Hvernig á að forðast tölvuvírusa

Flokkar: Bútækni
16. september 2003

Hvernig á að forðast tölvuvírusa

TÖLVUVÍRUSAR

 

Það er ástæða til að ætla að fleiri og fleiri bændur noti sína eigin tölvu og að þeim verkefnum fjölgi sem unnin eru í tölvu. Það er því full ástæða til að minna á nokkur atriði sem vert er að hafa í huga og lúta að tölvunotkuninni og hér að neðan verða gefin nokkur ráð um það hvernig á að forðast það að vírus komist inn í tölvuna.

 

Eins og flestir tölvunotendur vita gerði vírus mikinn usla í tölvum landsmanna fyrir nokkrum dögum. Því er ekki úr vegi að byrja á því að skoða aðeins nánar þessi mál. Það sem maður þarf fyrst og fremst að vita er hvernig tölvuvírus getur komist inn í og ráðist á tölvuna þína. Sú þekking gerir þig betur í stakk búin(n) til að grípa til viðeigandi aðgerða til að verja tölvuna gegn slíkum árásum. Helstu útbreiðsluleiðir tölvuvírusa eru:

 

Flytjanlegar diskettur:

Diskettur, geisladiskar (heimabrenndir geisladiskar eða diskar frá varhugaverðum dreifingaraðilum), og þjappaðir tónlistardiskar (til dæmis svokallaðir “zip”-diskar). Ef einhver þessara er sýktur, mun vírusinn dreifa sér til annarra tölva sem nýta þessa sömu diska.

 

Innra net:

Innra net samtengir tölvur (tvær eða fleiri). Hvaða tölva sem er tengd slíku innra neti (t.d. oft í fyrirtækjum) getur tengst öllum tölvunum í sama innra neti og sent gögn frá einni tölvu til annarrar. Ef einhver af þessum tölvum er sýkt, mun hún sjálfkrafa sýkja tölvuna sem tekur á móti. Á þennan hátt geta allar tölvurnar í slíku innra neti fengið vírus á mjög stuttum tíma.

 

Veraldarvefurinn (internetið):

Fólk nýtir sér veraldarvefinn í æ meira mæli til að verða sér úti um upplýsingar, senda og taka á móti tölvuskjölum og hlaða niður skjöl og forrit. Þetta byggist allt á tilfærslu á gögnum og tengslum á milli milljónir tölva um allan heim. Þetta þýðir í raun að þú getur jafn auðveldlega fengið vírus, rétt eins og gögn.

 

Vírus getur borist á milli á ýmsa vegu:

  • Tölvupóstur:Skrár og skjöl sem eru send og móttekin sem viðhengi við tölvupóst geta innihaldið vírus og þar með sýkt tölvu móttakanda.
  • Vefsíður: Þær vefsíður sem þú heimsækir á netinu geta oft innihaldið forrit eins og ActiveX, Controls og Java Applets. Þau geta verið sýkt og þar af leiðandi sent vírus í tölvu þess sem opnar síðuna.
  • Hleðsla á skjölum (t.d. FTP): Mögulegt er að flytja skjöl á milli tölva hvar sem er í heiminum í gegn um svokallaðan FTP-feril, og hlaða niður upplýsingum í þína eigin tölvu. Þessi skjöl sem eru sótt (á ensku: downloads) geta að sjálfsögðu einnig verið sýkt af vírus.
  • Fréttahópar: Þessi þjónusta gerir það mögulegt að taka þátt í umræðum við hvern sem er hvar sem er í heiminum, eða taka á móti fréttum um sjálfvalið efni með tölvupósti. Þessi fréttaskeyti geta innihaldið vírus sem sýkir tölvuna þína.

 

Að gefnu tilefni skal tekið fram að vefþjónn Landssambands kúabænda tryggir að þeir sem tengjast frétta- og umræðusíðunni á www.naut.is fái ekki senda vírusa!

 

Þýtt og endursagt úr BUSKAP 4/2003

Landssamband kúabænda