Flokkar: Bútækni
12. október 2004

Kvígur settar á hótel

Kvígurnar sendar á “hótel” fyrir 130 kall á dag!

 

Í Danmörku tíðkast víða hjá kúabændum að senda frá sér kálfana í uppeldi hjá öðrum bændum. Þetta er oftast gert eftir að mjólkurfóðrunartímanum líkur. Jafnaðarverð er um 130 krónur á dag (11 dkr.) og fær bóndinn svo kvíguna til baka á ný þegar hún er 24 mánaða og er kvígan þá fengin og ætti að bera 2-3 mánuðum síðar. Þessa seinustu 2-3 mánuði er litið eftir henni á bænum. Hægt er að verðleggja svona kvígu, en í Danmörku fást um 1.500 dkr. fyrir 3ja mánaða kvígukálf. Við það bætast þá um 11 dkr/dag í 630 daga (21 mánuður x 30 dagar) og aukalega 3 mánuðir á sama verði á bænum. Samtals gerir þetta 9.500,- dkr. sem hægt er að líta á sem núvirði kvígunnar (um 115 þúsund íkr.).

 

Skorið niður strax

Danir leggja áherslu á að einungis heilbrigðar og frískar kvígur séu sendar í uppeldi annarsstaðar. Ekki borgar sig að senda kvígu sem hefur verið veik og er ekki búinn að ná sér, hún verður aldrei að góðri kú. Mikilvægt er að eiga góðar kvígur sem geta komið í stað gamalla og úr sér genginna kúa, en dönsku ráðunautarnir brýna fyrir sínum bændum að eiga ekki fleiri kvígur en viðkomandi hefur not fyrir, því það lækkar markaðsverðið á kvígum. Ef bústofninn er heilbrigður og frískur, og ekki stendur til að stækka hann í nánustu framtíð, hafa bændur ekki þörf á að eiga margar kvígur og eiga því að losa sig við þær.

 

Frekari sparnaðarleiðir

Með því að lækka aldur kvíga við burð úr 27 mánuðum í 24 mánaða telja Danir að hægt sé að spara ennfrekar uþb. 1.000,- dkr. á hverja kvígu. Þetta hefur í för með sér sparnað upp á 30.000,- dkr. eða 45.000,- dkr. Ef endurnýjunarhlutfallið er 30% annarsvegar og 45% hinsvegar. Miklu máli skiptir því í þessu sambandi hvert endurnýjunarhlutfallið er hjá viðkomandi aðila, en Danir telja að stefna beri að 30% endurnýjunarhlutfalli. Það hlutfall eigi að nægja til að standa undir endurnýjunarþörf bústofnsins. Hérlendis er þetta hlutfall að jafnaði mun hærra. Þá benda Danir á að vel alin kvíga framleiði meiri mjólk, eða allt að þremur kílóum meira á dag. Vel alin kvíga skili mun hærri framlegð og þegar allt er lagt saman sem hér að framan er getið, þá geti bóndi sem sendir kvígur í eldi annarsstaðar, með 30% endurnýjunarhlutfall, og með mjög vel aldar kvígur hækkað framlegð 100 kúa bús um allt að 480 þúsund íkr. á ári.

 

Helstu forsendur þessara dönsku útreikninga: Vinnutími: 30 tímar á hverja árskú, 6 tímar á kvígu/kálf á ári. Framlegð pr. kíló mjólkur 1,30 dkr. (uþb. 15,2 íkr./kg.). Smákálfur kostar 1.000,- dkr. (2 vikna) og 1.500,- dkr. (10 vikna). Hægt er að kaupa kvígu með fangi á 7.000,- dkr. á markaði. Sláturvirði kúa um 3.500,- dkr. Uppeldiskostnaður pr. dag á “hóteli” 11,- dkr.

 

Snorri Sigurðsson

Endursagt úr Bovilogisk 12/03