Mjaltavélar á breytingaskeiði

Flokkar: Mjaltatækni og bútækni
6. desember 2004

Mjaltavélar á breytingaskeiði

Ég er oft spurður ráða um endurnýjun mjaltabúnaðar og hvort mér finnist að endurnýjunar sé þörf. Því verður ekki svarað nema að gefnum ákveðnum forsendum. Ef þér gengur vel með þann búnað sem þú notar í dag júgurheilbrigði er gott þú sættir þig við vinnuaðstöðuna og þann tíma sem í mjaltirnar fer, þá er í raun engin ástæða til breytinga bara breytinganna vegna.

 

Mörg dæmi eru um bændur sem mjólka með 75 m.l. mjaltatækjum og gengur ágætlega. Mannlegi þátturinn vegur ætíð þungt þannig að hægt er með nostri, aðgætni og alúð við gripina að ná ágætis árangri með nánast hvaða búnaði sem er. Ég ítreka enn og aftur það sem ég hef áður sagt í greinaskrifum, ef þú ert góður/góð við kúna og aðbúnaður hennar er viðunandi þá er hún mun líklegri til að standast ýmiskonar álag sem getur valdið hækkun frumutölu heldur en kýr sem er hrædd við þig vegna framkomu þinnar svo ekki sé talað um ef henni líður í ofanálag illa vegna bágs aðbúnaðar. Þetta er borðleggjandi.

 

Fjölmargir aðrir þættir geta haft bein og óbein áhrif á júgurheilbrigði s.s. mjaltavélin, innréttingar og uppeldisaðstæður ungviðisins þ.m.t. sog ungkálfa og jafnvel eldri gripa.

En ég ætla hér að að fjalla aðeins um mjaltavélarnar. Áhætta við vélmjaltir er all nokkur og búnaður til mjalta mis heppilegur með júgurheilsu kýrinnar í huga. Hægt er með mörgu móti að draga úr áhættu vélmjalta og lágmarka álag á kúna og mun ég hér reyna að stikla stórum á helstu kostum og ókostum algengustu gerða mjaltakerfa hérlendis og þá hvað hægt sé að bæta með tilliti til júgurheilbrigðis.

 

Vélfötukerfið er kúnni trúlega afar hagstætt þar fer saman lág soghæð, rétt tog á mjaltatækin með tilfærslu fötunnar fram í básinn og nokkuð er nostrað við kúnna undir mjöltum þannig að kýrin fær meira traust á mjaltafólki og verður rólegri. Þetta hef ég oft séð í eldri fjósum. Fötukerfið er hins vegar manninum afar erfitt vegna burðar með þungar föturnar fram í mjólkurhús auk þess sem hætta á gerlamengun mjólkurinnar er meiri en í lokuðu mjaltakerfi sé það rétt þrifið. Áríðandi er þó þegar fötur eru tengdar rörmjaltakerfi við mjaltir nýbæra og meðhöndlaðra kúa að lækka sog við spenaenda með því að hafa balanslóð í fötulokinu, lóðið færðu hjá næsta mjólkureftirlitsmanni.

 

Á eftir vélfötunni fundu menn upp rörmjaltakerfið og um svipað leyti kútakerfið og mjaltagryfjuna.Hálínu rörmjaltakerfið var framleitt með þægindi mannsins í huga og með hugsun um minni mengun mjólkurinnar. Mín skoðun er sú að þarna steingleymdu menn kúnni og hennar líðan. Sökum þess hve hátt þarf að draga mjólkina upp mjólkurslönguna verður soghæðin að vera nokkuð há eða um 48 kpa á kerfinu sem þýðir um 44 kpa soghæð við spenaenda. Sogsveiflur eru tíðar og flutningsgeta kerfisins fyrir fljótmjólka kú er alls kostar ófullnægjandi sér í lagi þar sem hámjólka kýr eru mjólkaðar á sama tíma þá sjáum við bæði tæki, slöngur og kerfið næst kúnni sem mjólkuð er standa fullt af mjólk oft í mjaltatímanum.

 

Nú í seinni tíð hef ég  reynt að krafsa í bakkann með því að fá bóndann til að breyta gamla rörmjaltakerfinu ef það er ekki í umræðunni að afleggja það með öllu fyrir nýrri og skepnuvænni búnað s.s. mjaltabás og láglínukerfi manninum til hagsbóta líkamlega séð og kúnni til hagsbóta með tilliti til áhættuminni mjalta og minna álags á júgur og spena. Þetta kostar stórfé sem of lítið er af í bændastétt þannig að stungið er uppá atriðum til hressingar á gamla rörmjaltakerfinu.

 

Eftirfarandi mundi gera mikið gagn ef við hugsum um júgurheilbrigði kýrinnar og þú vilt hressa uppá gamla rörmjaltakerfið. Fullvissaðu þig um að sogskiptarnir séu í fullkomnu lagi, þeir eru heili mjaltana vinni þeir vitlaust er voðinn vís. Gerðu aldrei spenagúmmíin of gömul 2200 – 2400 mjaltir er hæfilegt ef þvottur er góður. Leggðu þau aldrei í klór hann eyðileggur þau. Notaðu spenagúmmí sem henta flestum kúm í þínu fjósi. Ekki kaupa bara eitthvað. Sértu ekki þegar búinn að því þá skiptu gamla lóð-sogjafnanum út fyrir nákvæman membrusogjafna. Ef þú ert með þungu mjaltakrossana þá fáðu þér rýmra og léttara mjaltatæki.

