Flokkar: Bútækni
6. desember 2004

Gólf-asfalt

Framfaramál í höfn, gólf-asfalt á Íslandi.

 

Loksins býðst íslenskum bændum og öðrum gólf-asfalt hér (stöbe-asfalt) á fjós og önnur gólf þar sem menn kjósa að hafa stamt en samt mjúkt og slitsterkt efni.

Þeir sem farið hafa á landbúnaðarsýningar erlendis eins og Akromek og hafa í því sambandi eða öðru skoðað fjós, ný sem gömul t.d. í Danmörku og Þýskalandi hafa séð þetta frábæra gólfefni í allflestum fjósum þar sem gólfefni hefur verið lagt á síðustu 4-5 árum.

Þar er þetta efni oftast kallað stöbe-asfalt og bændur ytra virðast á einu máli um kosti þess.

 

Gólf-asfaltið hefur afar eftirsótta kosti og þá sér í lagi þá að efnið verður ekki hált og kúnum skrikar því ekki fótur vegna hálku og þar með er stress og hræðsla við að fara t.d. inní hála mjaltabása úr sögunni með væntanlega betra heilbrigði kýrinnar.

Efnið virkar mjúkt að ganga á því en er þó tiltölulega hart og slétt og gott er að þrífa það.

Það er ekki nauðsynlegt að undirlagið sem lagt er á sé þurrt þannig að undirbúningur við sýruhreinsun og þurrkun gólfsins í marga daga er úr sögunni, en þetta er auðvitað afar  mikill kostur þar sem fyrir vikið er í flestum tilfellum hægt að leggja efnið milli mála nema umfang gólfsins sé þeim mun meira.

 

Gólf-asfaltið er lagt afar heitt eða helmingi heitara en t.d. malbik u.þ.b. 230-270°C og það er venjulega lagt u.þ.b. 3 cm þykkt +/- 1 cm .

Það er nánast óbundið undirgólfinu vegna þess að sérstakur dúkur er lagður ofan á gamla gólfið sem skýrir hvers vegna ekki þarf að forvinna mikið fyrir lagningu asfaltsins.

Sérstakt þéttiefni er sett meðfram öllum veggjum og bríkum eða rörum sem asfaltið er lagt að svo síður komist vatn eða annað undir efnið.

 

Bindiefnið er asfalt og efnið því svart eða dökkgrátt. Engu að síður er asfaltið einnig víða lagt á mjólkurhúsgólf eða nánast hvar sem menn kjósa óhált og slitsterkt gólf og er það spá undirritaðs að gólf-asfalt á mjólkurhús verði vinsælt hérlendis þar sem ekki þarf að taka mjólkurhúsið úr notkun á meðan.

Ekkert er því til fyrirstöðu reglugerðarlega séð að þau gólf séu dökk, en veggir og loft skulu vera í ljósum lit..

Erlendis er þetta efni lagt á fjölda annarra staða en í útihús svo sem á verksmiðjugólf, bílageymslur, vélageymslur og innkeyrslur í fyrirtæki o.f.l..

Það efni sem lagt er í fjósum er sérblandað með tilliti til ágangs mykju og hlands og er í raun sýruhellt.

Trúlega mun fyrst um sinn verða algengast hérlendis að lagt sé á fjósstéttar, biðsvæði, gönguleiðir í legubásafjósum, mjaltabása og mjólkurhús.

 

Að mati undirritaðs og fjölda annarra sem skoðað hafa þetta efni og fræðst um kosti þess er hér á ferðinni yfirburðaefni þegar öryggi og heilsa kúnna er annars vegar og ekki skaðar að efnið skuli svo fljótlagt og slitsterkt.

Um verð asfaltsins á m2 ákomið fer það eftir stærð gólfsins og ástandi þess og eða fjölda þeirra gólfa sem hægt er að taka í sömu ferðinni vegna blöndunar efnisins og akstursvegalengdar en ljóst er að asfaltið er talsvert dýrara en ódýrustu efnin sem lögð hafa verið á fjós hérlendis en  ódýrara en þau dýrustu sem hingað til hafa verið lögð.

Það er þó mat undirritaðs að þeim peningum sé afar vel varið og ættu bændur að hugsa málið frá þeim sjónarhóli að verið er að kaupa forvarnir og þessar borga sig til baka.

 

Fyrsta fjósið á Íslandi sem gólf-asfaltið var lagt á er að Syðri-Bægisá í Öxnadal en þar hefur 70 ára gamalt fjós fengið verðskuldaða upplyftingu þar sem allur mjaltabúnaður, básar,  milligerði og gólf hafa verið endurnýjuð og er stórkostlegt að líta inní þetta fallega gamla en þó síunga fjós sem byggt var á sínum tíma af svo mikilli framsýni að með ólíkindum er.

Fjöldi bænda á Norðurlandi hafa pantað lagningu gólf-asfalts og vert er að geta þess að vegalengdir eru engin hindrun fyrir lagningu efnisins og munu því allir íslenskir bændur hvar sem er á landinu getað fengið þetta ágæta efni lagt og er það mat undirritaðs að hér sé loks í höfn stórt framfaramál í íslenskum kúabúskap síðustu ár sé horft til júgurheilbrigðis og almenns heilbrigði gripa yfirhöfuð
Í stuttu máli, ef gólf, stéttar eða flórar eru hál er nær öruggt að það kemur til þess að kúm skrikar fótur eða jafnvel detta flatar við aðstæður sem stundum skapast í fjósinu t.d. í æsingi sem oft verður þegar kýr eru yxna á leið út eða inn á hálum gönguleiðum og eins við inn og útgöngu úr mjaltabásum og þá hefur það oftar en ekki afdrifaríkar afleiðingar svo sem mar á júgri eða spenastig með í versta falli júgurbólgu sem oft er ílllæknanleg, og auk þess fer að bera á hræðslu og taugaveiklun viðkomandi kúa og annarra sem verða órólegri vegna hræðslu hinna kúnna.

Þetta getur því auðveldlega smitað út frá sér með sveifluáhrifum á frumutölu og varanlegum júgurskemmdum þeirra kúa sem dottið hafa vegna þess að gólf eru óörugg.

Séu bændur í alvöru að hugsa um forvarnir og öryggi sinna gripa þá er þarna komið yfirburðaefni á gólfin sem allir geta notað, það er eins og áður segir í dýrari kantinum en stendur fyllilega undir væntingum  þar sem góðar lausnir eru oft dýrari en happadrýgri þegar upp er staðið.

 

Það er fyrirtækið Malbikun KM ehf á Akureyri sem með mikilli áræðni féllst á að bjóða þetta efni hérlendis og hefur fest kaup á afar dýrum búnaði til verksins.

Eigendur fyrirtækisins eru hjónin Kristján Bergur Árnason og Margrét Stefánsdóttir og hægt er að fá upplýsingar um gólf-asfaltið í síma 892-8330 og 462-6066

 

 

Akureyri 23.sept. 2003

Kristján Gunnarsson  mjólkureftirlitsmaður Norðurmjólk.