Kýr eiga ekki að standa í legubásum!

Flokkar: Bútækni og bústjórn
8. desember 2009

Kýr eiga ekki að standa í legubásum!

Þegar kýr liggja á vel hönnuðum og mjúkum básum er blóðflæðið til júgursins gott og samhliða er góð nýting á orku til mjólkurframleiðslu. Þessu er þveröfugt farið með kýr sem standa langtímum saman og því er það eitt af aðalmarkmiðum með hönnun fjósa að útbúa þau með þeim hætti að kýr geti legið og það sem lengst.

 

Legutími kúa getur verið afar breytilegur og koma þar til ýmsir áhrifaþættir s.s. hönnun básanna sjálfra, aðgengi kúnna að básunum, fóðri og vatni auk þéttleika í fjósi. Allir þessir þættir skipta máli og má nefna sem dæmi að þar sem fáir staðir eru til brynninga fyrir kýrnar styttist legutíminn. Í hinum fullkomna heimi hönnunar er oft miðað við að kýr eigi að liggja 70% tímans. Þetta markmið næst líklega ekki alltaf, en afar gott er að hafa þetta til viðmiðunar. Góð aðferð fyrir bændur, til að meta aðbúnað í sínum fjósum, er að telja kýr sem standa uppi í legubásum á hverjum tíma. Ef margar kýr standa í legubásunum er ástandið í fjósinu ekki eðlilegt og bendir það til hönnunargalla í nærumhverfi þeirra. Góð þumalfingurregla er að miða við eina mínútu í stöðu, þ.e. það á ekki að taka kýr lengri tíma en eina mínútu að leggjast niður. Ef það tekur lengri tíma, þurfa kýrnar greinilega lengri undirbúningstíma til að finna rétta stöðu áður en þær leggjast sem bendir til að eitthvað er að í umhverfinu.

 

Við skoðun á 20 nýlega byggðum fjósum hérlendis, árið 2008, kom í ljós að mjög oft var mikið vandamál varðandi þennan þátt í fjósunum. Margir bændur höfðu t.d. stillt herðakambsslána aftarlega og þannig tryggt að kýrnar voru tiltölulega hreinar (liggja aftarlega), en í staðinn áttu þær erfitt með að leggjast í básana (hætta á spenastigi). Aðrir voru einfaldlega með allt of stutta bása sem gerir það að verkum að kýrnar eru mjög lengi að leggjast niður.

 

Það er einnig ágæt aðferð, til að meta aðbúnað kúa, að fylgjast með því hvernig þær haga sér í legubásnum. Ef þær eru fljótar að stíga út úr legubásunum þegar þær eru reknar upp, bendir það til þess að þeir séu litlir. Einnig má hafa til viðkomiðunar ef kýrnar standa skáhalt í legubásunum og/eða liggja þannig, að þá er líklegt að þeir séu of litlir.

 

Önnur góð erlend vinnuregla við mat á hönnun legubása er að horfa á skítinn. Við venjulega dreifingu á stærð kúa ættu u.þ.b. 20% kúnna að vera það litlar að þær skíta upp í legubásana (þ.e. skítur í fimmta hverjum legubás). Alþekkt er hér á landi að mikill munur er á stærð kúa innan sömu hjarðar. Síðast þegar kýrnar á Hvanneyri voru vigtaðar kom þessi breytileiki vel í ljós. Meðalþunginn var um 520 kíló en léttustu kýrnar í kringum 400 kíló á meðan þær þyngstu voru um og yfir 650 kíló. Þetta þýðir í raun að stærðarmunur á kúnum er mjög mikill og því er eðlilega erfitt að ganga þannig frá legubásunum að þeir passi öllum kúm. Hvað er þá til ráða? Jú það verður að hugsa um stærstu kýrnar, þær verða að komast fyrir á básunum. Vandi skapast þá með minni kýr, en það verður því miður ekki á allt kosið. Af þessu sögðu má leiða af því líkur að hérlendis fari meiri vinna í þrif á legubásum en gerist víða erlendis, þar sem kýr eru jafnari að stærð.

 

 

Að síðustu má nefna að ef margar kýr eru með nuddsár á hæklum, þá er eitthvað að. Nuddsár á hæklum koma fyrst og fremst fram ef kýrnar liggja ekki rétt, s.s. ef þær geta ekki lagst eðlilega niður og þurfa því að “hagræða sér” eftir að þær eru lagstar.

 

Snorri Sigurðsson

Frumkvöðla- og tækniþróunarsetrinu Sprota, Hvanneyri

 

Heimildir:

Båslengde og liggetid e. Ole Stene, Buskap 7/2009

Ástand nýbyggðra fjósa á Íslandi e. Snorra Sigurðsson, óbirt grein