Sjálfhreinsandi gúmmígólf í kálfastíur

Flokkar: Bútækni

20. september 2010

Sjálfhreinsandi gúmmígólf í kálfastíur

Í Svíþjóð hefur um árabil verið í þróun gólfgerð fyrir búfé sem hreinsar sig sjálf. Þessi tæknilausn kallast ytra „Moving floor“ en á íslensku myndum við líklega kalla þetta sjálfhreinsandi gólf fyrir geldneyti. Hugmyndin byggist á því að undir gripunum er færiband sem fer af stað á fyrirfram gefnum tímum. Við enda stíunnar er skafa sem skefur skít og annað af færibandinu, sem svo eðlilega fer í hring og kemur hreint undir gripina á ný.

 

Kerfið er í raun sára einfalt (sjá mynd). Stían er sett upp og hönnuð líkt og heyhleðsluvagn en í stað keðju og þverbita er notað gúmmífæriband af breiðustu gerð. Stærð stíunnar takmark ast af breidd gúmmí gólfsins, en algeng stíustærð er 2×4 metrar og er rafmagnsnotkunin fyrir slíkt gólf með verksmiðjustillingum um 250 kWh á ári til þess að halda gólfinu hreinu (u.þ.b. 1.000 Íkr).

Samkvæmt niðurstöðum JTI (Bútæknideildarinnar í Svíþjóð) venjast kálfar þessu skjótt og læra einfaldlega að „ganga“ á móti hreyfingunni. Þá var sérstaklega skoðuð legutíðni og leguhegðun en ekkert marktækt samband fannst á milli leguatferlisins og keyrslutíma gólfsins, sem bendir sterklega til þess að hreyfingin hafi a.m.k. ekki haft veruleg neikvæð áhrif á kálfana. Kerfið sjálft virkar þó ekki nema með því að nota samhliða undirburð sem einnig skammtast sjálfvirkt. Þetta gerist með afar einföldum hætti en fyrir miðri endaeiningunni er staðsett 25 cm breitt plaströr í 4-5 cm fjarlægð frá gúmmígólfinu. Rörið er svo fyllt með sagi og þegar gólfið fer af stað, dregst sagið úr rörinu og myndar rás á miðju gólfinu. Kálfarnir dreifa svo sjálfir úr saginu! Þess ber þó að geta að í skoðun JTI á þessu undirburðarkerfi var notkun á sagi allveruleg.

 

Heimildir: www.movingfloor.se og www.jti.se

 

Snorri Sigurðsson, Landbúnaðarháskóla Íslands