Flokkar: Mjaltatækni og bútækni
6. desember 2004

Spenagúmmí.

Í síðustu grein minni fjallaði ég nokkuð ítarlega um mjaltatækið og því er rökrétt framhald að fjalla um spenagúmmíið sem er mikilvægasti hluti mjaltatækisins. Það kemur mér stundum undarlega fyrir sjónir í starfi mínu og flakki milli mjólkurframleiðenda að nokkuð er um að menn spari sér til skaða oft sára litlar upphæðir og taka þar með stundum áhættu sem getur kostað tugþúsundir ef illa fer. Þarna á ég t.d. við spenagúmmíin sem kosta aðeins frá 1000 – 1500 kr. settið (4 stk orginal gúmmí).

Nauðsyn þess að skipta þeim út að loknum uppgefnum endingartíma er svo miklvæg að enginn ætti að skella skollaeyrum við því. Það væri hægt að telja upp nokkrar tilraunir og niðurstöður prófana gerðum af lærðum búvísindamönnum þar sem skýrt kemur í ljós að samhengi er milli lélegra og gamalla spenagúmmía og sérstaklega tíðni duldrar júgurbólgu (Rabold.1993) og bakteríur t.d. staphylococcus aureus (þekktur júgurb.valdur) fannst í mun meira mæli við stroksýni úr spenagúmmíum sem voru yfirnotuð (Hogan 1988).

Þetta kemur okkur ekki á óvart, sem höfum skoðað gömul spenagúmmí í s.k. microscope sem er nokkurs konar smásjá sem rekin er inní spenagúmmíin við ítarlega skoðun þeirra, það sem okkur fannst slétt yfirborð við þreifingu með fingrum reyndist krossprungið og gróft við smásjárskoðunina. Spenagúmmí sem ætluð eru til notkunar í t.d. léttbyggðu mjaltatækin eru sérframleidd með það fyrir augum að leggjast vel að spenanum, efnisþykkt í veggjum er þunn, en samt eru þau sterk og ákvörðun um teygjanleika þeirra og mýkt er byggð á margra ára rannsóknum og tilraunum í tilraunafjósum mjaltavélaframleiðenda. Þau eru eini hlutur mjaltkerfisins sem bæði kemst í snertingu við mjólkina og dýrið þ.e. viðkvæman spena kýrinnar, þau þurfa að standast áhlaup mjólkurfitu, útfellinga mjólkursteinefna og sterkra þvottefna (klórs) svo nokkuð sé nefnt.

Þau þurfa að standast 2300-2500 mjaltir með undirþrýstings hreyfingu saman og sundur u.þ.b 960 sinnum á hverri kú eða 2.208.000 sinnum á uppgefnum endingartíma.
Reikniregla d=dagar, t= uppgefinn endingartími framleiðanda og k= fjöldi gripa á hvert mjaltatæki verður þá t = d
k × 2
t.d. 40 kýr mjólkaðar með 4 tækjum yrði þá 125 daga líftími eða rúmir 4 mánuðir.
Í nuddfasa sogskiptisins á spenagúmmíið að leggjast að spenanum styðja við hann og örva spenaendann svo blóð og vessar gangi til baka þannig að speninn þoli það gríðarlega álag sem hann verður fyrir í hverjum mjaltatíma. (Nuddfasi = c-fasi algengt 40 % vinnsluhringur sogskiptisins meðtalinn 15 % hvíldartími þ.e. d-fasinn).

Með tímanum tapa spenagúmmíin smá saman þessum eiginleika og mjaltafasinn fer að verða handahófskenndari og áhættuþátturinn vex. Við mjólkum með 32-38 kpa undirþrýstingi (soghæð undir spenaenda) á u.þ.b. 6-8 mínútum alla júgurhluta meðan hin náttúrulega „mjaltavél“ kálfurinn, sýgur móður sína á minna en 20 kpa undirþrýstingi að meðaltali lempar um leið spenann með tungunni og tekur einn júgurfjórðung í einu. Ég nefni þetta svo ljósara sé hversu gríðarlegt álag er á kúna og hve mikilvægt það er að spenagúmmíin vinni eins og til er ætlast og fari vel með hana svo hún standist það álag sem vélmjaltir vissulega eru.

Stingið fingri uppí eitt spenagúmmí í vinnslu og finnið þann kraft sem speninn þarf að standast og ef þið þolið við í 6-8 mínútur skoðið þá vel á ykkur fingurinn á eftir, algengt er að speninn lengist um helming við mjaltir.

Þegar valin eru spenagúmmí skal reyna að velja þá gerð sem hentar meiri hluta kúnna í fjósinu.
Til að tryggja hámarks endingartíma og sem minnstri hættu á að spenagúmmíin verði smitberar júgurbólgu verður þvottur þeirra að vera góður. Hitastig þvottavatns þarf að vera yfir 75°C í byrjun þvottar og honum verður að ljúka áður en vatnshiti fer niður fyrir 40°C.
Viðurkennt tvívirkt þvottaefni þ.e. þvottur – sótthreinsun verður að nota í hæfilegum styrk miðað við vatnsmagn algengt 0,5 – 0,7 % styrk

Og ekki gleyma vikulegum súrum þvotti í sama styrk, hann gerir spenagúmmíunum gott og ætti því alls ekki að sleppa honum. Leggið aldrei spenagúmmí í klórbað, klór sem þvottamiðill er afleitur fyrir öll gúmmí. Spenagúmmíin eiga að vera í þannig þvottahylkjum að þau nái að þorna eftir þvott en sitji ekki í polli fram að næstu mjöltum.

Með því að þreifa reglulega með löngutöng eins langt og hún leyfir inní spenagúmmíin, finnst hvort óþvottur eða slæm eftirskolun eru að verða vandamál. Þau eiga að vera stöm og mjúk innan en hættumerki eru hálka eða slepja sem byrjar venjulega alveg efst í rýminu upp við grenningu (stuttu mj.slöngu). Heitavatnsskolun tækjanna fyrir mjaltir er að mínu mati góð hugmynd hún bæði ylar gúmmíin sem er gott fyrir fyrstu kýrnar í mjöltunum auk þess að fjarlægja hugsanlega gerla.

Að lokum ítreka ég, kaupið ekki eftirlíkingar sem kosta einhverjum hundraðköllum minna, notið spenagúmmí frá þeim framleiðanda sem mjaltatækin ykkar eru frá, De-Laval, SAC eða Strangko svo dæmi séu tekin yfir algengustu merki hér. Þeim er kappsmál vegna orðstýrs sinna fyrirtækja að tækin þeirra valdi ykkur ekki ótímabærum skaða meðan framleiðandi lélegra eftirlíkinga gefur skít í allt nema sölutölur.

sept. 2000
Kristján Gunnarsson

Heimildir:
Milking and Hygiene 1997