Flokkar: Bútækni
11. nóvember 2003

Enn af tölvuvírusum

TÖLVUVÍRUSAR

 

Það er ástæða til að ætla að fleiri og fleiri bændur noti sína eigin tölvu og að þeim verkefnum fjölgi sem unnin eru í tölvu. Í þessum dálki munum við gefa ráð um það hvernig á að forðast það að vírus komist inn í tölvuna.

 

Hvernig á að forðast vírusa?

Mikilvægt er að opna ekki tölvupóst frá einhverjum sem þú býst ekki við að fá tölvupóst frá. Þrátt fyrir það getur vel verið að þú fáir sýktan tölvupóst frá einhverjum sem þú þekkir, því að sá aðili getur hafa fengið vírus í tölvuna sína. Algeng leið fyrir vírusa til að dreifa sér er að nýta heimilisfangaskrána í Outlook eða Outlook Express og svo dreifa þeir sér sjálfir til annarra mótakenda tölvupósts. Viðkomandi aðili í heimilisfangaskránni þinni fær því tölvupóst frá þér, sem þú hefur hreint ekki sent!

 

Meirihluti tölvupóstsvírusa verða virkir þegar viðhengi sýkts tölvupósts er opnað. Þetta gerist hratt þegar tölvupósturinn kemur frá einstaklingi sem þú þekkir. Dæmigerður texti í sýktum tölvupósti getur hljómað einhvernveginn svona: “Hi! How are you? I send you this file in order to have your advice. See you later. Thanks.”

Sem sagt: Ef þú tekur við tölvupósti frá þekktum eða óþekktum einstakling með óvenjulegum texta, sem þar að auki er á ensku, þá skaltu eyða tölvupóstinum strax án þess að opna viðhengið!

Það er einnig mjög mikilvægt að opna aldrei viðhengi með .exe sem endingu nema þegar þú er 100% viss um að hann sé hættulaus.

Það er betra að eyða tölvupósti einu sinni of oft en of sjaldan. Þú getur alltaf haft samband við sendanda og beðið um að fá sendan tölvupóstinn aftur ef það var eitthvað nytsamlegt.

 

Eftirfarandi punktar eru nytsamlegir þegar kemur að vírusvörnum:

  • Opnið aldrei tölvupóst sem kemur frá óþekktum sendanda eða einhverjum sem þú býst ekki við að fá tölvupóst frá. Eyðið þeim úr “inbox” möppunni og að því loknu á að eyða því út úr “deleted items” möppunni ef þú notar Outlook Express (önnur tölvupóstforrit gera þetta sjálf).
  • Vertu tortryggin/nn á viðhengi. Ef þú færð póst með óvenjulegum texta, sem þar að auki er á ensku, þá mælum við með að þú eyðir póstinum strax án þess að opna viðhengið, hvort sem þú þekkir sendandann eða ekki. Það er einnig mikilvægt að opna aldrei viðhengi sem endar á .exe, án þess að vera 100% viss um að það sé hættulaust. Góð regla þegar viðhengi er sent, er að geta þess sérstaklega í sjálfum tölvupóstinum. Mun minni líkur eru á að tölvupóstur innihaldi vírusa ef sendandi getur sérstaklega um viðhengið í sendingunni.
  • Athugið einnig texta tölvupóstsins og heiti viðhengis með því að smella á hægri músartakka á viðkomandi skilaboð og skoða heiti viðkomandi sendingar.
  • Eyðið svokölluðum ruslpósti (t.d. ýmiskonar nettilboð sem þú hefur ekki beðið um) án þess að opna hann, athuga má einnig með að setja upp í tölvupóstinum sjálfvirka eyðingu á slíkum pósti (flest póstforrit bjóða upp á slíka möguleika).
  • Vírusviðvaranir sem berast með tölvupósti, og biðja þig um að fjarlægja einhverja skrá, eru venjulega fölsk skilaboð. Þetta má einnig flokka sem vírus og getur leitt til þess að þú eyðir út mikilvægum skrám í tölvunni. Fullvissaðu þig um að þetta sé í raun vírusviðvörun áður en þú gerir eitthvað.
  • Vertu treg/ur til að senda áfram keðjubréf og tölvupóst í líkingu við það. Ertu viss um að viðtakandi kæri sig um þetta?
  • Vertu tortryggin/inn á heimasíðum sem þú þekkir ekki til, ekki ná í eitthvað af heimasíðum sem þú treystir ekki.
  • Við mælum með að þú verðir þér úti um vírusvarnarforrit sem endurnýjast af sjálfu sér.

 

Vírusvarnarforrit skapar ekki 100% tryggingu fyrir því að þú sleppir við vírusa (til dæmis alveg nýja vírusa), farðu því eftir ráðleggingunum þótt þú sért með þess konar forrit.

 

Þýtt og endursagt úr BUSKAP 05/2003.

Landssamband kúabænda 2003