Kýr vilja þurr og stöm gangsvæði !

Flokkar: Bútækni
3. september 2003

Kýr vilja þurr og stöm gangsvæði !

Kýr vilja þurr og stöm gangsvæði !

 

 

Kýr eiga að geta ferðast um innan fjóss án óþæginda og án þess að lenda í þrengslum.

 

Kýrnar eiga fyrst og fremst að hafa nóg pláss. Af þeim sökum er einmitt mælt með því að gangar og önnur sambærileg svæði í nýjum legubásafjósum séu að lágmarki 4 fermetrar á hverja kú. Engir gangar ættu að enda sem botnlangar þar sem það getur valdið vandræðum fyrir lágt settar kýr í fjósinu. Ef undankomuleið er í enda hvers gangs munu kýr, sem eru minna metnar innan viðkomandi kúahjarðar, eiga möguleika á að forðast árekstra við “hærra settar kýr”.

 

Gallinn við það að hafa breiða ganga er sá að það kallar á sértækar lausnir t.d. við þrif, enda erfitt að halda rimlagólfum hreinum ef umferð kúa á hvern fermeter þeirra er í lágmarki. Traðk kúnna sér til þess að mykjan fer niður á milli rimlanna og því er nauðsynlegt að hafa álagið passlega mikið þar sem rimlar eru, ella verður fljótt sóðalegt. Þessi staðreynd hefur í seinni tíð ýtt undir þróun með opna flóra í gangsvæðum legubásafjósa.

 

Opnir flórar – betri gólf

Þegar opnir flórar voru hannaðir hér áður fyrr, voru það oftast peningalegar ástæður sem ráku bændurna áfram til að velja slíka lausn. Nú eru það hinsvegar fleiri og fleiri sem kjósa þessa gólfgerð vegna vissu um að þau séu einfaldlega hentugari fyrir kýrnar að ganga á.

 

Þurr gólf

Óháð því hvort maður velur rimlagólf eða opna flóra, þá þarf gólfið að vera þurrt og hreint. Þetta mun í auknum mæli kalla á flórsköfukerfi í framtíðinni. Flórsköfur eru að sjálfsögðu hluti af opnum flórum, en munu í vaxandi mæli sjást jafnframt í fjósum með rimlagólf og dæmi um það er hið nýja fjós á Hvanneyri sem er í byggingu.

 

Vel hannaðir opnir flórar, með affalli fyrir vatn og hland, geta auðveldlega haldist þurrir og hreinir. Jafnvel þekkjast dæmi um að gólfin verði of þurr og skítur hreinlega festist á gólfin vegna þess. Við þessu er hægt að bregðast eins og síðar kemur fram.

 

Stöm gólf

Öll gangsvæði kúa þurfa að vera stöm. Venjulega er það ekkert vandamál þar sem um rimlagólf er að ræða, en góður árangur þess að hafa opinn flór stendur og fellur með því hvort tekst að halda gólfinu stömu. Síðustu ár hafa verið gerðar fjölmargar tilraunir erlendis til að útbúa munstur í þessa opnu flóra til að halda þeim stömum. Besta lausnin er að útbúa mót/stimpil sem þrykkir munstri í blauta steypuna. Þessi aðferð og/eða útfærsla á henni hefur reynst vel og á að geta tryggt það að gólfið verður stamt og þægilegt fyrir kýrnar að ganga á.

 

Önnur aðferð en að mynstra steypuna í opnum flórum er að setja asfalt á flórana. Þessi aðferð er mörgum þátttakendum í bændaferðum á Agromek vel kunnug og sést í vaxandi mæli í fjósum erlendis. Asfalt þetta er einskonar malbik, en hérlendis hefur enginn boðið upp á þessa góðu aðferð fyrr en í ár, er fyrirtækið Malbikun KM ehf. á Akureyri byrjaði á því nú í september (árið 2003). Efnið hefur þá eiginleika að það verður aldrei hált eins og steypan verður með tímanum. Það er sett á mjög heitt og leggst gríðarlega vel í allar misfellur og myndar jafnt og gott yfirborð. Ef upp úr því heggst með tímanum eða vegna óhapps, þá er einfalt að draga upp gaslampann og hita viðkomandi stað upp sem þá rennur saman á ný. Efnið er sérstaklega blandað fyrir þessa notkun og á í raun ekkert skylt við hefðbundið malbik, sem hentar enganvegin í fjós.

 

Þriðja aðferðin er að draga strákúst eftir blautri steypunni og útbúa með því fjölmargar fínlegar rákir. Þessar rákir gera steypuna stama, en geta slitnað niður á nokkrum árum.

