Ertu að gefa rétt magn kjarnfóðurs?

Flokkar: Fóðrun, bútækni og bústjórn
29. mars 2004

Ertu að gefa rétt magn kjarnfóðurs?

 

Kjarnfóðurgjöfin er oft röng !

 

Kjarnfóðurgjafar (bæði handvirkir og sjálfvirkir) eru mikið notaðir í nútímafjósum. Innan við helmingur þessara bása gefur það magn kjarnfóðurs sem þeir eiga að gera. Það er einfalt að stjórna nákvæmninni, en oft erfitt að breyta stillingum á básunum.

 

Magn kjarnfóðurs, sem er skammtað með tölvustýringu, á að vera í samræmi við aðra fóðurgjöf innan búsins. Því er mikilvægt að kýrnar fái það magn kjarnfóðurs sem þær eiga að fá. Rannsókn, sem gerð var af Dansk Kvæg sumarið 2003, sýnir fram á að reyndin er allt önnur.

 

Mismunur á áætluðu magni og skömmtuðu magni.

Í rannsókninni skömmtuðu einungis 27%  handvirku skammtaranna (með snúru) það magn kjarnfóðurs sem var áætlað. Fyrir tölvustýrða fóðurbása var talan 48%.

Mismunurinn á milli áætlaðs og skammtaðs magns kjarnfóðurs getur verið mikill. Á meðal handvirku skammtaranna, sem áttu að gefa 500 g í einum skammti, var skammtað allt frá 313 g upp í 1.000 g. Líklegt má telja að fæstar kýr fái einn skammt í hverjum mjöltum. Á meðal tölvustýrðra fóðurbása, sem áttu að gefa 1.000 g í hverjum skammti, var skammtað allt frá 815 g og upp í 1.465 g.

 

Hvað þýðir þetta í raun?

Kýr, sem fá hálfu kílói minna af kjarnfóðri en þær eiga að fá, tvisvar á dag, bæta sér það upp með því að éta meira af gróffóðri. Þar sem gróffóðrið er ekki eins orkuríkt kemur það ekki í staðinn fyrir kjarnfóðrið. Fyrir meðalkúabú tapast um það bil ½ kg mjólkur á hverja kú á dag vegna minni mjólkurframleiðslu ef kýrnar fá kílói of lítið af kjarnfóðri  fóðurbásunum. Á móti kemur að of mikil kjarnfóðurgjöf gefur verri nýtingu á fóðrinu og hættu á lélegri vambarstarfsemi og fleiri heilbrigðisvandamálum. Það er sem sagt góð ástæða til að stjórna og stilla af kjarnfóðurskömmtunina.

 

Auðvelt að stjórna, erfitt að stilla.

Í mörgum handvirkum skömmturum með snúru er því miður ekki hægt að breyta stillingunni, og í nokkrum gerðum tölvustýrðra bása er það svo flókið að margir gefast upp fyrirfram. Það kom í ljós að stór hluti básanna gerðu nokkurnveginn sömu vitleysuna í hvert skipti. Það þýðir að básarnir gáfu alltaf jafn vitlaust.

Það besta væri auðvitað að það væri auðvelt að stilla básana, en sem annan kost þá er auðvelt að vigta hversu mikið fóðurbásarnir eru að skammta og bera það saman við það sem þeir eiga að skammta. Ef kýrnar fá of mikið eða of lítið, þarf að stilla skömmtunina samkvæmt því.

 

Ný fóðurblanda þarfnast nýrrar vigtunar.

Athugun á fóðurmagni ætti að vera gerð reglulega. Hægt er að gera hana einu sinni í mánuði, eða að minnsta kosti í hvert skipti sem skipt er um kjarnfóðurblöndu. Blöndurnar eru misþungar og misrúmmálsmiklar. Þar sem margir fóðurbásar eru annað hvort rúmmáls- eða tímastilltir hefur þyngdarmunurinn áhrif á hversu mikið fóðurbásinn skammtar. Ef nyt kúnna fellur eftir að skipt hefur verið um kjarnfóðurblöndu, þarf það ekkert að þýða að blandan sé léleg, heldur getur einnig verið um að ræða að kýrnar fái einfaldlega ekki nóg.

 

Snorri Sigurðsson

Þýtt og endursagt úr ársskýrslu Dansk Kvæg 2003