Flokkar: Bútækni
5. nóvember 2007

Rétt lýsing í fjósum!

Athugun var gerð um lýsingu í fjósum í Danmörku. Athugunin sýndi að þrátt fyrir að notuð var full lýsing í fjósum náði lýsingin ekki þeim 100 lux sem mælt er með. Flestir slökkva ljósin þannig að bara er næturlýsing strax eftir kvöldmjaltir, eða um kl 18. Það þýðir að það aðeins eru um 12 klst í sólarhring með fullri lýsingu í fjósunum. Það er afar mikilvægt að næg lýsing sé þannig að kýrnar hafi gagn af því. Þegar lýsing er sem mest í fjósum á hún að vera um 100 lux, en hún á aldrei að vera minni en 10 lux. Til þess að ná sem bestum árangri í fjósum, það er hárri nyt og góðri frjósemi, hafa margar athuganir sýnt að mjólkandi kýr þurfa 16-18 klst í góðri lýsingu og 6-8 klst í lítilli lýsingu.

 

Margar kannanir sýna að góð lýsing í fjósum hefur jákvæð áhrif á dýravelferð og framleiðslu. Nýlegar bandarískar athuganir hafa leitt í ljós hækkun á nyt um 2,5 kg/dag með því að lengja birtutímann frá 12 klst í 16 klst á sólarhring. Einnig batnar frjósemin og heilsufarið. Lýsingin á að vera minnst 100 lux í eins metra hæð til þess að ná þessum árangri. Ef lýsing er meira en 18 klst á sólarhring í fjósum hefur það neikvæð áhrif á framleiðslu þar sem kýrnar þurfa 6-8 klst í lítilli birtu, um 10 lux.

 

Ástæðan fyrir jákvæðum áhrifum af breytingum á birtu í fjósum er melatónín seyti frá heilanum. Melatónín framleiðsla er hindruð af ljósi sem þýðir að melatónín seyti er mikið í myrkri, því er melatónín innihald í blóði eðlilega mikið á nóttunni en litið á daginn. Melatónín hefur áhrif á dægursveiflu líkamans, eða “lífsklukku” og hefur einnig áhrif á mjólkurframleiðslu, frjósemi og almennt heilbrigði. Almennur þroski, júgurþroski og hvenær kvígur verða kynþroska er undir áhrifum dagslengdar. Hjá kvígum og geldkúm sjást jákvæð áhrif á mjólkurframleiðslu í næsta mjaltaskeiði eftir að lýsing í fjósum hefur verið breytt þannig að lítil birta er átta tíma á sólarhring síðustu tvo mánuði fyrir burð.

 

Athugun á þessum 10 búum í Danmörku var gerð til þess að sjá hvort það sem mælt er með, skili því sem til er ætlast. Markmiðið með verkefninu er að skoða hvort hægt er að auka mjólkurframleiðslu með því að stýra lýsingu betur en gert er, og hvort möguleiki er fyrir að lækka rafmagnskostnað á búunum.

 

Í flestum fjósum er hægt að ná lýsingu á 100 lux í dagsbirtu og frá ljósopum, en ljósopin eru stærst í nýjustu fjósunum. Yfir veturinn eru of fáar klst á sólarhring þar sem lýsingin er nægileg, þá nægir dagsbirtan ekki. Þrátt fyrir rafmagnsljós í flestum fjósum næst ekki 100 lux. Fæstir eru með nægja lýsingu í 16 klst, en könnunin sýndi að það hefur jákvæð fjárhagsleg áhrif að bæta lýsinguna í fjósunum og fara eftir því sem mælt er með. Einnig er mælt með að næturlýsing sé á þann veg að kveikt er á mörgum lömpum, en að ljósstyrkurinn í þeim verður lækkaður þannig að birtan dreifist og verður ekki mikil á örfáum stöðum og nánast engin á öðrum stöðum í fjósinu.

 

Á Íslandi eru viðmiðunargildi fyrir lýsingu í fjósum 400 lux í mjaltabásum og mjólkurhúsi, 200 lux í burðar- og meðhöndlunarstíum og þar sem mjólkað er á básum, 100 lux á legusvæði, fóðurgangi og kálfastíum og að næturlýsing þurfi að vera um það bil 3 lux. Þetta kemur fram í aðbúnaðarreglugerðinni. Aðbúnaðarreglugerðin er t.d. að finna í Handbók mjólkurframleiðandans sem Auðhumla sendi til sinna félagsmanna sl. sumar og á Netinu, slóðina er að finna hér.

Heimild: FarmTest – Bygninger nr 32, höfundar eru Carina Jørgensen og  Jan Brøgger Rasmussen.
ENG