 

Forsteypt gólf

Það nýjasta innan gólfgerða eru forsteyptar einingar, sem eru munstraðar beint frá framleiðanda. Einingar sem þessar eru mjög hentugar og gólfin uppfylla allar þekktar kröfur sem kýr gera til gólfa.

 

Forsteyptar einingar geta, eðli málsins samkvæmt, verið steyptar eftir vilja hvers og eins s.s. með halla inn að miðju þannig að hland og vatn renni alltaf frá básendunum. Slík hönnun skilar sér í hreinni skepnum þar sem halar kúnna ná ekki að liggja í forinni. Þá er hægt að fá slíkar einingar með áföstum affallsrörum undir miðju gólfinu. Rörin gegna þá bæði hlutverki affalls fyrir hland og mykju, en einnig er þar pláss fyrir rennurnar sem sköfukerfið keyrir eftir (ef um slík kerfi er að ræða). Rörunum er svo haldið hreinum með sérstöku skolkerfi og/eða lítilli plötu sem skefur rörin um leið og sköfukerfið keyrir.

 

Gömul og hál gólf

Steypa slitnar með árunum og í fjósum sem nokkuð eru komin til ára sinna, má sjá augljós dæmi um slíkt með hálum gólfum bæði þar sem eru rimlar og/eða opnir flórar. Gerðar hafa verið fjölmargar athuganir á því hvernig hægt sé að gera við slík gólf og eru helst tvær aðferðir sem standa upp úr.

 

Sú fyrri er að höggva upp yfirborðið með sérstakri vél. Með þessari aðferð eru fjarlægðir örfáir millimetrar af yfirborði steypunnar og gólfið verður eftir það sem nýtt, stamt og fínt.

 

Hin aðferðin er að setja gúmmímottur ofan á viðkomandi gólf. Í dag fást margar gerðir af gúmmímottum með rifum í af mismunandi breidd, sem passa beint ofan á rimlagólfin. Með þessari aðferð verða gólfin stöm, þar sem klaufirnar síga örlítið niður í yfirborð gúmmíinsins og ná þar með festu. Sambærilegar lausnir eru til fyrir opna flóra.

 

Sköfukerfin

Tryggja þarf að sköfukerfin geti skafið gólf sem halla inn að miðju. Sum kerfanna eru spildregin, en algengast er að stokkur liggi eftir miðju gólfi sem ýtir sköfunum áfram. Ekki er ástæða til að fella þennan stokk niður í gólfið, en þó getur verið kostur að gera slíkt til að gera gólfið sléttara fyrir kýrnar. Mjög mikilvægt er þá að steypuvinnan sé mjög vel unnin og af fagmönnum.

 

Stillingar á sköfukerfunum geta verið mjög ólíkar, en hver og einn þarf að finna rétta sköfutíðni hjá sér. Eins og áður hefur komið fram er mikilvægt að vatn og hland renni frá básendunum til að halda þeim svæðum þurrum. Þó getur verið kostur að hafa raka á gólfunum fyrir sköfukerfin, til að minnka líkur á því að þau smyrji út mykjunni í stað þess að skafa hana burt. Af þessum sökum hefur verið mælt með því að munstra gólfin (raki helst í rifunum) eða kústa blauta steypuna samsíða flórnum. Raki liggur þá í örfínum rifunum sem eykur líkur á góðum árangri sköfukerfisins.

 

Nýjir flórar

Samandregin niðurstaða er þessi:

  • Opnir flórar eiga ekki að halla eftir endilöngu, en gjarnan frá básendum og inn að miðju (1 cm/meter nóg). Tryggja þarf að sköfukerfið geti skafið gólf sem hallar inn að miðju.

 

  • Vanda þarf mjög vel til steypuvinnunnar, þar sem með henni er lagður grunnur að framtíðarendingu flórsins. Huga þarf að því hvort fella eigi niður í flórinn fasta hluta sköfukerfisins. Velta má fyrir sér hvort kostur sé að nota forsteyptar einingar.

 

  • Kostur er að setja munstur í steypuna með þar til gerðum mótum/stimplum en a.m.k. að tryggja að yfirborð flórsins sé stamt. Það má t.d. gera með því að draga strákúst eftir yfirborði steypunnar samsíða flórnum og þar með gangi sköfukerfisins.

 

  • Setja má dren undir flórinn miðjan til að taka við vatni og hlandi, en mikilvægt er þá að hugsa fyrir hreinsun slíkra lagna.

 

Snorri Sigurðsson, LK. Byggt að hluta til á grein eftir Helge Kromann úr Boviologisk 8/03.

 

Frekari upplýsingar má lesa á vef dönsku ráðunautaþjónustunnar. Smelltu hér til að lesa um rannsókn á gólfgerðum (er á dönsku).