandarísku rannsóknum tók það nokkurn tíma fyrir gripina að venjast hinum nýju “dögum”, en á flestum búum var komin fram nytaukning eftir tvær til fjórar vikur.

 

Þýdd og endursögð grein eftir Maria Eskildsen (Boviologisk 11/02) af Snorra Sigurðssyni, Landssambandi kúabænda