 

Þróun mjaltatækja flestra tækjaframleiðenda er á þá vegu. Tæki sem rúmar yfir 400 ml stendur síður fullt af mjólk en gömlu 75 og 150 ml tækin því oft er þetta mjög stuttur tími sem sú hætta er fyrir hendi aðallega á annari til fjórðu mínútu eftir ásetu. Til þess að þetta komi að fullum notum þarf oftast að skipta út mjólkurkrönum sem eru oftast of grannir á eldri kerfum.

Þeir ættu að hafa sem mest innanmál eða allt að 16 m.m  eftir gerð mjaltatækis og það sama gildir um löngu mjólkurslönguna. Látið yfirfara og lagfæra halla kerfisins þannig að það halli að mjólkurhúsi um lágmark 0,5 cm á hvern lengdarmeter. Látið hringtengja bæði mjólkur og soglögn (tvo inntaksstúta í mjólkurskila) ef það er ekki þegar þannig lagt. Þetta er gríðarlega áríðandi vegna flutnings mjólkurinnar frá kúnni og vegna gangöryggis sogskiptana.Látið mæla sogkrana skiptið um og setjið afkastameiri krana ef þeir gömlu skila minna en 70 lítrum við 1 kpa fall soghæðar, helst ætti þetta að vera þannig að soghæð félli minna en 5 kpa við 150 lítra innrennsli lofts. Þetta mæla mjólkureftirlitsmenn  eða þjónustumenn mjaltakerfa fyrir ykkur með ánægju trúi ég. Þá ertu kominn með eins gott rörmjaltakerfi og hægt er án óheyrilegs kostnaðar.

 

Það sem á undan er talið á við um flest allar gerðir mjaltakerfa. Hvað varðar kútakerfin (í mjaltagryfju) þá eru þau að því leyti betri en rörmjaltakerfin að mjólkað er með lægri soghæð og sveiflur í mjaltasogi eru minni ekki síst vegna þess að mjólkin fer ekki beint í granna lögn heldur safnkút sem hefur mikið rými. Engu að síður þarf að toga mjólkina upp þar sem efri hluti kútsins stendur um 1 meter ofar júgri kýrinnar en þangað rennur mjólkin frá mjaltatækinu.

Stór ókostur er einnig hve erfitt er að koma á ákveðinni og oft breytilegri mjaltaröð  s.s. vegna júgurbógu, lyfjameðhöndlunar, geldingar eða broddmjólkur. Þetta bíður heim hættu á smiti milli gripa og að lyfjarestar úr meðhöndluðum gripum mengi mjólkina og valdi þannig tjóni fyrir afurðarstöðina og  bóndann.

 

Hvað varðar endurbætur á kútakerfum þá mætti að sjálfsögðu skipta um mjaltatæki eins og áður er getið en sé verið að huga að verulega gagnlegum endurbótum þá ráðlegg ég einfaldlega að leggja kerfið af  því gryfjan er fyrir hendi þannig að styttra er í láglínukerfi kostnaðarlega séð. Það breytir þó engu um valda mjaltaröð eins og gefur að skilja.

 

Það dylst engum sem hingað eru komnir í lestrinum að mjaltagryfja og láglínumjaltakerfi er sú gerð mjaltakerfis sem ég mundi velja væri ég kúabóndi. Ég tel að samkeppni sú sem nú er á markaðnum geri orðið fleiri bændum kleift að fjárfesta í láglínukerfi og byggja mjaltabás.

3-4 tegundir láglínukerfa eru nú fáanlegar á hinum íslenska markaði allt ágætis búnaður með örlítið mismunandi útfærslum.

 

Svo komum við að nýjustu uppfinningunni  þ.e. mjaltavélmenninu svokallaða. Þar verður fátt um svör því ég veit alltof lítið um þann búnað til að fara að gefa nokkur ráð hvað hann varðar.

Það virðist þó sem kannanir Norðmanna bendi til þess að mjólkurgæði með tilliti til frumu og gerlatölu sérstaklega versni í það minnsta til skamms tíma litið. Ég vil þó segja þetta, við munum fylgjast glöggt með þeim stórhuga bændum sem riðu á vaðið og læra af reynslu þeirra næstu tvö árin eða svo og hlusta eftir skoðunum þeirra að þeim tíma liðnum. Það verður þó að benda á þá staðreynd að annar mjaltavélarisi De-laval kynnti nýlega ámóta grip og Lely jafnvel betri að þeirra áliti þannig að samkeppni þeirra hlýtur að leiða af sér verðlækkun og betri grip þeim kaupendum til hagsbóta sem á eftir koma.

 

Með von um að greinin hafa gagnast einhverjum.

 

Jan. 1999

Kristján Gunnarsson