Flokkar: Bútækni
23. október 2008

Legubásinn 50 ára!

Mjólkurframleiðsla í lausagöngu fer nánast eingöngu fram í dag í legubásafjósum, en þessi uppfinning er þó ekki nema rétt rúmlega 50 ára gömul.

 

Fram til ársins 1957 var legubás óþekkt lausn í fjósum. Þeir bændur sem voru með nautgripi í lausagöngu voru allir með þá annaðhvort á taði og/eða á hálmdýnu, en eins og þekkt er krefjast slík kerfi töluverðs magns undirburðar svo þau virki vel. Þá þóttu og þykja enn slík kerfi vinnufrek, bæði við söfnun á hálmi, meðhöndlun hans, útmokstur og nýtingu. Einn þeirra sem var í þessari stöðu á síðustu öld var breskur kúabóndi, Bramley að nafni. Kýrnar hans gengu á taði og vildi hann leita leiða til þess að minnka notkun á undirburði.

 

Frauðgúmmímottur

Fyrsta tilraun Bramley var að skipta út taðinu með sk. frauðgúmmímottum. Um reynslu sína skrifaði hann í tímaritagrein þar sem hann lofaði notkun á mottunum en gat þess þó að kýrnar yrðu of skítugar við slíkar aðstæður. Hann ákvað því að reyna að útbúa aðstöðu þar sem hann gæti stýrt legu kúnna betur og þar með náð betur að stjórna því hvar skíturinn myndi lenda. Niðurstaðan var sú að veturinn 1957/1958 varð fyrsta legubásakerfið til. Þessir fyrstu legubásar voru gerðir út timbri og fram kemur í tímaritsgreininni að fyrsta árið þróaði hann nánast stöðugt þessa hugmynd sína með betrumbætur í huga. Þannig var það mikilvægt að hanna bás þar sem kýrnar gátu legið án hindrana, en þó þannig að þær gætu ekki lagt frá sér í básana. Veturinn á eftir útfærði hann hugmyndina með því að byggja básana úr stálgrindum og virkaði sú lausn mun betur. Þá gat hann þess sérstaklega að hann taldi eina af ástæðum þess að kýrnar voru svona ánægðar með kerfið var að hann notaði gúmmímottur í botn legubásanna.

 

Þessir básar litu ekki út eins og þeir gera í dag. Ekkert hnakkarör var í þeim og framhliðarnar mikið til lokaðar, þó ekki meira en svo að kýrnar gátu sett höfuðið út um framhliðarnar þegar þær stóðu á fætur. Yfir innganginum í básana var jafnframt þverliggjandi rör til styrktar innréttingunum.

 

Bandarískir bændur taka af skarið

Mikill áhugi var meðal bænda á þessari uppfinningu, en eins og oft er með nýjungar voru bæði áhugi til staðar sem og efasemdir. Lausnir Bramley voru teknar upp af mörgum og var honum m.a. boðið til Bandaríkjanna til þess að kynna þessa uppfinningu sína, en á þessum tíma hafði verið sett bann í nokkrum fylkjum þarlendis við mjólkurframleiðslu á taði vegna þess hve sóðaleg sú framleiðsla var. Bandarískir bændur voru því hungraðir í nýjar lausnir. Þessi staðreynd var líklega ástæða þess að þegar veturinn 1959/1960 var komið legubásafjós hjá kúabóndanum Adolf Oien í Washington fylki. Rétt er að vekja athygli á því að Adolf þessi fær allan heiðurinn af legubásauppfinningunni í bandarískum heimildum og fær enn í dag. Útfærsla Adolfs þessa á legubásunum var þannig að básamilligerðið var úr þéttum við og notaði hann svo hálm sem undirlag. Á næstu þremur til fjórum árum var gríðarlega mikil þróun í útfærslum á legubásum í fjósum, þar sem m.a. hnakkarör og opnari básamilligerðir voru fundnar upp. Upp úr þessu var legubásahugmyndin aftur í raun flutt til Evrópu og varð útbreiðsla legubásafjósa í Hollandi veruleg á þessum tíma. Allt fram yfir 1970 hélt töluvert ör þróun áfram á þessari upphaflegu hugmynd Bramley, þó fyrst og fremst varðandi hönnun fjóssins sjálfs – hönnun fjóss í kringum legubásahugmyndina. Legubásinn hafði þannig veruleg áhrif á þróun fjósbygginga, sér í lagi fyrir stærri búin.

 

Opnari innréttingar

Legubásar eru enn í stöðugri þróun og ef litið er til þróunar til lengri tíma, verða innréttingar framtíðarinnar enn opnari en nú eru. Þannig er verið að vinna að rannsóknum í dag á sveigjanlegum milligerðum og hnakkarörum. Í dag, 50 árum eftir að legubásinn leit dagsins ljós, hefur hann líklega aldrei haft jafn mikla þýðingu. Þannig er t.d. nauðsynlegt að hafa legubása í fjósum með mjaltaþjónum því ella verða kýrnar ekki nógu hreinar fyrir hárnákvæmann búnaðinn. Þá er jafnljóst að framtíðarkröfur um aðbúnað gripa og hönnun fjósa miðar að því að horfa frá uppbundnum kúm og þess í stað lausagöngu.

 

 

Eftirfarandi grein birtist í tímaritinu Buskap (6/08) og er eftir Lars Erik Ruud, bútækniráðunaut í Noregi, hér í þýðingu og endursögn Snorra Sigurðssonar á Hvanneyri.