Flokkar: Bútækni
9. mars 2004

Beiðslisgreining er listgrein

Það skiptir miklu máli hversu vel er fylgst með gangmálum,en þrátt fyrir að vel sé fylgst með og allt skráð niður, verður eftirlit gangmála frekar listgrein en kunnátta.

 

Að kalla beiðslisgreiningu listgrein er ekki gert til að draga kraftinn úr bændum. Það er hinsvegar meint sem skýring á því hvers vegna talað er um að beiðslisgreining sé erfið. Þeir sem hafa með eftirlit gangmála að gera á bæjunum, hafa næga þekkingu á tíðahringnum, sem er yfirleitt 21 dagur, og þekkja hvernig beiðsli skiptist í for-, há- og síðbeiðsli. Þrátt fyrir það, er það þannig að kýr og kvígur eru einstaklingar og hafa misjafna lengd á tíðahring og hegða sér misjafnlega þegar þær eru yxna. Frjóvgunin ætti að eiga sér stað eftir hábeiðslin, svo hvenær er þá best að sæða? Margir biðja um sæðingu of snemma, en hvenær og hversu lengi á að bíða þangað til sæðing er pöntuð? Það skiptir máli að fara eftir sinni eigin tilfinningu. Þess vegna er beiðslisgreining meira en vísindaleg, tæknileg athugun á hverri kú á þriggja vikna fresti. Í þessari grein verður farið í stuttu máli yfir tæknilegu hliðina.

 

Hvað er mikilvægast?

Í beiðslisgreiningu er öll athugun mikilvæg, ásamt því að athuganirnar séu skráðar í dagatal gangmála. Athuganir eins og breytingar á hegðun, óróleiki, forvitni, slím, áferð slímsins, blæðingar, ef kýrin riðlast á öðrum kúm og baul er mikilvægt að skrifa niður. Meira að segja að skrifa hjá sér ef engin breyting er, getur verið mikilvægt þegar maður sér að það myndast munstur um lengd gangmála og tímabilið á milli gangmála kýrinnar. Óveruleg slímmyndun eða möguleg blæðing, getur síðar meir gefið mjög mikilvægar upplýsingar. Það á heldur ekki að hika við að biðja sæðingamanninn eða dýralækninn um hjálp til að sjá mynstrið út frá þeim upplýsingum sem hann skráir niður. Mikilvægt er að vera sammála um hvort kýrin hafi 17 eða 24 daga tíðahring. Einnig ætti að skrifa niður athugasemdir og skilaboð sæðingamanns eða dýralæknis.

 

Einblínt á gangmál

Það kemur fyrir að manni finnst að léleg beiðslisgreining gangi í erfðir milli kynslóða á bæjunum, eða að ræktendur eða nýjir eigendur búsins strefi við að ná tökum á vandanum. Í þeim tilfellum á að einblína á beiðslisgreiningu og búa sér til fastar venjur, eins og auka ferð í fjósið um miðjan dag og að kvöldi til. Það skiptir miklu máli að eyða tíma með dýrunum til að sjá muninn á þeirra venjulegu hegðun og hegðun við gangmál. Hvernig merki um beiðsli má búast við að sjá, fer eftir hvaða tími ársins er og hvort kýrnar séu í lausagöngufjósi eða básafjósi. Auðveldast er að sjá þegar kýr eru yxna að vori og sumri. Ljósið hefur eitthvað með það að gera, en á veturna er mikilvægt að hafa góða lýsingu í fjósinu. Í lausagöngufjósum eða þegar kýrnar eru á beit er auðveldara fyrir þær að riðlast á hverri annarri. Það er ágætis regla að daginn eftir að kýrin riðlast á annarri kú, er hún í hábeiðslum , það er að segja daginn eftir að hún stendur kyrr þegar aðrar kýr riðlast á henni. Baul og óróleiki er einnig greinileg merki um yxni.

 

Slímmyndun og blæðingar
Kýr á básum geta ekki riðlast, en einfaldara getur verið að uppgötva slímmyndun og blæðingar hjá kúm í básafjósi. Þegar kýrin er yxna eru skapabarmarnir bólgnir, rauðir og rakir. Slímið er glært og hægt er að draga út langa slímtauma. Oft er hægt að finna rakar rendur og slím bæði á lendum og á halanum. Blæðingar ættu að verða einum til tveimur dögum eftir sæðingu. Ekki blæðir úr öllum kúm, kýrin getur haldið hvort sem henni blæðir eða ekki. Ef beiðsli eru ekki greinileg  hjá 14 mánaða kvígum eða kúm sex vikum eftir burð ætti að láta dýralækni athuga hvort um sé að ræða einhver vandamál, svo sem blöðrur á eggjastokkum.

 

Snorri Sigurðsson

Byggt á grein úr Buskap 4/2003